Góður vinur minn, Guðmundur Arnfinnsson, lést 8. desember sl. 87 ára að aldri. Við höfðum verið góðir vinir síðan í Menntaskólanum á Akureyri og kváðumst þá á. Strax í 2. bekk vakti Guðmundur athygli fyrir skáldgáfu sína, orti mikið og vel,…

Góður vinur minn, Guðmundur Arnfinnsson, lést 8. desember sl. 87 ára að aldri. Við höfðum verið góðir vinir síðan í Menntaskólanum á Akureyri og kváðumst þá á. Strax í 2. bekk vakti Guðmundur athygli fyrir skáldgáfu sína, orti mikið og vel, sannkallað skólaskáld og snjallastur hagyrðinga, en þá héldum við úti Lausavísnaþætti. Við efndum til verðlaunasamkeppni hver gæti botnað best þennan fyrripart:

Augum renna ungir menn

út á kvennavistir.

Verðlaunabotninn átti Guðmundur:

Bogann spennir amor enn,

ásta- kennir -listir.

Þá birti hann m.a. ljóðið Vor:

Dagurinn blikar við bláan ós

– og blærinn syngur í greinum.

Og hvað boða söngfugl og sumarrós,

ef segðu þau ekki neinum

að senn er liðin hin langa nótt

og ljósið skín aftur um glugga.

Nú læðist hún út í loftið blátt

og leitar að sínum skugga.

Það eru margir sem minnast Guðmundar með hlýju. Ég fékk fallegt bréf og satt frá Sigrúnu Haraldsdóttur á mánudag: „Ég sá á Boðnarmiði að okkar góði Guðmundur Arnfinnsson hefur lokið lífsgöngu sinni. Mér fannst hann yndislegur maður og afburða gott skáld, bestur þeirra sem Boðnarmjöð bergja.

Ég setti saman þessa litlu vísu:

Guðmundur Arnfinnsson kvaddur

Leiði þig um loftsins vegi

ljóssins dýrðarbjörtu andar.

Þér minn fylgja þökk og tregi

þulur, heim til nýrrar strandar.“

Eins og lesendur Vísnahorns vita var laugardagurinn helgaður Guðmundi og gátum hans. Þær voru vel kveðnar og skýrar, það var bjart yfir þeim og lausn þeirra fylgdi skemmtileg limra, sem fyllti upp í myndina.

Magnús Halldórsson sendir þessa kveðju:

Þótt yrki gátu einhver lengur,

aldrei verður jafns á von.

Genginn er sá góði drengur,

Guðmundur minn Arnfinnsson.

Ég hlýt að skilnaði að þakka Guðmundi vináttu og gott samstarf. Hann setti mark sitt á Vísnahorn, ávallt vandvirkur og brást hvergi. Það eru menn eins og hann sem halda manni við efnið. Honum á ég mikið að þakka.