Sólveig Sigrún Sigurjónsdóttir fæddist á Gunnarshólma á Eyrarbakka 6. mars 1944. Hún lést á heimili sínu 3. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurjón Bjarnason, f. 20. maí 1922, d. 28. feb. 1995, og Guðbjörg Eiríksdóttir, f. 1. nóv. 1922, d. 10. apr. 2004.

Systkini Sólveigar eru: Eiríkur, f. 9. júní 1942, d. 1. jan. 2021, Bjarni, f. 27. ágúst 1945, Elín Margrét, f. 27. maí 1947, d. 28. des. 2006, og Erla, f. 30. nóv. 1949.

Sólveig giftist hinn 31.12. 1963 Steindóri Ingimar Steindórssyni, f. 19. nóv. 1936, d. 2. júlí 2021. Börn þeirra eru: 1) Anna, f. 15. júní 1963, maki Svavar Kristinsson, d. 28. okt. 2017, þau eiga fjögur börn og átta barnabörn. 2) Steindór Ingimar, f. 8. apríl 1967, hann á eina dóttur, barnsmóðir er Rósa Margeirsdóttir. 3) Dagbjört Ósk, sambýlismaður er Guðbjörn Haraldsson. Hún á fjögur börn, barnsfaðir er Björn Magnússon, d. 27. jan. 2023. 4) Jón Þorberg, maki Sigríður Theodóra Kristinsdóttir, þau eiga þrjú börn og eitt barnabarn.

Útför Sólveigar fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 15. desember 2023, klukkan 13.

Það er eitthvað svo skrýtið að mamma skuli nú hafa kvatt þetta líf, nú tekur við nýr kafli í lífi mínu þar sem mamma er ekki nema minning ein og hennar nýtur ekki við lengur. Ég minnist mömmu með hlýju og sú óendanlega væntumþykja sem að hún sýndi okkur fjölskyldunni var algjörlega skilyrðislaus og hrein. Enginn er þó fullkominn og mamma glímdi við sína drauga sem á stundum voru erfiðir henni og fjölskyldunni. Mamma var ólíkindatól og miklaði ekki fyrir sér hlutina heldur oftar en ekki tókst á við þá og stundum með vindinn í fangið. Ég á óljósar minningar úr æsku þegar að ég dvaldi hjá Sonju frænku vegna þess að pabbi hafði veikst og var í sjálfstæðum rekstri á sendibíl og ekki góð staða þegar tekjuflæði minnkaði til heimilisins. Mamma ákvað að hún skyldi keyra bílinn og afla tekna meðan að pabbi næði vopnum sínum. Hún var nú ekkert sérstaklega klöppuð upp með þessa hugmynd hjá stjórnendum Sendibílastöðvarinnar í þá daga en mamma var ákveðin og þrjósk og hafði sitt í gegn og hélt þannig hlutunum gangandi og þetta var ekki einsdæmi þar sem að mamma þurfti að bregðast við í slíkum aðstæðum. Mamma lagði af stað ung út í lífið ekki með alla ása á hendi, æskan oft á tíðum brekka, sveitadvöl á sumrin og fimmtán ára flutti hún að heiman og fór að vinna fyrir sér.

Uppáhaldstími mömmu var vorið og sumarið, um leið og voraði var hún rokin út í garð að gróðursetja og snyrta fyrir sumarið og stundum var líkt og jarðvinnuvél hefði farið um lóðina ef að hún fékk einhverja hugmynd að breytingum í garðinum. Mamma naut þess að ferðast um landið með pabba og okkur krakkana meðan að við entumst í ferðalögum með þeim og ég held að það sé vart sá staður hér á landi þar sem að þau hafa ekki komið.

Ég var oft sem ungur maður ekki auðveldur viðureignar en sama hvað bjátaði á þá mætti ég alltaf ég kærleik hjá mömmu sem reyndi alltaf að höfða til hins góða í samtalinu þegar það þurfti að reyna að leiðrétta kúrsinn. Ég minnist mömmu fyrir hlýjuna sem hún sýndi börnunum mínum, hún fylgdist vel með hvað á daga þeirra dreif. Að lokum þakka ég mömmu fyrir ferðalagið, það var lærdómsríkt en fyrst og fremst fullt af kærleika og ævintýrum.

Guð gefi mér æðruleysi

til að sætta mig við það

sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því

sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli.

(Reinhold Niebuhr.)

Vertu guði geymd.

Jón Þorberg Steindórsson.