Þegar Baldur var yngri stóð valið á milli þess að læra annaðhvort hagfræði eða teiknimyndagerð.
Þegar Baldur var yngri stóð valið á milli þess að læra annaðhvort hagfræði eða teiknimyndagerð. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Undanfarin ár hafa verið annasöm hjá Baldri enda góður gangur í skráningum. Hér á landi voru fjögur félög skráð á markað 2021, annað eins 2022 og á þessu ári hafa þau verið tvö auk þriggja félaga sem voru flutt af First North vaxtamarkaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar

Undanfarin ár hafa verið annasöm hjá Baldri enda góður gangur í skráningum. Hér á landi voru fjögur félög skráð á markað 2021, annað eins 2022 og á þessu ári hafa þau verið tvö auk þriggja félaga sem voru flutt af First North vaxtamarkaðnum yfir á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Hann segir horfurnar góðar þó markaðsaðstæður geti alltaf sett strik í reikninginn.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Erfiðar markaðsaðstæður eru klárlega að setja svip sinn á starfsemina. Þó svo uppbygging markaða sé langtímaverkefni og þannig séð óháð dægursveiflum þá skiptir stemningin á markaði auðvitað talsverðu máli þegar við erum að skoða ný tækifæri eða tala fyrir umbótum. Við erum samt áfram bjartsýn á frekari uppbyggingu markaðarins og það eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Góð niðurstaða úr nýlegu frumútboði Ísfélagsins sýndi t.d. að markaðurinn á talsvert inni og mikil tækifæri áfram fyrir metnaðarfulla aðila.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ætli það hafi ekki verið morgunfundur á vegum Framvís, sem eru samtök engla- og vísifjárfesta í nýsköpun. Mörg áhugaverð erindi og góðar umræður um fjárfestingar í nýsköpun. Ég held einmitt að kauphallir séu mjög mikilvægur hlekkur í því vistkerfi, sérstaklega ef við ætlum að halda í stærstu og flottustu fyrirtækin okkar, eins og komið var inn á í einu erindinu.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég hugsa að ég verði að segja Mindset eftir Carol Dweck. Ég fékk hana að gjöf á námskeiði sem ég sótti og hafði mikla fordóma fyrir henni, sem og öðrum „sjálfshjálparbókum“. Einhverjum árum síðar neyddi ég sjálfan mig til að lesa hana og hafa skilaboðin setið í mér síðan þá. Ég hef lesið margar góðar viðskiptabækur síðan þá og það hefur ósjaldan komið fyrir að aðrir höfundar vísi í Mindset, svo maður er reglulega minntur á þetta.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Samtöl við samstarfsfólk og viðskiptavini geta haldið manni mjög vel við efnið. Undanfarin ár hef ég einnig kerfisbundið reynt að sanka að mér gagnlegum upplýsingum um þau viðfangsefni sem ég er að fást við dagsdaglega, eins og frumútboð og skráningar á markað. Ég les viðskiptamiðla og erlendar greinar um þessi efni og skrái niður punkta, helst daglega. Mánaðarlega fer ég svo yfir þá og bý til samantekt á helstu straumum og stefnum, fyrir sjálfan mig og samstarfsfólk.

Hugsarðu vel um líkamann?

Já, ég myndi segja að ég hugsaði sæmilega vel um líkamann, þótt alltaf megi gera betur. Ég hjóla yfirleitt í vinnuna, reyni að fara a.m.k. tvisvar í viku á æfingu í Afrek og passa upp á mataræðið.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Undarlegt nokk var ég á sínum tíma að reyna að velja á milli þess að læra hagfræði eða teiknimyndagerð, tvær mjög ólíkar brautir. Ætli ég myndi því ekki láta reyna á hið síðara, ef ég ætti að velja eitthvað alveg nýtt.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Við rekum lítinn markað í alþjóðlegu umhverfi. Það getur stundum verið strembið, þar sem regluverkið er t.d. oft hugsað út frá mun stærri mörkuðum. En þessu fylgja einnig mikil tækifæri og það getur verið mjög spennandi að vinna í slíku umhverfi. Fólk setur á sig marga hatta og þarf að vera inni í öllu, á meðan erlendis er mun meiri sérhæfing. Þetta hjálpar manni að skilja heildarsamhengið betur; sjá skóginn en ekki bara trén. Boðleiðir verða styttri og auðveldara að taka ákvarðanir.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Orka er bráðsmitandi og ég er mjög heppinn að fá að vinna með frábæru samstarfsfólki sem veitir mér innblástur á hverjum degi. Á hinum pólnum er það svo gamla góða vesenið. Það er alltaf eitthvert nýtt vesen í gangi sem er áskorun að leysa úr. Það getur veitt manni lúmskt mikinn innblástur að leysa úr veseni og finna að maður hafi gert eitthvert gagn.

Ævi og störf

Nám: BA í hagfræði frá Háskóla Íslands 2005 með fjölmiðlafræði sem aukafag; MS í hagfræði frá sama skóla 2006.

Störf: Hagfræðingur hjá Samkeppniseftirlitinu 2006 til 2007; ýmsar stöður hjá Nasdaq Iceland 2007 til dagsins í dag. Frá árinu 2019 hef ég verið framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla.

Áhugamál: Ég nýt mín best á ferðalagi með fjölskyldunni, hvort sem það er innan- eða utanlands. Svo finnst mér gaman að fá útrás fyrir sköpunargleðina með því að teikna eða brasa eitthvað í höndunum. Nýleg birtingarmynd þess eru graskersskúlptúrar sem ég hef dundað mér við að gera fyrir hrekkjavöku.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Guðrúnu Nannýju Vilbergsdóttur þroskaþjálfa og á með henni Kára Pál og Gunnar Ása.