Repúblikani Lindsey Graham var ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi Bandaríkjaforseta í Úkraínumálinu. Aðstoð hefði átt að berast hraðar.
Repúblikani Lindsey Graham var ómyrkur í máli þegar hann gagnrýndi Bandaríkjaforseta í Úkraínumálinu. Aðstoð hefði átt að berast hraðar. — AFP/Kevin Dietsch
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham gagnrýnir ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta harðlega þegar kemur að stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu. Segir hann forsetann hafa verið allt of hikandi við að veita Úkraínuher nauðsynleg vopnakerfi til að verjast innrás Rússlands og í kjölfarið endurheimta fallin landsvæði. Nauðsynlegt sé að tryggja sigur Úkraínu, ellegar aukist mjög líkur á útbreiddum átökum.

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Öldungadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Lindsey Graham gagnrýnir ríkisstjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta harðlega þegar kemur að stuðningi Bandaríkjanna við Úkraínu. Segir hann forsetann hafa verið allt of hikandi við að veita Úkraínuher nauðsynleg vopnakerfi til að verjast innrás Rússlands og í kjölfarið endurheimta fallin landsvæði. Nauðsynlegt sé að tryggja sigur Úkraínu, ellegar aukist mjög líkur á útbreiddum átökum.

„Úkraína er alls ekki að tapa þessu stríði. Þeir hafa svo gott sem eytt hálfum herafla Rússlands, endurheimt helming þess landsvæðis sem Pútín [Rússlandsforseti] hrifsaði til sín og ef við höldum áfram að veita þeim aðstoð mun þeim vegna enn betur,“ sagði Graham í viðtali við FoxNews. Bætti hann við að heimurinn myndi standa frammi fyrir „útbreiddari stríðsátökum“ yrði Rússlandi leyft að leggja Úkraínu á vígvellinum.

Sagði hann Bandaríkjaforseta ekki í neinni stöðu til að veita öðrum ráð varðandi Úkraínustríðið. Forsetinn hefði algerlega brugðist sínu hlutverki og veitt nauðsynlega aðstoð bæði seint og illa.

„Hefði Biden forseti í upphafi afhent Úkraínu nauðsynleg vopnakerfi þá hefðu þeir staðið sig enn betur en þeir hafa gert í dag. Hann var tregur til að afhenda orrustuskriðdreka, vildi ekki láta þá fá F-16-orrustuþotur né heldur langdræg stórskotaliðskerfi. Hann hefði jafnvel getað staðið uppi í hárinu á Pútín áður en til innrásar kom, en vildi ekki koma fram sem ögrandi.“

Mikil hætta á hryðjuverki

Segir Graham Bandaríkin nú standa frammi fyrir öryggisógn sem helst má líkja við þann tíma sem ríkti eftir 11. september 2001. Bendir hann á að bandaríska alríkislögreglan (FBI) segi mikla hættu steðja að Bandaríkjunum og þjóðinni allri. Hreyfingar íslamista séu nú að hvetja liðsmenn sína til árása gegn bandarískum skotmörkum. Ástæða þessa sé einkum sú aðstoð sem Bandaríkin hafa veitt Ísrael í kjölfar þess mikla ódæðis sem hryðjuverkasamtök Hamas frömdu 7. október síðastliðinn. Á meðan staðan sé svona geta Bandaríkin, að sögn Grahams, ekki veitt Úkraínu frekari hernaðaraðstoð. Huga verði að öryggismálum heima fyrir.

„Líkur á nýju hryðjuverki í anda þess sem við sáum 11. september aukast dag frá degi. Ég vil hjálpa Úkraínu og mun hjálpa Úkraínu. En Biden, sem leiðtogi, er fjarverandi þegar verja þarf landamæri okkar. […] Ég get hins vegar ekki kosið með aðstoð við Úkraínu, Ísrael né Taívan fyrr en búið er að tryggja landamæri okkar,“ segir hann.

Skortur á hergögnum

Marína Miron, sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum við King's College í Lundúnum, segir Úkraínuher brátt munu klára skotfæri sín af gerðinni 155 mm, sem m.a. eru notuð í hábyssur. Þörfin fyrir vestræna hernaðaraðstoð hafi í raun aldrei verið meiri en einmitt nú – þegar ýmislegt bendir til að aukin aðstoð sé ekki sjálfgefin.

„Úkraína þarf einnig á þungavopnum að halda, svo sem orrustuskriðdrekum. Að auki þurfa þeir augljóslega flugvélar, F-16-orrustuþotur, fleiri eldflaugar og loftvarnir,“ segir hún í samtali við Deutsche Welle.

Ljóst er að stórsókn Úkraínu gekk ekki eftir sem skyldi í sumar og segir Miron Úkraínumenn í vetur þurfa að leggja allt kapp á að halda í þau landsvæði sem enn tilheyra þeim. Hvort það takist sé óljóst.

Fjölmennt innrásarlið

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segir varnarmálaráðuneytið hafa sent alls 617 þúsund hermenn til átaka í Úkraínu. Leyniþjónusta Bandaríkjana telur víst að 315 þúsund rússneskir hermenn hafi fallið eða særst í stríðinu frá upphafi átaka.

„Víglínan er yfir tvö þúsund kílómetra löng og það eru 617 þúsund hermenn á átakasvæðinu,“ sagði Pútín á fjölmennum blaðamannafundi í gær.

Á sama tíma bárust fréttir frá höfuðstöðvum NATO þar sem varað var við frekari landvinningum Rússlands í Evrópu.