Sumir fagna þó að ekkert hafi gerst utan bruna á flugvélaeldsneyti

Loftslagsráðstefnan COP28, sem haldin var ofan á olíulindum Arabíuskagans, þótti of mikilvæg fyrir fjarfundarbúnað. Þess í stað fylltist loftið af flugvélum með hátt í eitt hundrað þúsund þátttakendum víðs vegar að úr veröldinni. Eflaust allt „kolefnisjafnað“. Þó hefði verið betur við hæfi að sýndarveruleikinn í Dúbaí færi fram í rafheimum en raunheimum því að lokaniðurstaðan, sem auðvitað hefur verið hampað sem mikilvægum áfanga, fyrsta skrefi til að útrýma jarðefnaeldsneyti, er í raun engin.

Ætlunin hafði verið að samþykkja tímasetta áfanga um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis, en eins og allir raunsæir menn gátu gert sér í hugarlund þá var enginn vilji til þess hjá Kína, olíu- og gasframleiðendum eða þróunarríkjum. Sem sagt stærstum hluta veraldar. Fulltrúar Vesturlanda á ráðstefnunni voru í raun þeir einu sem beittu sér fyrir því að gengið yrði lengra, sumir líklega í trausti þess að aðrir kæmu í veg fyrir þá niðurstöðu, enda átta sig flestir á að óraunsætt er að ætla að hætta notkun jarðefnaeldsneytis í fyrirsjáanlegri framtíð.

Niðurstaða ráðstefnunnar, sem eins og jafnan var samið um í reyfarakenndri spennu á síðustu stundu, hefur engin áhrif á áframhaldandi hraða uppbyggingu Kína á kolaorkuverum, en þar í landi eru tvö slík byggð á viku að jafnaði. Niðurstaðan hefur ekki heldur nein áhrif á boranir olíuframleiðendanna, hvorki á ráðstefnusvæðinu né annars staðar. Niðurstaðan er ekkert nema almenn og veik viljayfirlýsing um að heimurinn færi sig úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa, orðað á þann veg að enginn ráðstefnugesta þurfti að aðhafast nokkuð í framhaldinu nema stíga aftur upp í flugvélarnar og halda heim.

Þess vegna eru allar líkur á að notkun jarðefnaeldsneytis fari áfram vaxandi, ef til vill um tæp 11% á ári á næstu fimm árum eins og Samtök olíuútflytjenda, OPEC, hafa spáð. Staðreyndin er sú að engum utan Vesturlanda dettur í hug að leggja á sig raunverulegar hömlur eða kostnað til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Æ fleiri á Vesturlöndum eru farnir að átta sig á þessu og hafa ekki áhuga lengur á að skerða eigin lífskjör eða veikja Vesturlönd með einhliða aðgerðum. Aðrir láta enn eins og þeir sjái ekki eða heyri út fyrir bergmálshellinn. Ekki er víst að kjósendur verði þeim þakklátir til lengdar.