Erindi Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur, á ráðstefnu Listasafns Reykjavíkur.
Erindi Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri hjá Listasafni Reykjavíkur, á ráðstefnu Listasafns Reykjavíkur. — Ljósmynd/María Margrét Jóhannsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hætt er við því að það myndist gloppur í heildarmynd safneignar ef söfn búa við mikinn óstöðugleika þegar kemur að fjármagni til innkaupa á listaverkum og koma þær gloppur ekki endilega í ljós fyrr en síðar þegar horft er yfir farinn veg.

Af myndlist

María Margrét Jóhannsdóttir

mariamargret@mbl.is

Mörg fjölbreytt og áhugaverð sjónarmið komu fram á nýafstaðinni haustráðstefnu á vegum Listasafns Reykjavíkur í samstarfi við Rannsóknasetur í safnafræðum, sem bar heitið „Gleymt dót sem tekur pláss“. Rýnt var í stöðu íslenskra listasafna og hvernig safneign þeirra hefur verið byggð upp síðustu áratugi.

Þau sem tóku til máls voru Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur; Gunnar Kvaran, sjálfstætt starfandi sýningarstjóri; Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ; Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur; Cecilie Cedet Gaihede, verkefnastjóri safneignar hjá Gerðarsafni; Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri; Dagný Heiðdal, skráningarstjóri Listasafns Íslands, og Íris Stefánsdóttir, listráðunautur Arion banka.

Þröngur stakkur hefur áhrif á safneignina

Það þarf engan að undra að flestir sem þarna voru samankomnir voru sammála um að íslenskum listasöfnum væri þröngur stakkur sniðinn. Þau hafa í áranna rás þurft að aðlagast sveiflum í efnahagslífi og tekur safneignin ekki síður mið af því. Það eru fá listasöfn sem hafa burði til þess að kaupa dýr verk og oft þurfa listasöfn að hugsa í skapandi lausnum þegar kemur að því að velja verk inn í safneignina. Hætt er við því að það myndist gloppur í heildarmynd safneignar ef söfn búa við mikinn óstöðugleika þegar kemur að fjármagni til innkaupa á listaverkum og koma þær gloppur ekki endilega í ljós fyrr en síðar þegar horft er yfir farinn veg eins og Sigurður Trausti benti á í erindi sínu.

Listaklúbbar atvinnulífsins fjársterkari en söfn

Þá setti það málin í ákveðið samhengi þegar Íris Stefánsdóttir, listráðunautur Arion banka, upplýsti að upphæðir listaklúbbs bankans til listaverkakaupa, sem starfsmenn borga sjálfir í með mótframlagi frá bankanum, er um 15 milljónir. Til samanburðar má geta þess að Listasafn Íslands fær 30 milljónir á ári og Listasafn Akureyrar aldrei meira en átta milljónir og hluti af þeirri upphæð fer í viðhald. Fleiri listaklúbbar að fordæmi Arion banka eru að spretta upp í atvinnulífinu og þegar litið er á tölur sem þessar þá þarf ekki að fara mörgum orðum um það hversu mikilvægt slíkt sjálfsprottið framtak er til að styðja við bakið á listamönnum.

Annmarkar innkaupanefnda

Þá var á ráðstefnunni komið inn á ýmsa annmarka þess sem lúta að núverandi fyrirkomulagi innkaupa listaverka til dæmis hjá Listasafni Íslands og hvort hægt væri að móta innkaupastefnu til lengri tíma með aðkomu fleiri sérfræðinga, en þess má geta að nefndin er skipuð af ráðherra til þriggja ára í senn og í henni sitja þrír einstaklingar, safnstjóri, fulltrúi Sambands íslenskra myndlistarmanna og einn án tilnefningar. Bent var á að ef til vill væri það ekki faglegt að listamaður sæti í nefndinni vegna mögulegra hagsmunaárekstra og jafnvel væri betra að hafa listfræðing í nefndinni.

Varar við langtímaleigu verka

Erindi Gunnars Kvarans var sérstaklega fróðlegt enda er hann þaulkunnugur safnamálum en hann var forstöðumaður Kjarvalsstaða og stýrði um tíma Listasafninu í Bergen og Astrup Fearnley-samtímalistasafninu í Noregi. Hann fór yfir alþjóðlegt samhengi listasafna, sögu Listasafns Reykjavíkur auk þess sem hann kom inn á þær hættur sem leynast í því þegar listasöfn taka verk í langtímaleigu. Gunnar varaði við því að söfn færu þá leið og vísaði til dæma utan úr heimi þar sem listasöfn misstu verk úr safneign sinni sem höfðu orðið samofin menningararfinum. Þó að það gæti í fljótu bragði virkað sem hagkvæm leið til þess að fá merkileg verk inn í safneignina þá sé það mikilvægt að safneign listasafna sé byggð á stöðugleika. Það sé þessi kjarni safneignar sem móti sérstöðu safnsins. Þá benti Gunnar einnig á mikilvægi þess að söfn settu listina í alþjóðlegt samhengi og það væri auðvelt að lokast inni í eigin búbblu. Íslensk myndlist væri alþjóðleg list sem hefði þróast áfram á Íslandi og þetta væri sjónarmið sem þyrfti að leitast við að styrkja þegar kæmi að þróun íslenskra safneigna.

Listasöfnin of einsleit

Elísabet Gunnarsdóttir, safnstjóri Listasafns ASÍ, hélt einnig kröftugt erindi þar sem hún hélt því fram að á Íslandi skorti sameiginlega grunnþekkingu á íslenskri myndlist. Menning væri hverri þjóð afar mikilvæg á sundrungartímum og eins og staðan er nú væri ekki verið að ná til almennings þrátt fyrir að nóg sé af sérfræðingum. Það vanti mun meiri fræðslu og tryggja þurfi aukið aðgengi almennings að lykilverkum í íslenskri myndlist en stafræn miðlun komi ekki í stað þess að skoða sjálf verkin. Þá benti Elísabet á að listasöfnin á Íslandi væru of einsleit. Það þyrfti að skilgreina þau betur, móta stefnu þeirra beint úr safneigninni með sérkenni þeirra að leiðarljósi.

Hér hefur verið tæpt á örfáum atriðum sem brenna á safnaheiminum ef marka má haustráðstefnu Listasafns Reykjavíkur. Ljóst er að málefnin eru mörg sem fylgja öflugu safnastarfi og því ber að fagna að til sé vettvangur sem þessi sem dregur upp á yfirborðið ýmis álitamál og opnar um leið á dýpri umræður um nútímasafnastarf.