Helga María Halldórsdóttir fæddist 6. mars árið 1936 í Króki, Gaulverjabæjarhreppi. Hún lést á líknardeild Landspítala Landakoti 27. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Halldór Bjarnason, f. 7. nóvember 1888, d. 1. nóvember 1988 og Lilja Ólafsdóttir, f. 27. ágúst 1892, d. 30. júní 1974. María var yngst tíu systkina sem eru Stefán Helgi, f. 1917, d. 1991; Bjarni, f. 1918, d. 2006; Ólafur, f. 1920, d. 2013; Ingibjörg, f. 1922, d. 2017; Guðfinna, f. 1924, d. 1988; Bjarni, f. 1926, d. 1957; Páll Axel, f. 1928, d. 2014; Gísli, f. 1931, d. 2013; Guðmundur, f. 1933.

María giftist Ásgeiri Jónssyni, f. 22 .mars 1942, frá Hveragerði í desember 1969. Börn þeirra eru: 1) Halldór, f. 1969, fyrrv. maki Unnur Þormóðsdóttir, f. 1968, börn þeirra eru: a) Ásdís Mjöll, f. 2000, maki Steindór Ingason og er sonur þeirra Birnir Rafn, f. 2022, b) Logi Fannar, f. 2009. Núverandi maki Halldórs er Sonja Arnarsdóttir, f. 1972. 2) Guðrún, f. 1971, fyrrv. maki Jón Hannes Karlsson, f. 1968, börn þeirra eru: a) Ásgeir Theodór, f. 2003 og b) Hafdís Lilja, f. 2007. Núverandi maki Guðrúnar er Hreiðar Árni Magnússon, f. 1970. 3) Lilja, f. 1973, maki Steindór Eiríksson, f. 1970, börn þeirra eru: a) Helga María, f. 1998 og b) Elías Pétur, f. 2005. 4) Bjarney, f. 1975.

María ólst upp á bænum Króki í Gaulverjabæjarhreppi en árið 1968 flutti hún til Hveragerðis þar sem hún og Ásgeir bjuggu til ársins 2019 er þau fluttust til Reykjavíkur. Hún var heimavinnandi húsmóðir þar til börnin voru orðin stálpuð og sá hún um barnauppeldi og heimilishald af mikilli alúð og natni.
Árið 1986 hóf hún störf á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og starfaði þar til 67 ára aldurs.

María hafði alla tíð mikla ánægju af og áhuga á garðrækt og blómum. Hún hafði einnig alltaf gaman af því að teikna og á efri árum bættist postulínsmálun við áhugamál hennar.

Útför hennar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 15. desember 2023, kl. 13 og verður jarðsett í Villingaholtskirkjugarði að athöfn lokinni.

Elsku mamma kvaddi okkur þann 27. nóvember síðastliðinn. Hún var fædd í Króki í Gaulverjabæ árið 1936 og átti sína æsku og rætur þar. Hún var yngsta barn foreldra sinna og ólst upp í stórum systkinahópi eins títt var í þá tíð. Þótt barnahópurinn hafi verið stór, á breiðu aldursbili, og kjörin eflaust verið kröpp var nóg af kærleik og ástúð í uppeldinu og það fylgdi henni alla ævi. Hún lifði því tímana tvenna í bókstaflegri merkingu, fædd og uppalin í torfbæ fyrstu ár ævi sinnar. Sterkar tengingar við náttúruna og umhverfi sitt öðlaðist hún snemma og þótt Flóinn sé flatur þá er fjallasýnin tilkomumikil. Það er mér sérstaklega minnisstætt er ég átti leið niður Gaulverjabæjarveginn á stilltum og björtum febrúardegi fyrir nokkrum misserum. Loftið var kristaltært og fjallahringurinn skartaði sínu allra fegursta, baðaður vetrarsól. Einhvern veginn fannst mér ég upplifa svo sterkt þá fegurð sem hún hafði svo oft lýst fyrir mér og ákvað að hringja í hana. Þegar ég fór að lýsa því sem fyrir augu bar fann ég að hún lifnaði öll við og þetta var greinilega upplifun sem hún þekkti vel og átti sterkar og skýrar minningar um.

Mamma og pabbi hófu sinn búskap í Hveragerði og fljótlega vorum við, börnin þeirra, orðin fjögur. Þótt hún nyti þess ekki lengur að hafa útsýnið sitt úr Flóanum þá hafði hún stóran garð sem hún nostraði við alla tíð meðan hún hafði heilsu til. Löngum stundum naut hún þess að horfa á blómaskrúðið sitt á björtum sumarkvöldum.

Uppeldi okkar systkina var forgangi hjá mömmu. Hún fór ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en við vorum orðin stálpuð. Ekki öll börn hafa búið við þau forréttindi sem við systkinin nutum í þessu og búum að enn þann dag í dag. Alltaf voru vinir okkar systkina velkomnir með í leik á Þelamörkina og gat barnaskarinn oft á tíðum orðið stór. Aldrei gat ég merkt það að sú háreysti og fyrirgangur sem þessu fylgdi færi í taugarnar á mömmu, þvert á móti, hún kom fram við alla af hlýju og þolinmæði. Oftar en ekki tók mamma einnig að sér að passa annarra manna börn og þannig fengu þau að upplifa allt það góða sem hún hafði að bjóða og mynduðu við hana einstök tengsl sem entust henni alla ævi. Þegar barnabörnin birtust svo eitt af öðru fengu þau ríkulega að njóta alls þess sem góða og fallega sem mamma bauð upp á.

Elsku mamma, takk fyrir ástúðina, hlýjuna og stuðninginn sem þú veittir mér alla ævi.

Halldór Ásgeirsson.

Elsku blíða og góða mamma mín hefur kvatt þennan heim. Mamma mín var róleg, hjartahlý og blíð kona og ég var lánsöm að eiga slíka móður. Mamma var heimavinnandi þegar ég og systkini mín vorum að alast upp. Hún hugsaði vel um heimilið og ólumst við upp við mikla reglusemi og hlýju.

Mamma var ekki bara hlý og góð mamma heldur var hún einstök amma. Hún sinnti öllum barnabörnunum sínum af umhyggju og ást og lagði sig fram um að kynnast hverju og einu þeirra. Börnin mín Ásgeir Theodór og Hafdís Lilja eiga bæði afar ljúfar og góðar minningar um ömmu sína og sóttu þau bæði í að fara til ömmu og afa í Hveragerði þegar þau voru yngri. Sérstaklega sótti hann Ásgeir minn í að fara til ömmu og afa í nokkra daga eftir skólalok á vorin þar sem hann dundaði sér í rólegheitunum með ömmu og tefldi og fór í göngutúra með afa sínum.

Garðvinna og blóm veittu mömmu alltaf mikla ánægju og gleði og sinntu hún og pabbi garðinum við æskuheimilið alltaf af natni og áhuga á meðan heilsa og kraftar leyfðu. Mamma hafði líka mikinn áhuga á fuglum og fagnaði komu farfuglanna á vorin og fuglar sem höfðu vetrarsetu gátu alltaf treyst á fæði í garðinum hjá mömmu og pabba.

Mamma var einstaklega heimakær og átti auðvelt með að finna ró í hversdagsleikanum. Hún gat til að mynda setið lengi og fylgst með sólarlaginu eða öðrum birtubreytingum, blómunum í garðinum eða hvernig trén tóku breytingum eftir árstíðum. Segja má að mamma hafi stundað núvitund og ræktað innri ró áreynslulaust. Sannarlega dýrmætur eiginleiki sem kemur ekki eins auðveldlega til mín en ég hef þó reynt að tileinka mér að hætti mömmu.

Mamma greindist með alzheimer fyrir tæplega einu og hálfu ári og það var sárt að horfa upp á sjúkdóminn skerða getu hennar meira og meira. Ég er samt þakklát fyrir það að hún þekkti okkur fjölskylduna sína allt til loka.

Síðustu árin hjálpuðum við systur og ekki síst systurdóttir mín hún Helga María mömmu að planta blómum í blómaker sem hún og pabbi höfðu fyrir framan húsið sitt og veittu þessi blóm mömmu mikla ánægju. „Gunna, sjáðu hvað blómin eru nú falleg,“ var því fastur liður í kveðjuorðunum mömmu á sumrin.

Nokkrum dögum áður en mamma dó heyrði ég fyrir tilviljun lagið Draumalandið og tengdi ég texta lagsins sterkt við elsku mömmu mína. Í textanum er talað um fuglasöng og blómaangan, draumalandið og tryggðabönd. Hvergi leið mömmu betur en þegar hún var umvafin fjölskyldu sinni og heimilið hennar var svo sannarlega hennar draumaland þar sem hún batt sitt tryggðaband, naut anganar blómanna og návistar fuglanna. Ég mun ævinlega minnast elsku blíðu og góðu mömmu minnar þegar ég heyri þetta lag.

Ó, leyf mér þig að leiða

til landsins fjalla heiða

með sælu sumrin löng.

Þar angar blómabreiða

við blíðan fuglasöng.

Þar aðeins yndi fann ég

þar aðeins við mig kann ég

þar batt mig tryggðaband;

því þar er allt sem ann ég

það er mitt draumaland.

(Guðmundur Magnússon)

Þín dóttir,

Guðrún.

Sorgin og söknuðurinn er mikill nú þegar þú hefur kvatt þetta líf, elsku mamma mín. Jafn þungbært og það er að þurfa að kveðja þig þá er hjarta mitt líka fullt af þakklæti yfir því hversu lánsöm ég er að hafa átt þig sem mömmu. Yndislegri og betri mömmu er vart hægt að hugsa sér, þú varst hjartahlý og alltumvefjandi með ást þinni og kærleik.

Mamma var mikil rólyndismanneskja sem kunni að meta litlu hlutina í lífinu og fáa þekki ég sem kunna að njóta blómanna, fuglanna og fallegs sólarlags eins vel og hún gerði alla tíð. Uppáhaldsárstíðir mömmu voru vorið og sumarið og naut hún þess ávallt að fylgjast með náttúrunni vakna af vetrardvalanum og breytti þá engu hvort um væri að ræða íslenska flóru, fjölæringa, sumarblóm eða trjágróður, mamma hafði yndi af þessu öllu. Íslenskt mál og þar með talið lestur og kveðskapur var mömmu í blóð borið og hafði hún mikla þekkingu og næmni fyrir fallegu íslensku málfari. Hún las alla tíð mikið og var mjög góð í því að leysa krossgátur og aðrar orðaþrautir. Hverslags handverk hvort sem það var að sauma spariföt á okkur systkinin þegar við vorum lítil eða prjóna húfur og vettlinga voru hlutir sem mamma leysti vel af hendi og fulla stampa af hinum fjölmörgu smákökutegundum bakaði hún einnig alltaf fyrir hver jól.

Mamma hafði endalausa þolinmæði og sjaldan skipti hún skapi, hún var barngóð með eindæmum og nutum við börnin hennar og síðar barnabörnin hennar þess svo sannarlega að hafa hana í okkar lífi. Mamma umvafði alla með mildi sinni og hlýju og áttu börnin mín margar yndislegar stundir hjá ömmu og afa á Þelamörkinni, þar sem alltaf var nóg að gera. Teikna með ömmu, horfa á gamlar DVD-myndir, fara niður að á og finna fallega steina, fjöruferðir og göngutúrar eru dæmi um samverustundir sem mamma átti með börnunum mínum og erum við svo þakklát fyrir þær allar.

Mjúki faðmurinn þinn og hlýja höndin þín sem svo erfitt var að þurfa að sleppa – höndin sem hafði svo mikinn mátt en ein af ljóslifandi minningum mínum úr bernsku er þegar ég var lítil og var með hita og flensu og þú lagðir hönd þína á enni mitt, og ég man hvað það var gott og allt varð betra. Það er mikil blessun að hafa átt svona góða mömmu og fyrir það verð ég ævinlega þakklát, þú gafst mér allt.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sigurður Jónsson)

Þín elskandi dóttir,

Lilja.

Elskulega mamma mín lést á líknardeild Landspítalans 27. nóvember síðastliðinn. Þegar þú kvaddir þennan heim hélt ég í hönd þína og hjarta mitt fylltist af sorg en um leið einnig af þakklæti. Þakklæti fyrir að hafa átt góða og umhyggjusama mömmu, sem allt mitt líf hefur verið til staðar fyrir mig og haldið í mína hönd.

Ótal góðar minningar frá barnæsku koma upp í hugann. Ein af mínum fyrstu minningum er þegar systkini mín horfðu á Prúðuleikarana í sjónvarpinu á föstudagskvöldum. Ég var hins vegar of hrædd við trommuleikarann, svo ég gat ekki horft. Þú leystir vandamálið með því að setja mig í bað og varst hjá mér á meðan systkini mín horfðu. Margar góðar minningar eru frá barnæskunni sem var ljúf og full af kærleika, þar sem þú mamma varst alltaf til staðar fyrir okkur. Það var aldrei neinn asi og alltaf tími til að leika sér, út um allt hús og í garðinum vorum við að leika. Yfirleitt var heimabakað í kaffinu og allir vinir okkar voru alltaf velkomnir.

Þú undir þér ætíð vel í garðinum okkar á Þelamörkinni að huga að blómunum þínum. Enda var garðurinn ávallt snyrtilegur og fallegur. Á fögrum sumarkvöldum fórum við oft í gönguferðir meðfram fjallinu í Hveragerði. Þá reyndir þú að kenna mér heitið á öllum blómum, jurtum og fuglum sem við sáum, en það gekk ekkert alltof vel og yfirleitt varstu alveg undrandi hversu illa það gekk!

Eftir að þið pabbi fluttuð í bæinn aðstoðuðum við systur og Helga María, elsta barnabarnið, ykkur við að setja sumarblóm í potta og veitti það þér mikla gleði að hafa falleg blóm í kringum þig. Þú hafðir alltaf orð á því hversu blómin væru falleg þegar ég kom í heimsókn til ykkar. Þú kunnir svo vel að fanga litlu fallegu augnablikin í lífinu, fallegu blómin, trén, fuglana og náttúruna í umhverfinu. Uppáhaldsstundirnar þínar voru samt samverustundir með fjölskyldunni þinni.

Það verður skrýtið að hafa enga mömmu um jólin. Við vorum vanar að skreyta saman jólatréð á Þorláksmessu og eftir að ég flutti að heiman hélst sú hefð. Þú naust þess svo um jólin að horfa á skreytt jólatréð og hafðir iðulega orð á því hversu fallegt það væri.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú kenndir mér í lífinu og takk fyrir allar dýrmætu samverustundirnar okkar sem ég mun alltaf geyma í hjarta mínu.

Elska þig af öllu mínu hjarta.

Þín dóttir,

Bjarney.

Mig langar í nokkrum orðum að minnast minnar ástkæru tengdamóður, Helgu Maríu Halldórsdóttur. Það var árið 1991 sem við Lilja, dóttir hennar, kynntumst og fyrr en varði var ég orðinn tíður gestur í Þelamörkinni og var mér svo sannarlega tekið með opnum örmum þessarar gæðakonu sem hún María var. Allt frá fyrstu kynnum náðum við mjög vel saman og aldrei hallaði á nokkurn hlut í okkar löngu samskiptum, þótt við værum náttúrulega ekki alltaf sammála.

Við María áttum það sameiginlegt ólíkt öðrum fjölskyldumeðlimum að hafa bæði alist upp í sveit og ræddum við oft þá hluti tilverunnar og gæfuna sem slíkt má telja. Þótt tíðarandinn hafa ekki verið sá sami í uppvexti okkar þá er það tengingin við náttúruna sem sameinar ansi marga sem alast upp í sveit og var María alla tíð mikið náttúrubarn. Allt fram á hið síðasta var aðdáun hennar á blómum, trjám, fuglum og fallegu sólarlagi mikil. Þar sem María ólst upp á flötum sléttum Flóans og ég kem frá sveitabæ þar sem umhverfið einkennist af eintómum hæðum og hólum vorum við skemmtilega ósammála um hvort væri betri staður. Eins og María orðaði svo skemmtilega eitt sinn er hún kom upp í hrepp: „Óskaplega er mikið af brekkum hérna“ sem að hennar mati voru engin sérstök meðmæli.

Eitt af því sem einkenndi Maríu var hversu rólynd hún alltaf var, ekki aðeins í fasi heldur líka í hreyfingum en þrátt fyrir það gekk samt svo vel undan henni. Sem dæmi er til að mynda pönnukökubakstur en þar gat hún með sínum hægu vandvirku hreyfingum framleitt pönnukökur á einni pönnu með ótrúlegum afköstum, eitthvað sem ég held að ég næði ekki að afkasta með tveimur pönnum í einu.

Maríu var margt til lista lagt, hún var vel lesin og fáa þekki ég sem eru jafn fljótir og hún var að ráða kross- og myndagátur, það mátti ganga að því vísu að hún næði alltaf að ráða jólamyndagátu Morgunblaðsins. Eins var hún mjög flink að teikna og nutu börnin okkar Lilju þess mikið að fá að teikna með henni ásamt öllu öðru sem hún gaf þeim í þeirra uppvexti og var það ekki lítið, öll barnabörnin hennar voru henni svo óskaplega ástkær.

Það er skrýtið til þess að hugsa að Maríu njóti ekki lengur við en það er jú gangur lífsins. Ég verð alltaf óendanlega þakklátur fyrir að hafa átt þessa yndislegu konu fyrir tengdamóður sem hefur veitt okkur öllum svo mikið í gegnum lífið. Og eins og hún hefði sjálf orðað það: Við „sjáumstum“ þótt síðar verði.

Þinn tengdasonur,

Steindór.

Elsku amma mín.

Ég hugsa að núna sért þú komin aftur heim í Flóann, í Partana, í Litla-Bæ, á heimili æskuminninganna. Hugsa að þú sért komin aftur heim í Krók eins og Krókur var þá. Sért komin aftur á þann stað, í þann heim sem dreginn er upp í gömlu bréfunum þínum. Þar sem Putti og Patti vekja þig á morgnana með því að setja litlu mjúku loppurnar sínar á nefið þitt, heimta að þú hleypir þeim undir hlýja sængina þína og breiðir yfir þá þannig að einungis glitti í litlu bleiku trýnin þeirra undan sænginni. Þar sem baul Brúnkollu og Rauðkollu ómar út um opnar fjósdyrnar og Neró hleypur um bæjarhlaðið. Þar sem mamma þín stendur í matjurtagarðinum sínum handan við bæjarhúsið og tínir þar rifsber og slítur upp rabarbara. Þar sem Bjarni stendur við dyrnar að skemmunni og brosir er hann sér þig nálgast og Lilla kemur askvaðandi á móti þér, með faðminn útbreiddan, tilbúin til að fylgja þér fyrstu skrefin gegnum hliðið.

Þær eru ótal margar minningarnar sem þjóta fram þegar mér verður hugsað til þín, elsku amma mín, enda hefur þú ávallt staðið mér svo nærri, hefur átt svo stóran þátt í að móta mig og það umhverfi sem ég hef alist upp í. Þú hefur ávallt verið akkerið mitt, stoðin og styttan í öngþveitinu sem er hversdagurinn og það var alltaf öruggt að hjá þér mátti finna ró. Með þér var hægt að hægja á klukkunni og þannig gefa sér tíma til að taka eftir og njóta allra smáatriðanna í hlutunum sem maður missir svo gjarnan af í amstri dagsins. Að setjast með þér við eldhúsborðið með kaffibolla og kex að maula og ræða um trén og blómin sem blasa við út um eldhúsgluggann eða heyra sögur af lífinu eins og það var í Króki. Sem og stundirnar okkar í sumarbyrjun í garðinum á Þelamörkinni þar sem við gróðursettum morgunfrúr, silfurkamba, þrílitar lobelíur og daggarbrár eftir kúnstarinnar reglum. Þetta eru þær stundir sem ég mun sakna hvað mest. Stundirnar þar sem tíminn virtist líða örlítið hægar og einhver óútskýranleg ró komst á hugann.

Nafnið mitt er nafnið þitt og ég hef alla tíð haft það svo sterkt á tilfinningunni að þetta sameiginlega nafn okkar tengi okkur á einhvern annan hátt en alla jafna gengur og gerist. Mér hefur alltaf þótt það svo dýrmætt að fá að heita nafninu þínu. Ég vil enda þessar litlu hugleiðingar mínar með vísunni sem samin var um hana nöfnu okkar og við rifjuðum upp saman síðast er við sáumst.

Máru fagurt myndast hrós,

Mára er göfug pía.

Mára er bjartleit blómarós

með brúna sjalið nýja.

Þar til við sjáumst næst, elsku amma mín,

þín

Helga María.