Ólafur Walter Stefánsson fæddist í Reykjavík 20. júní 1932. Hann lést á Droplaugarstöðum 6. desember 2023.

Foreldrar Ólafs voru hjónin Sigríður Jónsdóttir, f. 22. nóvember 1908 í Reykjavík, d. 9. janúar 2013, og Stefán G. Björnsson, framkvæmdastjóri Sjóvátryggingarfélags Íslands, f. 17. júní 1906 á Djúpavogi, d. 2. september 1990. Bræður Ólafs eru Björn búnaðarhagfræðingur og þjóðfélagsfræðingur, f. 19. júní 1937, d. 31. maí 2023, og Jón Ragnar stærðfræðingur, dósent við raunvísindadeild Háskóla Íslands, f. 17. febrúar 1941.

Fyrstu sporin steig Ólafur fyrir vestan læk, á Bárugötu 19, í eitt ár var heimilið á Leifsgötu 11, en frá sex ára aldri og æ síðan stóð heimili hans í Norðurmýri, á Hrefnugötu 10; þangað fluttu þrjár kynslóðir í nýreist hús árið 1938. Áður en sjálf skólagangan hófst í Austurbæjarbarnaskóla lærði hann hjá Maríu ömmusystur sinni, sem tók nemendur heim til sín á Vitastíg. Árið 1946 settist hann í fyrsta bekk Verzlunarskóla Íslands á Grundarstíg og lauk stúdentsprófi árið 1952. Lærði síðan í lagadeild Háskólans og lauk kandídatsprófi í lögfræði árið 1959. Frá því ári var dóms- og kirkjumálaráðuneytið starfsvettvangur hans, fyrst var hann fulltrúi, deildarstjóri varð hann 1966 og síðan skrifstofustjóri ráðuneytisins (og sem slíkur staðgengill ráðuneytisstjóra) frá 1972 til starfsloka árið 2002.

Ólafur átti sæti í ýmsum nefndum og ráðum á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sat í umferðarlaganefnd 1963-'87, var formaður framkvæmdanefndar Umferðarráðs 1969-'88, síðan í stjórn ráðsins, varaformaður þess 1970-'72 og frá 1988. Í happdrættisráði Happdrættis Háskóla Íslands frá 1971, formaður þess 1973-2002. Varamaður í kjaradeilunefnd 1977-'84. Var fulltrúi ráðuneytisins í norrænum samstarfsnefndum og í evrópsku löggjafarsamstarfi, þar með eru talin norræn nefnd um norrænan kosningarrétt og kjörgengi til sveitarstjórna og norræna umferðaröryggisráðið; hann sat í norrænu ráði um rannsóknir á réttarreglum vegna Evrópusamruna frá 1979. Sótti fundi lagasamvinnunefndar Evrópuráðsins frá 1965. Átti árið 1992 sæti í nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins, sem ætlað var að leggja mat á það, hvort samningurinn um evrópska efnahagssvæðið, ásamt fylgisamningum, bryti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Hann var formaður ritnefndar Lagasafns 1990, 1995 og 1999.

Ólafur átti sæti í stjórnum Orators 1954-'55, Stúdentafélags Reykjavíkur 1963-'64 og Bandalags háskólamanna 1963-'67. Hann var formaður lionsklúbbsins Baldurs 1986-'87.

Útför Ólafs fer fram frá Háteigskirkju í dag, 20. desember 2023, og hefst klukkan 13.

Látinn er góður æskuvinur minn, Ólafur Walter Stefánsson lögfræðingur, 91 árs að aldri. Af ættingjum sínum og nánum vinum alltaf kallaður Wolli. Við kynntumst fyrst í skátahreyfingunni í Reykjavík árið 1948. Vorum síðan valdir til þátttöku í ógleymanlegri ferð 10 íslenskra skáta til Englands haustið 1949. Í kjölfar hennar stofnuðum við Wolli canasta-spilaklúbb ásamt þeim Arngrími Sigurðssyni kennara (1933-2021) og Steinari Guðjónssyni bóksala (1933-2017). Sá ágæti spilaklúbbur hittist síðan reglulega næstu fjóra áratugina.

