Engill við foss / Jóhannes Kjarval
Engill við foss / Jóhannes Kjarval
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sennilega er einfaldast að hringja í skáldið, tónskáldið eða málarann og spyrja hver meiningin er með sköpunarverkinu.

Vilhjálmur Bjarnason

Einn ágætur vinur minn hefur allt á hornum sér í jólamánuðinum. Ekki það að jólin séu efni til ólundar, heldur hitt að myrkrið vex og útvarpsstöðvar keppast við að spila ný jólalög sem eru verri en nýju jólalögin í fyrra.

Því verður það huggan vinarins að líta í gamlar bækur skálda sem gátu ort. Þannig fann vinurinn myndrænt ljóð í bók:

Vefið mér skikkju villtum rósum,

látið vindinn strjúka mitt gullna hár,

ég skal fylla hjörtu ykkar heitri angan

og hlæjandi sólskini.

Ó, barn, ég er guð þinn,

þitt angur skal verða

heitasta blómið í kórónu lífsins

og krýna mitt höfuð.

(Steinn Steinarr)

Vinur minn hefur dáðst að myndlíkingu þessa ljóðs frá því það upplaukst honum. Vinurinn fékkst eitt sinn við að kenna stærðfræði af ýmsu tagi, eins og geómetríu.

Í þann tíma fann hann annað ljóð:

Á hornréttum fleti

milli hringsins og keilunnar

vex hið hvíta blóm dauðans.

(Steinn Steinarr)

Þetta fannst stærðfræðikennaranum algerlega merkingarlaust þar til lesturinn leiddi til strangflatargeómetríu málarans, þar sem liti er stefnt gegn lit. Eða engum lit, svörtu er stefnt gegn öllum litum, hvítu. Við lestur þessara ljóða, við hlustun á níundu hljómkviðu Beethovens og við nautn af sjónlist varð þessum mislynda vini mínum ljóst að hann hefur mikið frjálsræði við túlkun verka þeirra sem skapa hið fagra.

Sennilega er einfaldast að hringja í skáldið, tónskáldið eða málarann og spyrja hver meiningin er með sköpunarverkinu.

Páskar og jól

Páskar hafa verið viðfangsefnið í mörgum fegurstu verkum í tónbókmenntum, rituðu máli og sjónlistum.

Svo er einnig um jólin. Til eru fallegir jólasálmar eins og:

Nóttin var sú ágæt ein,

í allri veröld ljósið skein,

það er nú heimsins þrautar mein

að þekkja hann ei sem bæri.

Með vísnasöng eg vögguna þína hræri.

(Einar Sigurðsson)

Læknirinn og tónskáldið Sigvaldi Kalalóns samdi lag við þennan fallega sálm.

Svo finnst þessum undarlega vini mínum mest gaman að þýddum ljóðum, sem eru umort, þannig að þýðandinn taki sér leyfi til að láta málið ráða för.

Heims um ból, helg eru jól,

signuð mær son Guðs ól,

frelsun mannanna, frelsisins lind,

frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind

meinvill í myrkrunum lá.

(Sveinbjörn Egilsson)

Málarar og kristin trú

Vinur minn fer stundum á flandur þegar hann er ekki húsum hæfur á heimili. Þá fer vinurinn á söfn og skoðar málverk. Hann hringir aldrei í málarann til að spyrja á hvaða leið þeir séu í málverkinu.

Vinurinn benti ritaranum á nokkur málverk sem höfðu vakið með honum áleitnar spurningar. Vinurinn vissi ekki til þess að Jóhannes Kjarval hefði nokkru sinni tjáð sig um Guð í rituðu máli. Einhver er þó guðstrú málarans í nokkrum málverka hans.

Í Reginsundi sitja þeir himnafeðgar andspænis guðsmóðurinni í skipi, tækni kirkjunnar með fiskinn, leyniorðið fyrir Jesú.

Andspænis hinum miklu kröftum í náttúrunni er engill við fossinn:

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Í altaristöflunni, sem var hafnað í kirkjunni á Ríp í Hegranesi, leggst frelsarinn fyrir Jóhannes skírara. Myndin var túlkuð klúr og ljót í Rípursókn. Yfir höfði frelsarans er tákn friðar, dúfan. Vinur minn fer stundum að Gljúfrasteini til að skoða Jóhannes skírara og frelsarann. Vinurinn hefur aðra skoðun en norðanfólkið.

Krossinn

Krossinn varð tákn kirkjunnar vegna krossdauða frelsarans. Vinur minn veit ekki hvort kross fórnardauðans var í gullinsniði. Gullinsnið er viðfangsefni stærðfræðinnar.

Karl Kvaran fæst við krossinn í nokkrum verka sinna. Svartir krossar á hvítum grunni. Enginn litur hvílir á öllum litum.

Annar krossinn er traustur, tvöfaldur, hinn er sundurtættur, sennilega kross óreiðunnar um páska. En það er von. Blái liturinn er tákn vonarinnar. Jól og birta

Það birtir um jólin. Sólin birtist fólkinu á Vestdalseyri á kyndilmessu, en þá var frelsarinn borinn í helgidóminn.

Um þessi jól verður beðið fyrir friði í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs.

Á nýársdagsmorgni njótum við svo hljómkviðunnar um bræðralag mannanna.

Með von um gleði og frið á jólum.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason