Vilhjálmur Sigtryggsson fæddist í Reykjavík 6. maí 1931. Hann lést á Landspítalanum 8. desember 2023.

Foreldrar Vilhjálms voru hjónin Vilhelmína Þ. Vilhjálmsdóttir, f. 16. júní 1905, húsmóðir í Reykjavík, og Sigtryggur Eiríksson, f. 16. nóvember 1904, lögregluþjónn og síðar starfsmaður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Systur Vilhjálms eru Halla, f. 7. júlí 1933, og Þórdís, f. 22. febrúar 1937.

Vilhjálmur giftist 31. mars 1956 Herdísi Guðmundsdóttur, f. 14. september 1934. Foreldrar hennar voru Guðmundur Njálsson og Karólína Árnadóttir bændur að Böðmóðsstöðum í Laugardal. Börn Vilhjálms og Herdísar eru 1) Bergljót, kennari, f. 13.5. 1958, gift Haraldi Haraldssyni fv. skólastjóra og eiga þau fjögur börn, Vilhjálm Karl, Herdísi Sólborgu, Svanhildi Höllu og Harald Óla. 2) Vilhjálmur, forstöðumaður hjá Kviku banka, f. 27.11. 1965, giftur Svövu Bernhard Sigurjónsdóttur leikskólakennara og eiga þau fjögur börn, Sigurjón Friðbjörn, Hinrik Steinar, Þorbjörgu Bernhard og Vilhjálm Andra. 3) Ingunn Björk, stjórnendaráðgjafi hjá Attentus, f. 18.7. 1973. Var gift Ólafi Erni Guðmundssyni og eiga þau þrjár dætur, Bryndísi, Ólafíu Bellu og Katrínu Eddu. Er nú gift Reyni Sævarssyni og á hann þrjá syni, Davíð, Sævar og Arnar. Langafabörn Vilhjálms og Herdísar eru Eldey Fönn, Svava Bernhard, Steinarr Karl, Svanhildur Júlía, sem lést við fæðingu, Dagur Steinn, Elías Kári, Emil Atli og Gabríela Metta.

Vilhjálmur fæddist í Reykjavík en hann dvaldi frá 9 til 14 ára aldurs hjá frændfólki að Votumýri á Skeiðum. Hann útskrifaðist sem skógræktarfræðingur 1953 frá Skógræktarskóla Íslands og sótti frekara nám í garðarkitektúr við Landbúnaðarháskólann í Kaupmannahöfn 1961-1962.

Vilhjálmur vann nánast alla sína starfsævi hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, frá 1953 sem almennur starfsmaður, en síðar sem framkvæmdastjóri félagsins eða frá 1969-1996. Hann var einnig stundakennari við Garðyrkjuskóla ríkisins.

Skógrækt var hans helsta áhugamál og sjást þess glögg merki í sælureit fjölskyldunnar að Bjarkarhöfða í Laugardal. Hann tók einnig mikið af ljósmyndum, hafði yndi af hestamennsku og ferðalögum erlendis sem innanlands. Hann var listrænn, teiknaði myndir og málaði og hafði gaman af því að skera út. Hann tók þátt í félagsstörfum, var virkur í Kiwanisfélaginu Heklu og var forseti félagsins 1985-1986. Hann sat einnig í byggingarnefnd Breiðholtskirkju.

Vilhjálmur og Herdís bjuggu fyrst í Eskihlíð, en byggðu sér íbúð 1957 að Gnoðarvogi þar sem þau bjuggu til ársins 1969 er þau fluttu í nýbyggt hús sitt við Lambastekk í Breiðholti. Þar bjuggu þau til ársins 2001 er þau fluttu í Garðabæ, fyrst í Hrísmóa en síðar á Strikið 4. Eftir að Herdís lést fluttist Vilhjálmur að Ísafold þar sem hann dvaldi síðustu æviár sín.

Útför Vilhjálms fer fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag, 20. desember 2023, og hefst athöfnin kl. 13.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég lít til baka og rifja upp ævi elsku pabba míns, Vilhjálms Sigtryggssonar. Þakklæti fyrir að hafa verið svo heppin að eiga hann að föður, félaga og vini. Því að hann var vinur minn, traustur, sannur og góður vinur.

Við pabbi áttum gott skap saman. Sem barn sóttist ég eftir að fá að vera með honum í ýmsu braski, fannst gaman að vera með honum í alls kyns verkefnum, við leik og störf. Þegar ég hafði aldur til fékk ég vinnu hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur en það fannst mér besti staður í heimi. Mér fannst ekkert meira virði en það starf sem þar var unnið og ég elskaði starf mitt þar og samveruna við það góða fólk sem þar starfaði. Ég var alltaf svo stolt af pabba og því mikla hugsjónastarfi sem þar var unnið.

