Deiluefni Tekist er á um stöðu Landsvirkjunar í umsögn ráðuneytis.
Deiluefni Tekist er á um stöðu Landsvirkjunar í umsögn ráðuneytis. — Ljósmynd/Aðsend
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Verð á raforku til almennra notenda mun hækka mikið ef til orkuskorts kemur og ekki verður gripið til sérstakra aðgerða til varnar almennum notendum.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Verð á raforku til almennra notenda mun hækka mikið ef til orkuskorts kemur og ekki verður gripið til sérstakra aðgerða til varnar almennum notendum.

Þetta kemur fram í minnisblaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Nánar tiltekið kemur þetta fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn atvinnuveganefndar. Leitaði ráðuneytið til Orkustofnunar, Landsnets og Landsvirkjunar við vinnslu svara.

Minnisblað ráðuneytisins var birt á vef Alþingis en hefur síðan verið fjarlægt.

Fyrirsjáanlegur skortur

Þessari niðurstöðu varðandi hugsanleg áhrif skorts á raforkuverð fylgir kafli um hvernig ójafnvægi getur myndast í kerfinu ef eftirspurn er kerfisbundið meiri en framboð. Framar í minnisblaðinu, í almennri umfjöllun, segir að um nokkurn tíma hafi „verið fyrirsjáanlegt að til framboðsskorts kunni að koma á þeim hluta raforkumarkaðar sem sinnir notendum öðrum en stórnotendum“. Ráðuneytið hafi um tíma unnið að því að koma til móts við vandann. Rafmagn er meðal undirliða vísitölu neysluverðs og myndi mikil hækkun raforkuverðs því meðal annars birtast í aukinni verðbólgu.

Gagnrýna eftirlitið

Ráðuneytið gerir jafnframt athugasemdir við umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpsdrögin. „Ráðuneytið telur að gera þurfi ákveðnar athugasemdir við sjónarmið Samkeppniseftirlitsins. Áréttað er að frumvarpið kemur ekki í veg fyrir að stofnað sé til nýrra skuldbindinga við stórnotendur en fyrirtæki geti ekki ofselt sig og aflað síðan mismunarins hjá Landsvirkjun. Eftirlitið virðist hins vegar líta svo á að slíkt fyrirkomulag sé æskilegt. Þá fær ráðuneytið ekki séð að staða Landsvirkjunar sé styrkt,“ segir orðrétt í minnisblaðinu. Vekur þetta athygli en Samkeppniseftirlitið telur „að næði frumvarpið óbreytt fram að ganga væri mjög líklega verið að styrkja markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar“.

Ekki lagalegar hindranir

Jafnframt er tekin fyrir spurning atvinnuveganefndar um hvað standi í vegi þess að stórnotendur geti selt ónotaða raforku inn í kerfið aftur. „Hvað mælir gegn því að stórnotendum verði gert kleift, þrátt fyrir mögulega samningsskilmála sem það hindra, að endurselja ónýtta orku inn á raforkukerfið á árinu 2024?“ er spurt í minnisblaðinu.

Svar ráðuneytisins er að ekki séu lagalegar hindranir fyrir endursölu orku en að bann við endursölu fyrirfinnist í samningum orkusala við sína notendur. Þá er á það bent að í raforkukerfinu hérlendis séu flutningstakmarkanir sem geti haft áhrif á möguleika til endursölu stórnotenda.

Einnig er spurt hvað megi áætla að mikil orka sem bundin er samningum sé ekki nýtt að meðaltali í hverjum mánuði og innan hvers dags.

„Sú orka sem ekki er nýtt í samningum er að nær öllu leyti skerðanleg orka. Þ.e. orka sem þegar er heimild til að skerða ef vatnafar er óhagstætt. Endurkaup á þeirri orku auka ekki orkuöryggi almenns markaðar, þ.e. þá orkuafhendingu má skerða þegar herðir að,“ segir í svari ráðuneytisins um þetta atriði.

Vísað til starfshóps

Loks er í minnisblaðinu vitnað í umsagnir Landsnets, HS Orku, Orku náttúrunnar og Viðskiptaráðs en þar sé lagt til að markaðsráðandi vinnsluaðila beri að tryggja framboðsöryggi fyrir hlutdeild allra notenda annarra en stórnotenda. Vísað sé til tillagna fyrri starfshóps hvað þetta varðar.

„Þessi tillaga er að mati ráðuneytisins ekki raunhæf eða æskileg. Ástæðan fyrir frumvarpinu er sú að takmarkað magn raforku er í boði. Væri Landsvirkjun, sem markaðsráðandi aðila, gert að tryggja framboð fyrir hlutdeild annarra í markaðnum væri framboðsstaðan enn verri. Áréttað er að markmið frumvarpsins er að koma í veg fyrir að keypt verði raforka af markaðsráðandi framleiðanda, ætluð almennum notendum, en orkan síðan seld stórnotendum.“