Geirsgata 11 er í eigu malasíska auðjöfursins Vincents Tans.
Geirsgata 11 er í eigu malasíska auðjöfursins Vincents Tans. — Morgunblaðið/sisi
Haftæknifyrirtækið Rafnar hefur tekið yfir meirihluta hússins Geirsgötu 11 við hafnarbakkann í Reykjavík. Fyrirtækið fékk fyrst aðstöðu í húsinu fyrir tveimur árum en tekur nú yfir stærri hluta. Það þýðir að Hvalaskoðunarfyrirtækið Special Tours færist til í húsinu

Haftæknifyrirtækið Rafnar hefur tekið yfir meirihluta hússins Geirsgötu 11 við hafnarbakkann í Reykjavík.

Fyrirtækið fékk fyrst aðstöðu í húsinu fyrir tveimur árum en tekur nú yfir stærri hluta. Það þýðir að Hvalaskoðunarfyrirtækið Special Tours færist til í húsinu. Móttaka þess mun nú snúa út að smábátahöfninni. Rafnar tekur alfarið yfir framhliðina sem snýr að Geirsgötu og er áfram með geymslu og framleiðslusal í aftari hluta hússins.

Geirsgata 11 hefur reglulega verið í umræðunni vegna ýmissa hugmynda um uppbyggingu á lóð hússins. Hugmyndir hafa verið uppi um matvöruverslun, verslunarmiðstöð eða hótel. Húsið var lengi í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur og Guðmundar Kristjánssonar, sem kenndur er við Brim, en var keypt af félagi í eigu malasíska auðjöfursins Vincents Tans í byrjun árs 2020. Hann er einnig eigandi Berjaya Hotels. Nú liggur fyrir að höfuðstöðvar Rafnars verða í húsnæðinu til næstu ára og verður það aðlagað starfsemi þess.

Margir hafa horft til bílastæðisins við Geirsgötu 11 löngunaraugum enda er skortur á bílastæðum í miðborginni. Rafnar hefur þó ákveðið að opna bílastæðið og gert samning við Parka bílastæðaappið um innheimtu bílastæðagjalda.

Að sögn Benedikts Orra Einarssonar framkvæmdastjóra Rafnars hefur verið mikil ásókn í að fá aðgang að stæðunum í kringum húsið og því hafi það þótt snjöll lausn að hefja gjaldtöku og opna stæðið öllum. „Með því nýtum við bílastæðin betur og drögum úr ákveðinni örtröð í kringum smábátahöfnina,“ segir hann.