Afmælisbarnið Herbert í myndatökum hjá Ástu Kristjáns í mars sl.
Afmælisbarnið Herbert í myndatökum hjá Ástu Kristjáns í mars sl.
70 ára Herbert er Reykvíkingur, ólst upp í Laugarneshverfi en býr í Hólahverfinu í Breiðholti. Herbert hóf snemma tónlistariðkun og var sautján ára gamall…

70 ára Herbert er Reykvíkingur, ólst upp í Laugarneshverfi en býr í Hólahverfinu í Breiðholti.

Herbert hóf snemma tónlistariðkun og var sautján ára gamall farinn að syngja í Glaumbæ með hljómsveitinni Tilveru og síðar með fleiri þekktum hljómsveitum. Hann gaf út plötu með hljómsveitinni Eik 1977 og hljómsveitinni Kan 1984 en fyrsta sólóplatan hans kom út 1985. Hún hét Dawn of the Human Revolution og innihélt stórsmellinn Can’t Walk Away. Hann hefur síðan sent frá sér fjölmargar plötur og von er á best of vínylplötu frá honum. „Ég gef annars núna út singúla og er með lag í 3. sæti á Bylgjunni. Það heitir Þú veist það nú. Svo er ég með fimm önnur lög í farvatninu.“

Það er nóg að gera hjá Herbert í tónlistinni og mun hann halda stórafmælistónleika 8. mars næstkomandi í Háskólabíói. Þar verður hann með einvalalið tónlistarmanna.

Herbert fer í ræktina á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum og er með einkaþjálfara. „Hina dagana er ég í stúdíói með pródúsentinum mínum, Halldóri Á Björnssyni, sem er algjör snillingur. Svo eru lögin send til Austurríkis og hljóðblönduð af Lukasi Hillebrand sem hefur átt marga smelli.“

Fjölskylda Börn Herberts með Önnu Maríu Hjartardóttur eru Hjörtur Þór, f. 1974, Róbert Már, f. 1980, og María Anna, f. 1982. Börn Herberts með Svölu Guðbjörgu Jóhannesdóttur eru Herbert Ásgeir, f. 1984, Svanur, f. 1990 og Guðmundur, f. 1992. Stjúpsonur Herberts og sonur Svölu er Jóhannes Arason, f. 1981. Barnabörnin eru átta blóðtengd og fjögur á ská.

Foreldrar Herberts voru hjónin Hólmfríður Magdalena Bergmann Carlsson, f. 1923, d. 2021, vann lengst af hjá O. Johnson & Kaaber, og Guðmundur Ragnarsson, f. 1920, d. 1981, smyrjari, síðast hjá Jöklum ehf. Þau voru búsett í Reykjavík.