Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóra eru óverjandi

Verkfall flugumferðarstjóra hefur nú dunið á íslenskum almenningi og íslenskum flugfélögum í tvígang og fram undan eru frekari aðgerðir nema samningar náist sem lítið útlit er fyrir. Flugumferðarstjórar eru ekki láglaunastétt, þeir eru þvert á móti með mun hærri laun en gengur og gerist. Í fyrra námu meðallaun þeirra tæpum 1,6 milljónum króna á mánuði. Þeir krefjast umtalsverðra hækkana en augljóst er að engin leið er fyrir viðsemjandann að verða við því.

Fram undan eru kjaraviðræður á stærstum hluta almenna markaðarins og hins opinbera. Öllum má ljóst vera, líka forystu flugumferðarstjóra, að útilokað er að samið verði við þá um umtalsverðar launahækkanir á þessari stundu. Þar verða ekki aðrar forsendur en í öðrum samningum.

Sömuleiðis verður að hafa í huga þegar kemur að kjaraviðræðum við flugumferðarstjóra að þetta er fámennur hópur en getur með aðgerðum sínum haft gríðarleg áhrif á allan almenning og efnahag landsins. Það er alls ekki sjálfsagt að slíkur hópur sem sinnir svo þýðingarmiklu starfi eigi að geta sett sig í þá stöðu að nánast loka landinu, hvort sem er tímabundið eða til lengri tíma.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu og íslenskt efnahagslíf í heild hafa gengið í gegnum nægar þrengingar á liðnum árum af ástæðum sem við réðum ekki við. Stjórnvöld eiga ekki að sætta sig við að aðgerðir eins og þær sem nú hefur verið gripið til haldi áfram.