Steindór „Blóðmeri er góð glæpasaga. Steindór Ívarsson er greinilega vel að sér í því sem máli skiptir í uppbyggingunni og veltir við hverjum steini.“
Steindór „Blóðmeri er góð glæpasaga. Steindór Ívarsson er greinilega vel að sér í því sem máli skiptir í uppbyggingunni og veltir við hverjum steini.“ — Morgunblaðið/Hallur Már
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpasaga Blóðmeri ★★★★· Eftir Steindór Ívarsson. Sögur útgáfa 2023. Kilja. 251 bls.

Bækur

Steinþór

Guðbjartsson

Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er lýsandi fyrir Blóðmeri, nýja glæpasögu eftir Steindór Ívarsson. Ofbeldi og hryllingur eru alltumlykjandi og menn fá svo sannarlega að finna fyrir því hvar Davíð keypti ölið.

Hormón hefur lengi verið unnið úr blóði fylfullra hryssna og því til varnar hefur verið bent á að blóðmerahald á Íslandi stangast ekki á við lög um meðferð dýra. Töluverð umræða varð um málið eftir að erlend dýaverndarsamtök mynduðu í leyfisleysi blóðtöku úr fylfullum hryssum hérlendis og birtu opinberlega myndband af framkvæmdinni fyrir um tveimur árum. Höfundur er greinilega undir áhrifum af þessari umræðu og hluti bókarinnar fjallar um blóðmerahald, blóðtöku og viðbrögð, sem minna á hrópin samtökunum til stuðnings eftir að starfsemin var gerð tortryggileg. Einn þingmaður var áberandi í umræðunni, talaði um dýraníð og vildi banna blóðmerahald, en blóðmerabændur svöruðu þingmanninum fullum hálsi. Í Blóðmeri lætur Karl Karlsson, helsti blóðmerabóndi landsins, öllum illum látum í vörn sinni, nafn bókarinnar vísar til búskaparháttarins og blóðið rennur vel og lengi í sögunni, sem gerist 2022 og á rætur að rekja til atburðar 1990.

Strax á fyrstu síðu er augljóst hvert stefnir. Síðustu andartökum deyjandi manns er lýst eftir að morðingi hefur rakið ástæðuna í stórum dráttum. Þetta er forsmekkur að því sem koma skal og viðbjóðurinn verður æ skýrari. Fleiri tengjast málinu en ætla má í fyrstu og sagan teygir meðal annars anga sína til Þýskalands, þar sem finna má sambærileg atvik. Rannsóknin er í öruggum höndum Rúnu og Hönnu og þótt málið dragi þær inn í nokkur öngstræti miðar þeim í rétta átt.

Morð er ekki viðurkennt í venjulegu samfélagi og með það í huga er ódæðið í sögunni rannsakað í þaula. Þar er allt samkvæmt bókinni og samviskusamlega greint frá verklagi lögreglu og annarra sem hlut eiga að máli. Allir gera það sem fyrir þá er lagt, hvort sem þeim líkar það eða ekki, og ef eitthvað er er framgangan betri en búast má við. Lýsingar á helstu persónum og vinnuaðferðum þeirra eru raunsæislegar og endurspegla venjuleg samskipti. Spennan snýst ekki aðeins um að vera á undan morðingjanum eða morðingjunum í næsta skrefi heldur fylgir hún ákveðnum persónum og stigmagnast eftir því sem á líður.

Nauðgun er með verstu og viðbjóðlegustu glæpum, en ekki verður við öllu séð og margir hafa komist upp með voðaverkin. Í Blóðmeri er tekið á þessum hrottaskap og farið djúpt ofan í samskipti karla og kvenna. Í mörgum tilvikum virðist allt slétt og fellt á yfirborðinu en þegar betur er að gáð er grunnt á illskunni, hrottaskapnum, limlestingunum og ósvífninni. Meðvirknin bætir ekki úr skák, en takmörk eru fyrir öllu, Hægt er að leita sér aðstoðar og þótt misindismenn komist upp með að fara ekki að lögum og séu ekki færðir opinberlega til saka sleppa þeir aldrei frá verknaðinum. Hann er hluti af þeim og þeir ná ekki að flýja undan honum, ekki frekar en þeir sem brotið er á. Misnotkunin minnir stöðugt á sig.

Erlent vinnuafl hefur aukist til muna á Íslandi undanfarin ár og bændur hafa lengi fengið aðstoð utan frá, ekki síst hrossabændur. Fólk hefur komið og unnið sveitastörf í lengri eða skemmri tíma og svo virðist sem því hafi almennt líkað vel auk þess sem vel hefur verið látið af því. En oft er misjafn sauður í mörgu fé, jafnt innlendu sem erlendu. Í Blóðmeri er varpað ljósi á misnotkun af ýmsu tagi og viðbrögð við henni. Þar kennir ýmissa grasa.

Blóðmeri er góð glæpasaga. Steindór Ívarsson er greinilega vel að sér í því sem máli skiptir í uppbyggingunni og veltir við hverjum steini. Rúna dregur jafnvel Sundlaug Vesturbæjar inn í rannsóknina með þeim orðum að ekkert megi útiloka og heyrst hafi að margir samkynhneigðir menn fari reglulega í laugina! Forvitni og góðmennska Fríðu, saklausrar eldri konu, leynir sér ekki og Eyjólfur stjanar við Rúnu, en andstæðurnar – grimmdin, skepnuskapurinn, mannvonskan og hatrið – eru öllu yfirsterkari.