Heimsþing Loftslagsráðstefnan fór fram í sýningarhöllinni Expo City.
Heimsþing Loftslagsráðstefnan fór fram í sýningarhöllinni Expo City. — AFP/Giuseppe Cacace
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hyggst kolefnisjafna ferð fulltrúa Íslands á loftslagsráðstefnuna í Dúbaí. Rúmlega 80 fulltrúar Íslands sóttu ráðstefnuna sem réttu nafni heitir aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 28)

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hyggst kolefnisjafna ferð fulltrúa Íslands á loftslagsráðstefnuna í Dúbaí. Rúmlega 80 fulltrúar Íslands sóttu ráðstefnuna sem réttu nafni heitir aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP 28). Við það tilefni staðfesti Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þátttöku Íslands í alþjóðlegu kolefnisáskoruninni.

Fram kemur á vef ráðuneytisins að um sé að ræða alþjóðlegt átaksverkefni sem miðar að því að hraða upptöku tækni sem byggist á föngun, förgun og hagnýtingu kolefnis.

Gengið út frá jöfnun

Af því tilefni spurðist Morgunblaðið fyrir um hvort ferð fulltrúa Íslands til Dúbaí hefði verið kolefnisjöfnuð.

„Öll losun Stjórnarráðsins er kolefnisjöfnuð og losun vegna flugferða tvöfalt, í samræmi við loftslagsstefnu Stjórnarráðsins. Alla jafna er gengið frá kolefnisjöfnuninni þegar losunarbókhald ráðuneytanna fyrir árið er tilbúið, sem er á vormánuðum. Þannig að gengið er út frá því að ferðir vegna COP28 verði kolefnisjafnaðar vorið 2024,“ sagði í svari ráðuneytisins.

Jafnframt var spurt hvernig kolefnisjöfnunin færi fram en af svari ráðuneytisins má skilja að það sé í vinnslu.

„Ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti verður kolefnisjafnað fyrir árið 2023, en að vanda verða skoðaðir þeir kostir sem eru í boði. Á undanförnum árum hafa ráðuneytin flest hver kolefnisjafnað starfsemi sína í gegnum Kolvið og Votlendissjóð. Ekki hafa verið vottaðar einingar í boði hér á landi, þar til nýlega er vottun fékkst fyrir kolefniseiningum í bið.

Ýta undir skógrækt

Með því að nýta kolefnisjöfnunarfjármagn ráðuneytanna innanlands hefur verið styrkt við aðra meginstoð stefnumörkunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem er að ýta undir skógrækt og endurheimt votlendis innanlands,“ sagði þar jafnframt.

Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO, er ein af undirstofnunum SÞ. Á vef hennar er boðið upp á reiknivél til að áætla kolefnislosun vegna flugferða. Flug 80 Íslendinga frá London til Dúbaí þýðir losun upp á 54 tonn af koldíoxíði. Við það bætast um 20 tonn vegna flugs frá Keflavík til London. Þetta magn, 73,9 tonn, kallar á 11 hektara af stafafurumeðalskógi, að því er sérfræðingur reiknaði út fyrir blaðið.

Höf.: Baldur Arnarson