Alls voru gerðir 288 kjarasamningar í yfirstandandi kjaralotu sem hófst í nóvember í fyrra. Frá þeim tíma hækkaði grunntímakaup, sem endurspeglar umsamdar launahækkanir á vinnumarkaðinum, almennt um 9,4%, þ.e.a.s

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls voru gerðir 288 kjarasamningar í yfirstandandi kjaralotu sem hófst í nóvember í fyrra. Frá þeim tíma hækkaði grunntímakaup, sem endurspeglar umsamdar launahækkanir á vinnumarkaðinum, almennt um 9,4%, þ.e.a.s. frá 1. nóvember í fyrra til júlí á þessu ári. Á sama tíma hækkaði verðlag í landinu um 6,2% og hækkaði því kaupmáttur grunntímakaups að meðaltali um 3% á þessum tíma.

Þetta kemur fram í haustskýrslu kjaratölfræðinefndar sem birt var í gær. „Hjá félögum innan Starfsgreinasambandsins, auk Eflingar og BSRB, hækkaði grunntímakaup meira en hjá iðnfélögum, félögum innan Landssambands íslenskra verslunarmanna, BHM og KÍ. Samkvæmt skýrslunni skýrist það af því að hjá hópum þar sem launastig er að meðaltali lægra skiluðu krónutöluhækkanir hlutfallslega meiri launahækkunum,“ segir í kynningu. Sjá má í skýrslunni að á almennum markaði var kaupmáttaraukningin 3,1% á meðan hún var á bilinu 2,5% til 2,6% hjá ríki og sveitarfélögum.

Ef horft er til launa í maí sl. eru meðallaun hæst á almennum vinnumarkaði og hjá ríkinu. „Grunnlaun og regluleg laun voru hæst á almenna markaðinum en regluleg heildarlaun hæst hjá ríkinu. Ríkið greiddi hæstu miðgildislaun á alla þrjá mælikvarða launa, þau voru næsthæst á almennum markaði og loks hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum,“ segir um þennan samanburð. Samanburður á launabreytingum á Norðurlöndum leiðir m.a. í ljós að árið 2022 var launakostnaður á unna stund næsthæstur á Íslandi þegar hann er mældur í sameiginlegum gjaldmiðli. 2019-2022 var árleg hækkun á unna stund hæst hér á landi reiknað í heimagjaldmiðli hvers lands. Í evrum voru launahækkanir á Norðurlöndum 2,5%-3,2% og á þann mælikvarða er Ísland með mesta árlega launahækkun ásamt Finnlandi.