EasyJet Vél frá breska félaginu á flugvellinum á Akureyri.
EasyJet Vél frá breska félaginu á flugvellinum á Akureyri. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Breska flugfélagið EasyJet hefur hafið sölu á flugferðum til Akureyrarflugvallar frá Gatwick-flugvelli í London í október og nóvember á næsta ári. Markaðsstofa Norðurlands tilkynnti um þetta í gær og því eru vísbendingar um að breska félagið ætli að …

Breska flugfélagið EasyJet hefur hafið sölu á flugferðum til Akureyrarflugvallar frá Gatwick-flugvelli í London í október og nóvember á næsta ári. Markaðsstofa Norðurlands tilkynnti um þetta í gær og því eru vísbendingar um að breska félagið ætli að láta reyna á Akureyri sem áfangastað til lengri tíma. EasyJet hefur flogið beint til Akureyrar í vetur og býður upp á ferðir tvisvar í viku út mars.

„Ef horft er til framtíðar þá gæti þetta verið rosalega stórt fyrir sveitarfélagið og ferðaþjónustuna á svæðinu. Ef þetta gengur eftir,“ sagði Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs á Akureyri, þegar tíðindin voru borin undir hann í gær.

„Þetta kom eiginlega nokkuð á óvart því við bjuggumst ekki við að heyra fyrr en í mars eða apríl hverjar áætlanir flugfélagsins væru. Það er skemmtilegt að fá fréttir sem þessar fyrir jólin,“ segir Heimir og hann telur þetta vera vísbendingu um að þessi flugleið geti gengið upp.

„Ég held að breski markaðurinn sé besti markaðurinn fyrir okkur. Ég tel hentugast fyrir okkur að fara til London og þaðan er auðveldlega hægt að fara hvert sem er í heiminum eins og allir vita,“ segir Heimir Örn en ófáir Norðlendingar hafa nýtt tækifærið til að komast utan án þess að þurfa að eyða nótt á höfuðborgarsvæðinu eða í Keflavík.
kris@mbl.is