Pabbi hafði einstaklega góða nærveru. Það var gott að eiga hann að, hann var alltaf uppörvandi, bjartsýnn og jákvæður. Hann sá það góða í fari fólks, talaði fólk upp og var laus við niðurrif, baktal og leiðindi. Enda átti hann auðvelt með að umgangast fólk, var léttur í lund, hafði gaman af hvers kyns spaugi og var góður félagi. Hann hafði lifandi áhuga á því sem við fjölskyldan höfðum fyrir stafni. Það var gott að leita til hans með smátt og stórt. Hann var skynsamur, fordómalaus og áhugasamur um menn og málefni. Hann var einnig næmur á líðan fólks og hafði þann hæfileika til að bera að geta hlustað og komast að kjarna málsins, sagði oft einfaldar hnyttnar setningar sem fönguðu það sem mestu máli skipti. Hann hafði óbilandi traust á okkur, hrósaði okkur og hvatti til dáða.

Pabbi og mamma voru klettarnir í lífi mínu og miklar fyrirmyndir, traust og góð og við systkinin og fjölskyldur okkar vorum heppin að geta notið þeirra lengi. Mamma var sólin í lífi pabba, hann dýrkaði hana og dáði og þau voru mjög samrýmd. Þegar mamma lést fyrir sex árum þá héldum við að pabbi gæti hreinlega ekki komist í gegnum lífið án hennar, en hann reis upp og ákvað að lifa áfram jákvæður og duglegur og halda í heiðri þau gildi sem þau höfðu staðið fyrir. Fyrir þessi sex ár erum við þakklát. Hann var duglegur að hafa samband, fylgdist vel með sínu fólki og bar hag okkar allra fyrir brjósti. Það var gaman að sjá hvað hann hafði mikla unun af því að umgangast barnabörn og barnabarnabörn, enda hafa þau öll sóst í það að fá að hitta hann, leika við hann og spjalla. Það var gott að heimsækja hann og við munum sakna þess. Við erum þakklát starfsfólkinu á Ísafold, þar sem hann dvaldi síðustu árin, Þorsteini vini hans og öðru samferðafólki hans þar og biðjum þeim blessunar.

Litla telpu leiddir þú,

lífsins fyrstu spor.

Ef beygði af í bernsku sú,

þú bættir kjark og þor.

Blíðan þín og bernskan mín,

björt er mér í hug.

Elsku pabbi ástin þín,

enn mér veitir dug.

Alls hins besta af þér naut,

ævidaga bjarta.

Þó skilji leið á lífsins braut,

ljós þitt skín í hjarta.

(Hari)

Elsku pabbi, hvíl í friði.

Þín elskandi dóttir,

Bergljót (Bella).

Þrátt fyrir að pabbi hafi náð háum aldri, þá er erfitt að kveðja pabba sinn. Pabbi hringdi í mig daglega og stundum oft á dag. Hann fylgdist mjög vel með mér í starfi og hann var minn besti ráðgjafi. Hann var því á hliðarlínunni inni í mannauðsmálum helstu fyrirtækja landsins og leiðbeindi mér, með sína áralöngu stjórnendareynslu að baki. Hann leit á mannauðsmál eins og trjárækt. Hann notaði þá samlíkingu að huga þyrfti að áburði til að gera jarðveginn lifandi og frjósaman þannig að það væri jafnvægi og hæfileiki til framleiðni. Sama ætti við um vinnustaði, jarðvegurinn yrði að vera heilbrigður svo hægt væri að skapa heilbrigða vinnustaði. Þetta voru hans leiðarljós í stjórnun.

Hjá honum störfuðu á tímabili yfir þúsund ungmenni og þegar ég hugsa til baka þá fyllist ég stolti yfir hvað pabbi var framsýnn. Hann var jafnréttissinni og lét verkin tala. Pabbi var mín fyrirmynd í stjórnun, hann var leiðtogi sem hvatti fólk til dáða, lagði áherslu á að við börnin ynnum við það sem við hefðum áhuga á, þá gætum við allt. Sama gilti um alla í kringum hann. Fólk óx í kringum pabba, hann talaði alla upp, hann var duglegur að hrósa og hvetja, alla daga og alveg fram á síðustu mínútu þegar hann kvaddi okkur. En það er ein setning sem hann sagði við okkur í fyrra, sem ég deili með ykkur. „Ef þú ert í fýlu, þá ertu ekki frjáls.“ Þessi orð lýsa pabba vel og segja svo margt.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður. Hann var áhugasamur um öll okkar börn og stjúpbörn. Hann fylgdist með þeim öllum og var mjög næmur á fólkið sitt. Hann hafði sterka tilfinningagreind og gaf okkur góð ráð, bæði í einkalífi og starfi. Hann var glaður yfir skógræktaráhuga okkar Reynis og hvað við værum samstíga. Hann var áhugasamur um dansinn hjá Katrínu, gítarnámið hjá Ólafíu, listnámið hjá Bryndísi, körfuna hjá Arnari, námið og garðstörfin hjá Sævari og Davíð og ný ævintýri. En fyrst og fremst sagði hann mér daglega hvað hann elskaði okkur mikið og væri stoltur af okkur. Hann taldi mér trú um að ef áhuginn væri til staðar, þá væru mér allir vegir færir. Það er ómetanlegt veganesti. Að hafa átt svona yndislegan pabba er ómetanleg gjöf. Ég er þakklát fyrir dásamlega minningu úr brúðkaupi okkar Reynis í sumar. Pabbi stal senunni. Hann var hrókur alls fagnaðar, dansaði í hjólastólnum og lét leigubílstjórann bíða eftir sér í nokkrar klukkustundir. Hann vildi ekki missa af góðu partíi. Þannig var pabbi! Gleðskaparmaður og partípinni.