Eftir embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1959 hóf Wolli störf hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem varð starfsvettvangur hans í 43 ár sem fulltrúi, deildarstjóri, skrifstofustjóri og staðgengill ráðuneytisstjóra. Í ráðuneytinu kom hann eðlilega að fjölmörgum málaflokkum, en ég býst við að þar hafi þyngst vegið öryggismál vegaumferðar og framkvæmd kosninga. Þá var hann um tíma ritstjóri lagasafnsins. Meðal áhugamála hans voru einkum skíðaíþróttin og ættfræði.

Á unglingsárum okkar gengum við Wolli á nokkur fjöll í nágrenni Reykjavíkur, m.a. Úlfarsfell, Vífilsfell og Esjuna. Mér er þó ein fjallganga Wolla minnisstæð. Hann var þá í helgarheimsókn í sumarbústað okkar Oddrúnar í Borgarbyggð. Upp úr hádegi á laugardegi sagðist hann ætla að keyra aðeins norður og svipast um. Var síðan mættur í kvöldmat, og eftir að hafa þá gengið einsamall á Baulu. Ég hef einu sinni gengið á Baulu, og þá í hópi vina. Ég myndi ekki vilja vera einn á ferð á toppi Baulu.

Í marga áratugi var Wolli fastur gestur á heimili mínu, og um skeið með vikulegt innlit. Það var gjarnan í vikulokin og þá tekin til rækilegrar umfjöllunar hin fjölbreyttustu málefni samfélagsins liðna viku. Það varð vissulega töluvert tómarúm og söknuður þegar þessi innlit Wolla lögðust af síðustu árin vegna veikinda hans. Við minnumst allra þessara góðu stunda með Wolla, bæði hér í Reykjavík og á landsbyggðinni. Blessuð sé minning hans, og við Oddrún sendum Jóni Ragnari bróður hans innilegar samúðarkveðjur.

Leifur
Magnússon.

Gamlar minningar leita á hugann þegar Ólafur Walter Stefánsson er genginn á fund feðranna. Hann var einn af þessum miklu heiðursmönnum í stétt embættismanna síðustu aldar.

Atvikin höguðu því þannig að leiðir okkar lágu saman í dómsmálaráðuneytinu á síðasta áratug aldarinnar. Þangað réðst Ólafur Walter til starfa sama ár og hann lauk embættisprófi í lögfræði 1959. Ráðuneytið var þá til húsa í Arnarhvoli. Þar var svo starfsvettvangur hans alla tíð.

Ólafur Walter var góðum gáfum gæddur. Hann var afburða námsmaður. Einhvern veginn er auðvelt að gera sér í hugarlund að það hafi í huga hans verið rökrétt og spennandi skref að stíga beint frá prófborði inn í dómsmálaráðuneytið.

Þar vann hann sig fljótt til aukinnar ábyrgðar og var lengst af skrifstofustjóri í ráðuneytinu. Um Ólaf Walter verður ekki sagt að hann hafi verið aðsópsmikill. Miklu fremur má segja að hann hafi verið háttvís og dagfarsprúður í framgöngu. Svo gat hann verið hnyttinn í tilsvörum og lífgað upp á samræður.

Mér telst svo til að hann hafi á ríflega fjögurra áratuga starfsferli sínum í ráðuneytinu séð á bak fimmtán ráðherrum úr fjórum stjórnmálaflokkum. Þeir sátu þar með honum í mislangan tíma, frá sautján dögum upp í átta ár.

Ég þori að fullyrða að hann hafi notið óskoraðs trausts þeirra allra. Það leiddi af sjálfu sér. Hann var öðrum skarpari í að greina mál og sjá og meta allar mögulegar hliðar þeirra. Ráðherrar gátu treyst því að enginn flötur var ókannaður þegar hann lagði mál fyrir.

