Kaupmannahöfn Peter Dahl, yfirmaður öryggismála hjá lögreglunni, og Flemming Dreier, yfirlögregluþjónn hjá dönsku öryggislögreglunni, PET.
Kaupmannahöfn Peter Dahl, yfirmaður öryggismála hjá lögreglunni, og Flemming Dreier, yfirlögregluþjónn hjá dönsku öryggislögreglunni, PET. — AFP/Martin Sylvest
Þrír voru handteknir í gærmorgun í Danmörku grunaðir um skipulagningu hryðjuverka. Danska öryggislögreglan PET ásamt lögreglusveitum úr fimm umdæmum stóð að handtökunum en aðgerðin var hluti af verkefni í samvinnu við lögregluna í Þýskalandi og víðar

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Þrír voru handteknir í gærmorgun í Danmörku grunaðir um skipulagningu hryðjuverka. Danska öryggislögreglan PET ásamt lögreglusveitum úr fimm umdæmum stóð að handtökunum en aðgerðin var hluti af verkefni í samvinnu við lögregluna í Þýskalandi og víðar. Í Rotterdam í Hollandi var einn maður handtekinn um morguninn en seinna um daginn var tilkynnt að hann tengdist ekki málinu í Danmörku. Þá handtók þýska lögreglan fjóra sem grunaðir eru um að hafa komið að undirbúningi hryðjuverka á stofnanir gyðinga. Eru fjórmenningarnir grunaðir um að tilheyra hryðjuverkasamtökunum Hamas.

Mennirnir sem handteknir voru í Danmörku sæta nú varðhaldi í hámarksöryggisgæslu að sögn danska fréttablaðsins Berlingske. Rannsókn málsins stendur yfir og hefur danska lögreglan ekki viljað láta mikið uppi um málið. Benjamín Netanajahú forseti Ísraels sagði í gær að málið tengdist Hamas-samtökunum, en það hefur ekki verið staðfest í Danmörku.

Hefur vakið hörð viðbrögð

„Þetta var hópur sem var að skipuleggja hryðjuverk,“ sagði Flemming Drejer, yfirmaður aðgerða hjá PET-öryggislögreglunni, á blaðamannafundi í gær. Hann sagði að hinir grunuðu væru tengdir skipulagðri glæpastarfsemi, bæði í Danmörku og erlendis.

Er hættustig hryðjuverkaógnar í Danmörku nú á fjórða stigi af fimm og að sögn Drejers verður lögreglan meira áberandi í Kaupmannahöfn og víðar næstu daga.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð í Danmörku og telja margir að mennirnir séu múslimar, en það hefur ekki verið staðfest. „Við höfum í nokkur ár orðið vör við að hér sé fólk sem er á móti dönsku þjóðfélagi og óskar okkur ekki velfarnaðar, er á móti lýðræðinu, frelsinu,“ sagði forsætisráðherra Dana, Mette Frederiksen, í gær.

„Við stöndum fyrir jafnrétti kynjanna. Við erum hlynnt því að samkynhneigðir geti gengið um göturnar án þess að verða fyrir ofsóknum. Svona lagað þolir þetta fólk ekki og þess vegna er það á móti okkur. Við megum ekki gefa eftir. Vegna þess að í hvert skipti sem við gefum eftir þá vex þeim ásmegin,“ sagði Steffen Larsen, formaður laganefndar danska þingsins.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir