Smárinn Stjörnumaðurinn Ægir Þór Steinarsson í baráttu við Blikann Keith Jordan í gær. Jordan var stigahæstur allra í leiknum með 28 stig.
Smárinn Stjörnumaðurinn Ægir Þór Steinarsson í baráttu við Blikann Keith Jordan í gær. Jordan var stigahæstur allra í leiknum með 28 stig. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur hafði betur gegn Njarðvík, 91:87, í æsispennandi toppslag 11. umferðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gærkvöldi. Leikurinn var í járnum allan tímann þar sem liðin skiptust á að ná naumri forystu

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur hafði betur gegn Njarðvík, 91:87, í æsispennandi toppslag 11. umferðar úrvalsdeildar karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Leikurinn var í járnum allan tímann þar sem liðin skiptust á að ná naumri forystu.

Að lokum var það hins vegar Valur sem vann fjögurra stiga sigur og er nú einn á toppi deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum meira en sex lið fyrir neðan. Njarðvík er eitt af þeim og er sem stendur í 3. sæti.

Joshua Jefferson skoraði 24 stig, tók tvö fráköst og gaf sex stoðsendingar í liði Vals en Dominykas Milka átti stórleik í liði Njarðvíkur með 30 stig, 14 fráköst og fjórar stoðsendingar.

Grindavík vann í Smáranum

Grindavík og Haukar mættust í Smáranum í Kópavogi þar sem Grindvíkingar reyndust sterkari og unnu 89:75-sigur. Í fyrri hálfleik var allt í járnum þar sem Grindavík var með eins stigs forystu, 44:43. Í síðari hálfleik juku Grindvíkingar forystu sína jafnt og þétt og unnu að lokum kærkominn 14 stiga sigur.

Dedrick Basile skoraði 20 stig fyrir Grindavík, tók sjö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Hjá Haukum var Damier Pitts, sem lék með Grindavík á síðasta tímabili, stigahæstur með 16 stig.

Grindavík er áfram í 9. sæti, nú með tíu stig. Haukar halda kyrru fyrir í 10. sæti með sex stig.

Höttur lagði Álftanes

Höttur vann nýliða Álftaness með naumindum, 78:73, í hörkuleik á Egilsstöðum.

Heimamenn voru með undirtökin allan leikinn þó Álftanes hafi aldrei verið langt undan og gerði allt sem í valdi liðsins stóð til þess að jafna metin.

Hjá Hetti var Adam Ásgeirsson stigahæstur með 25 stig en hann tók einnig fjögur fráköst. Dúi Þór Jónsson skoraði þá 25 stig fyrir Álftanes, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Höttur er í 8. sæti með 12 stig og Álftanes er sæti ofar með 14 stig eins og fimm önnur lið fyrir ofan nýliðana.

Auðvelt hjá Tindastóli

Íslandsmeistarar Tindastóls lentu ekki í vandræðum með nýliða Hamars og unnu öruggan sigur, 106:81, í Hveragerði.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem Tindastóll var sjö stigum yfir, 43:36, sýndu gestirnir frá Sauðárkróki mátt sinn og megin í þeim síðari og var niðurstaðan að lokum 25 stiga sigur.

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atkvæðamestur í liði Tindastóls en hann skoraði 28 stig, tók átta fráköst og gaf níu stoðsendingar. Þá skoraði Davis Geks 24 stig.

Hjá Hamri var Franck Kamgain stigahæstur með 24 stig.

Tindastóll er í 6. sæti með 14 stig líkt og fimm önnur lið en Hamar vermir botninn án stiga.

Stjarnan ekki í vandræðum

Stjarnan gerði góða ferð í Smárann í Kópavogi og lagði þar Breiðablik örugglega að velli, 97:73.

Staðan í hálfleik var 56:36, Stjörnunni í vil, og reyndist eftirleikurinn auðveldur í síðari hálfleik.

Stjarnan er í 4. sæti með 14 stig eins og svo mörg önnur lið. Breiðablik er sem fyrr í 11. og næstneðsta sæti með aðeins tvö stig.