Barbari Gunnar Thor Örnólfsson aftast, svo Karl Friðrik Hjaltason og Páll Sólmundur H. Eydal, og Ragnar Pétur Jóhannsson fremstur.
Barbari Gunnar Thor Örnólfsson aftast, svo Karl Friðrik Hjaltason og Páll Sólmundur H. Eydal, og Ragnar Pétur Jóhannsson fremstur.
Rakarakvartettinn Barbari hélt fyrstu jólatónleika sína í Dómkirkjunni í Reykjavík á snjóþungum degi í fyrra, 17. desember, og reynslunni ríkari býður hann til veislu á sama stað en degi seinna í dagatalinu í ár, klukkan 20.00 mánudaginn 18

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Rakarakvartettinn Barbari hélt fyrstu jólatónleika sína í Dómkirkjunni í Reykjavík á snjóþungum degi í fyrra, 17. desember, og reynslunni ríkari býður hann til veislu á sama stað en degi seinna í dagatalinu í ár, klukkan 20.00 mánudaginn 18. desember. „Við sáum að 17. desember gengur ekki,“ segir Gunnar Thor Örnólfsson, einn stofnenda kvartettsins.

Fjórir menntaskólapiltar stofnuðu kvartettinn þegar þeir voru á lokaári í MR haustið 2013. Barbari hefur víða komið fram síðan en mannaskipti hafa orðið, tveir hætt og aðrir komið í staðinn. Liðsmenn nú eru Gunnar Thor, Karl Friðrik Hjaltason, Páll Sólmundur H. Eydal og Ragnar Pétur Jóhannsson.

Skyggja á Júróvisjón

„Við syngjum í bandarískum stíl og erum óttalegir barbarar í því,“ segir Gunnar Thor um nafn kvartettsins, sem sérhæfir sig í svonefndri rakarastofutónlist, þar sem líflegur hljómagangur, þéttur samhljómur og mikil raddleg tilþrif njóta sín. Ragnar Pétur er bassasöngvari kvartettsins en hinir skiptast á um að leiða sönginn og syngja aðrar raddir. „Það er enginn rakari í hópnum en við erum allir mjög virkir söngvarar og syngjum í hinum og þessum kórum.“ Rakarakvartettinn hafi einnig sungið víða og meðal annars haldið Valentínusartónleika. „Við höfum sungið á árshátíðum, í afmælum, á vinnustaðaskemmtunum og svo framvegis.“ Hann bætir við að Karl Friðrik og Ragnar Pétur séu atvinnusöngvarar og sá síðarnefndi hafi meðal annars sett upp óperur. „Palli er náttúrutalent og ég var í Tónlistarskólanum í Reykjavík.“

Upphaflegi hópurinn keppti í söngkeppni framhaldsskólanna á síðasta ári í MR. „Við sigruðum í keppninni í MR, en náðum ekki alveg jafngóðum árangri í úrslitakeppninni á Akureyri, vöktum samt mikla lukku,“ rifjar Gunnar Thor upp.

„Við höfum uppfært dagskrána frá því í fyrra og syngjum alls konar jólaslagara, Hollywood-slagara í anda Nats Kings Coles, Franks Sinatra og annarra í barbershop-útsetningum,“ segir Gunnar Thor um jólatónleikana, en miðar eru seldir á netinu (tix.is) og við innganginn. Kvartettinn hafi fengið inni í Dómkirkjunni með æfingar, tengingin eigi sér langa sögu og því sé kirkjan eðlilegur tónleikastaður. „Þrír okkar hafa sungið með Dómkórnum og þegar við vorum í MR-kórnum forðum daga var Kári Þormar fyrrverandi dómorganisti kórstjóri okkar.“

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva verður í Malmö í Svíþjóð í maí, undankeppnin 7. og 9. maí og úrslitakeppnin 11. maí. Barbari hefur sett markið enn hærra og ætlar að taka þátt í alþjóðlegri keppni rakarastofusöngvara á vegum Society of Nordic Barbershops Singers. „Hún verður í Helsingborg 9.-11. maí, sömu helgi og Júróvisjón verður í Malmö,“ segir Gunnar Thor og lætur í það skína að Júróvisjón eigi eftir að falla í skuggann af keppninni í nágrenninu. „Og við vonumst líka til að sjá sem flesta í Dómkirkjunni klukkan átta á mánudagskvöld.“