Hjónin Myndin er tekin á merkisafmælisdegi Helgu 31. maí 2023.
Hjónin Myndin er tekin á merkisafmælisdegi Helgu 31. maí 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dr. Sigfús Alexander Schopka fæddist 15. desember 1943 í Reykjavík og ólst upp í Skerjafirðinum. Sigfús gekk í Landakotsskóla, Gaggó vest og Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi 1963 hóf hann nám í náttúrufræði við Johann Wolfgang von…

Dr. Sigfús Alexander Schopka fæddist 15. desember 1943 í Reykjavík og ólst upp í Skerjafirðinum. Sigfús gekk í Landakotsskóla, Gaggó vest og Menntaskólann í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi 1963 hóf hann nám í náttúrufræði við Johann Wolfgang von Goethe-háskólann í Frankfurt/Main en hélt svo árið 1965 til frekara náms við Christian Albrechts-háskólann í Kiel og lauk þaðan doktorsprófi í haf- og fiskifræði sumarið 1970.

Sigfús hóf störf á Hafrannsóknastofnun við þorskrannsóknir í ágúst sama ár og tók strax í þeim mánuði þátt í fyrsta alþjóðlega seiðarannsóknaleiðangrinum við Ísland og A-Grænland á vesturþýska rannsóknaskipinu Anton Dohrn. „Í upphafi árs 1971 fór ég með Jóni Jónssyni forstjóra í fyrsta leiðangurinn á nýja rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni til þorskrannsókna á Vestfjarðamiðum. Bjarni er enn í notkun eftir meira en hálfrar aldar úthald. Á mínum Hafró-árum fór ég ófáa leiðangra á Bjarna. Ég var brautryðjandi á Hafró í notkun aldurs-aflaaðferðarinnar við stofnstærðarmat á fiskstofnum. Sér í lagi á þorsk-, ýsu- og ufsastofnunum og vann á áttunda áratugnum að gerð aflaspár fyrir þessar tegundir fyrir Þjóðhagsstofnun.“

Þar sem Sigfús vann við þorskrannsóknir kom hann einnig að útfærslu landhelginnar í 50 og 200 sjómílur. „Síaukin sókn í þorsk varð þess valdandi að stofninn minnkaði hratt sem kallaði á nauðsyn þess að færa landhelgina út. Ég átti mestan þátt í gerð svörtu skýrslunnar svonefndu, þar sem lagt var til að hámarksafli þorsks árið 1976 færi ekki fram úr 230 þúsund tonnum. Skýrslan var lögð fram í samningaviðræðum Geirs Hallgrímssonar forsætisráðherra og Harolds Wilsons forsætisráðherra Bretlands í janúar 1976. Ég var einn þeirra sem tóku þátt í þessum viðræðum og minnist þess að þegar Geir bauð Wilson karfa í skiptum fyrir þorsk, þá bankaði Wilson úr pípu sinni sallarólegur og sagðist ekki einu sinni geta boðið kettinum sínum karfa, hvað þá bresku þjóðinni! Ekki náðist samkomulag þá. Of mikið bar á milli.“

Sigfús var aftur með í samninganefnd Einars Ágústssonar utanríkisráðherra og Matthíasar Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra. Viðræður við Breta fóru fram í Osló um mánaðamótin maí/júní 1976. „Þá var komið annað hljóð í strokkinn af hálfu Breta og sýndi Anthony Crossland utanríkisráðherra Breta meiri samningsvilja og skilning en Wilson enda komin ný ríkisstjórn í Bretlandi undir forsæti James Callaghans. Náðust þá samningar við Breta um að þeir hyrfu alfarið úr landhelginni 1. desember 1976. Ég hef alltaf litið á þetta samkomulag sem eitt það merkasta í sögu þjóðarinnar. Þarna var bundinn endi á mörg hundruð ára veiðar Breta hér við land.“

Árið 1977 var Sigfús styrkþegi Alexander von Humboldt-stofnunarinnar í Þýskalandi við ufsarannsóknir í samstarfi við þýska starfsbræður sína við fiskirannsóknastofnanirnar í Bremerhaven og Hamborg. Þá dvaldi hann vorið 1992 í Jónshúsi í Kaupmannahöfn við rannsóknir á tengslum þorskstofnsins við Grænland og Ísland. Hann tók mikinn þátt í starfi Alþjóðahafrannsóknaráðsins og átti sæti í vinnunefndum ráðsins sem snerta botnfiskstofna við Ísland og var formaður á tímabili í tveimur slíkum nefndum. Þá var hann um tveggja áratuga skeið ýmist aðal- eða varafulltrúi í ráðgjafarnefnd alþjóðahafrannsóknaráðsins um stjórnun fiskveiða.