Ekki verður sagt að Ólafur Walter hafi hrapað að niðurstöðum. Hann tók gjarnan sinn tíma. Það gat endrum og sinnum reynt á þolinmæðina. Hitt skipti þó mestu máli að hann var hollráður í fyllstu merkingu þess orðs.

Þegar svo bar undir gat hann miðlað af sögulegri þekkingu og langri reynslu. Slík kjölfesta er hverju ráðuneyti mikilvæg.

Engum sem með Ólafi Walter starfaði gat dulist að þar fór vandaður, grandvar og hygginn embættismaður.

Nú þegar komið er að hinstu kveðjustund á einn gamall ráðherra þakkarskuld að gjalda.

Þorsteinn Pálsson.

Náinn samstarfsmann í áratugi kveð ég í dag með virðingu og þökk. Þegar starf framkvæmdastjóra Umferðarráðs var auglýst árið 1978 sótti ég um og þegar svo æxlaðist að ég kom til greina í starfið hafði Ólafur samband við mig, bað mig að hitta sig í dómsmálaráðuneytinu, og í framhaldinu tvo aðra heiðursmenn sem sæti áttu í framkvæmdanefnd ráðsins. Svo fór að þeim leist líklega þokkalega á umsækjandann, og þá lá leið mín til Sigurjóns Sigurðssonar, lögreglustjóra í Reykjavík, sem var formaður ráðsins, og þurfti eðlilega að sjá og ræða við piltinn. Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra blessaði síðan gjörninginn, á sinn rólega og yfirvegaða hátt. Samstarf okkar Ólafs Walters var hafið og stóð óslitið til 2002. Hann mjög reyndur í öllu er laut að umferðaröryggismálum, bæði hérlendis og í nágrannalöndum okkar, og verðmætt fyrir mig, nýgræðinginn, að eiga hann að í samskiptum við stjórnsýsluna, um lögfræðileg málefni, erlend samskipti o.fl. Ég reyndi að læra fljótt – ekki annað í boði, því störfin biðu. Þessir ágætu menn, og fleiri sem ég hef ekki nefnt, studdu mig og samstarfsfólk mitt við dagleg störf Umferðarráðs, og kunnu að ráða án þess að ráðskast. Þetta fyrirkomulag hentaði mér mjög vel, og ég lagði mig fram um að haga svo orðum og athöfnum að ekki gengi fram af skipuðum fulltrúum í Umferðarráði. Þar gat reynt á, sumir m.a.s. á móti lögleiðingu bílbelta. Sem formaður framkvæmdanefndar ráðsins var Ólafur afar þægilegur og ráðkænn samstarfsmaður, og þó svo að fyrir kæmi að við værum ekki fyllilega sammála um einstök mál held ég að segja megi að ávallt náðum við lendingu. Ég stundum dálítið óþolinmóður um framgang mála, en hann þessi fastheldni yfirvegaði embættismaður, sem aldrei skipti skapi, og vildi hafa allt pottþétt. Fyrir allt þetta verð ég Ólafi ævinlega þakklátur. Þakkarvert og að sækja með honum fundi og ráðstefnur á erlendri grund, þar sem hann var virtur fyrir víðtæka þekkingu á umferðarmálefnum. Er mér sérstaklega minnisstæð sameiginleg þátttaka okkar í fundum vegna Norræns umferðaröryggisárs 1983, sem voru haldnir í ýmsum borgum Norðurlanda. Eins og margt fólk hefur reynslu af skipta hádegis- og kvöldverðir og samræður við matarborð miklu máli á svona fundum og ráðstefnum, því þar myndast enn betur þessi verðmætu tengsl sem múra brjóta. Ólafur var ætíð á heimavelli við þess háttar aðstæður, virtur og vinsæll félagi, og gat, þegar við átti, verið hrókur alls fagnaðar. Jóni Ragnari, Gunnari bróðursyni og öðrum aðstandendum Ólafs votta ég samúð okkar Þurýjar, og fyrrverandi fulltrúa og samstarfsfólks í Umferðarráði. Mæt er minning góðs manns.

Óli H. Þórðarson.