Ríkharður Gústafsson fæddist í Reykjavík 3. febrúar 1957. Hann lést á sjúkrahúsinu á Selfossi 4. desember 2023.

Foreldrar hans voru Gústaf Pálmar Símonarson prentari, f. 29. október 1922, d. 28. ágúst 2017, og kona hans Lilja Ingibjörg Sigurjónsdóttir húsmóðir, f. 31. mars 1927, d. 17. september 2019. Systkini Ríkharðs eru Sveinn Þórir prentari, f. 5. maí 1945, d. 21. september 2019, Jón prentari, f. 30. júní 1948, d. 25. júní 2019, Margrét prentsmiður og svæðanuddari, f. 16. júní 1953, Ólafía, prentsmiður og leikskólakennari, f. 12. mars 1965.

Ríkharður kvæntist Lilju Björk Finnbogadóttur, f. 20. mars 1963. Þau skildu. Synir þeirra eru Finnbogi húsasmiður, f. 25. ágúst 1981, búsettur í Noregi, kvæntur Marit Hveding. Þau eiga þrjú börn. Sævar forstöðumaður, f. 4. maí 1984, kvæntur Sigrúnu Huld Guðmundsdóttur flugstjóra. Þau eiga þrjú börn. Sonur Ríkharðs og Önnu Gunnarsdóttur er Daníel bílasali, f. 1. nóvember 1978, kvæntur Önnu Sif Farestveit. Þau eiga þrjú börn. Seinni kona Ríkharðs er Donabel Vivero De La Cruz, fædd á Filippseyjum.

Ríkharður gekk í barnaskóla í Reykjavík en fluttist með foreldrum sínum til Bandaríkjanna og kláraði skyldunám í New York. Fjölskyldan kom svo til baka og hóf Ríkharður nám í Iðnskólanum i Reykjavík í húsgagnasmíði og lauk því námi og fékk meistararéttindi síðar. Hann starfaði sem smiður í Reykjavík um árabil, fór svo í ýmis önnur störf. Árið 2010 söðlaði hann um og flutti til Eyrarbakka eftir að hafa lent í alvarlegu mótorhjólaslysi. Þar byggði hann upp fallegt heimili með konu sinni Donnu en undi sér jafnan best í bílskúrnum sem var hans griðastaður og athvarf. Hann var hagleiksmaður í höndum og margan fallegan gripinn smíðaði hann.

Útför Ríkharðs fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 15. desember 2023, klukkan 13.

Ríkharður frændi er fallinn frá. Þrátt fyrir að örlög hans hafi ráðist fyrir nokkru tekur höggið í þegar það kemur. Rikki, eins og hann var oftast kallaður, var hvers mann hugljúfi og einstaklega laginn handverksmaður. Það var ávallt hægt að ræða við hann um allt og ekkert og nærvera hans var hlý og góð. Hann gat verið óttalegur hrakfallabálkur og stundum var ekki annað hægt en að brosa út í annað þegar hann var að lýsa aðförunum, þótt afleiðingarnar væru nú ekkert alltaf aðhlátursefni. Bílar áttu hug hans lengst af, og var það stundum mælikvarði á heilsuna hversu marga bíla hann átti þann mánuðinn eða vikuna jafnvel. Þeir teljast eflaust í hundruðum þegar allt er til talið og ekki má gleyma tví- og þríhjóla mótorhjólunum. Það var ósjaldan sem maður renndi í kaffi til hans á Eyrarbakka þar sem staðan var tekin á bílasafninu og handverkinu í skúrnum. Viddi var svo aldrei langt undan, oft nýkominn úr rölti um bæinn eða fjöruna, og þáði allt það klór og klapp sem í boði var. Þeir félagar munu áfram fylgjast að í því sem nú tekur við.

Ríkharður og pabbi voru nánir, og man ég eftir mörgum skemmtilegum atvikum þeirra á milli. Þótt sögurnar séu ekki allar prenthæfar bera þær vitni um góða vináttu og bræðrakærleik. Vinátta Ríkharðs og mín styrktist svo mikið í kjölfar andláts pabba árið 2019. Við fundum stuðning hvor í öðrum, og sameiginleg áhugamál styrktu þá vináttu enn frekar. Þeir bræðurnir Rikki, Nonni og Svenni ásamt ömmu og afa eru nú öll farin á feðranna vit á aðeins rúmum sex árum, þar af hafa bræðurnir farið á síðustu fjórum … mann setur hljóðan við tilhugsunina.

Mína dýpstu samúð votta ég Donnu eiginkonu hans og strákunum hans þeim Daníel, Finnboga og Sævari og þeirra fjölskyldum.

Farinn ertu á feðranna slóð,

frjáls með áru bjarta.

Við eftir sitjum með sorgarlóð

og sáluverk í hjarta.

Slokknar neisti í skrokki lúnum,

Sumarlandið bíður.

Ég bið að heilsa búunum,

bróðir, kæri vinur.

Sighvatur Jónsson.