Hvað veiðiráðgjöf snertir var Sigfús formaður veiðiráðgjafarnefndar Hafrannsóknastofnunar 1984-1991. „Sérstakt veiðiráðgjafarsvið var stofnað 1998 og var ég forstöðumaður þess uns ég fór á eftirlaun. Ég kom einnig að öðrum verkefnum á vegum Hafró, m.a. annaðist ég upphaf hrognkelsarannsókna á árunum 1971-1973 og svo tók ég þátt í togararallinu alveg frá byrjun 1985 og fram undir aldamót.“

Af öðrum störfum má nefna að Sigfús var stundakennari í fiskstofnafræði við Háskóla Íslands um 20 ára skeið. Hann ritstýrði Náttúrufræðingnum 1972-1976, sat í stjórn Germaníu um tíma og er formaður Alexanders von Humboldt-félagsins á Íslandi, en það er félag fyrrverandi íslenskra styrkþega Humboldtstofnunarinnar í Bonn. Vegna starfa sinna í þágu þýsk-íslenskrar vísinda- og menningarsamvinnu var hann sæmdur þýskri orðu árið 1991. Árin 1977-1984 var hann varamaður í stjórn vísindasjóðs og aðalmaður 1985-1987. Þá var hann formaður náttúruvísindadeildar vísindaráðs 1987-1991 og sömu ár fulltrúi Íslands bæði í norræna náttúruvísindaráðinu og náttúruvísindadeild Evrópuráðsins. Á árunum 1998-2002 var Sigfús varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórn Kópavogs.

„Af áhugamálum þá er ég safnari í mér og hef verið með annan fótinn inni á fornbókasölum í áratugi. Eftir að ég lét af störfum lét ég gamlan draum rætast og fór í nám í handbókbandi, fyrst í Kvöldskóla Kópavogs en lengst af hef ég verið á Vitatorgi hjá Hildi Jónsdóttur bókbandsmeistara. Svo hef ég gaman af tónlist, sérstaklega góðum djassi. Í heiðurssæti eru Ella Fitzgerald, Oscar Peterson og gömlu meistararnir Ellington, Basie, Goodman og Armstrong.

Við hjónin eigum okkur athvarf við Stíflisdalsvatn. Þar hef ég stundað silungsveiðar frá því að ég var barn. Auk silungsveiða nýt ég útivistar á sumrin við náttúruskoðun, sér í lagi fuglaskoðun, og stundum, ef svo árar, við berjatínslu, en ég er hættur að planta trjám. Ég vil að náttúran njóti sín – ósnortin.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigfúsar er Helga Skúladóttir, fyrrverandi kennari og bókavörður, f. 31.5. 1943, en þau hjónin luku stúdentsprófi saman 1963. Þau eru búsett í Kópavogi. Foreldrar Helgu voru Skúli Ólafsson deildarstjóri, Garðabæ, f. 11.6. 1911, d. 18.6. 1980, og Guðrún Magnúsdóttir húsfreyja, Reykjavík, f. 10.6. 1915, d. 3.5. 2008.

Börn Sigfúsar og Helgu eru. 1) Valgerður Helga, hönnuður og verkefnastjóri. Fv. sambýlismaður er Jóhann Gottfred Bernhöft, grafískur hönnuður; 2) Júlíus Ingólfur læknir, kvæntur Sigrúnu Jónasdóttur húsmóður; 3) Guðrún Helga lögmaður, sambýlismaður er Birgir Ottó Hillers lögmaður. Barnabörn Helgu og Sigfúsar eru orðin sex talsins.

Systkini Sigfúsar: Lilja, f. 29.4. 1930, d. 21.7. 2007, húsmóðir og skrifstofumaður, bjó í Reykjavík; dr. Sverrir Schopka, f. 13.6. 1938, efnafræðingur og fv. framkvæmdastjóri, búsettur í Þýskalandi; Ragnhildur Cate, f. 16.9. 1939, húsmóðir og sjúkraliði, búsett í Bandaríkjunum, og Ottó Schopka, f. 4.9. 1941, viðskiptafræðingur og fv. framkvæmdastjóri, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Sigfúsar voru hjónin Júlíus Schopka, frá Sandowitz í Efri-Slésíu, Þýskalandi, f. 15.2. 1896, d. 25.1. 1965, kaupmaður og aðalræðismaður Austurríkis í Reykjavík, og Lilja Sveinbjörnsdóttir Schopka, f. 25.11. 1899, d. 28.8. 1997, húsfreyja í Reykjavík.