Samband mömmu og pabba var einstakt. Þau voru svo skotin í hvort öðru. Pabbi sá ekki sólina fyrir mömmu og talaði svo fallega til hennar og um hana. Ég trúi því að mamma hafi sótt hann og nú séu þau loksins sameinuð, ástföngnu skógræktarhjónin, Villi og Dísa.

Ég er mjög stolt af ævistarfi pabba, framsýni hans og framkvæmdagleði. En ég er umfram allt þakklát því hann kenndi mér svo margt.

Ég lofa að viðhalda þeirri mannrækt og skógrækt sem þú kenndir mér.

Þín dóttir,

Ingunn.

Elsku pabbi. Ég er þakklátur að hafa verið með þér í 58 ár. Þakklátur fyrir hvernig þér tókst að stýra mér í rétta átt. Þakklátur fyrir það geta horft upp til þín þegar ég var pjakkur og þú varst miklu sterkari en hinir pabbarnir. Þakklátur fyrir að hafa verið sendur í sveit og kynnst góðu fólki og hvernig það var að mjólka beljur og aka traktor. Þakklátur fyrir að vera svo stór í þínum huga að þegar ég varð útibússtjóri hjá Íslandsbanka, tæplega þrítugur, þá hringdir þú í alla sem voru í símaskránni og sagðir: „Hann Villi minn er bara orðinn bankastjóri.“ Við gerðum margt saman, við fórum að veiða og settum upp girðinguna í kringum Bjarkarhöfða þegar ég var sex ára. Þú keyptir Bronco með tveimur bensíntönkum af því að mig langaði svo í svoleiðis bíl. Já pabbi, ef allir ættu nú pabba eins og þig. Þú elskaðir mömmu og þitt fólk sem gaf strák eins og mér gott veganesti út í lífið. Þú brannst líka fyrir umhverfinu og landinu, varst framkvæmdaglaður og þér voru allir vegir færir. Eins og þú sagðir sjálfur, ef maður hefur áhuga, þá getur maður allt. Þú skilur mikið eftir þig sem slokknar ekki þó að þú sért farinn. Allur gróðurinn hér á höfuðborgarsvæðinu væri ekki eins og hann er nema fyrir þinn eldmóð, en svo ekki síst ættgarðurinn sem þú skilur eftir þig og fylgist með trjánum vaxa og dafna. Lífið var samt ekkert alltaf dans á rósum og við höfum átt stundir þar sem við höfum þurft að takast á elsku pabbi, en það gerir okkur að betri mönnum. Þú hafðir svo margt, framkvæmdagleði, listræna hæfileika, en ekki síst mannlega kosti eins og heiðarleika, hæfileika til að hlusta á aðra og hafa trú á fólkinu þínu. Mikið er ég þakklátur að hafa verið með þér síðustu klukkutímana og að þú hafir aldrei hætt að vera pabbi sem settir manni fyrir verkefni. Síðustu orðin þín til mín voru: „Villi minn, Þú hefur fitnað dálítið.“ Þessi orð bera vott um væntumþykju og að það sé komið nýtt verkefni fyrir pjakkinn þinn. Við kvöddumst sáttir elsku pabbi.

Þinn sonur,

Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Að rækta skóg er töfrum líkast. Það er nánast eins og að gefa nýtt líf. Að sá fræi í jörð og sjá það dafna tekur mörg ár því tré eru lengi að vaxa úr grasi. Skógar eru mannbætandi því þeir veita okkur ómælda gleði og eru með eftirsóttustu útivistarsvæða sem við höfum aðgang að ásamt því að vinna fyrir okkur. Ég bý í húsi sem er staðsett við skóg. Að geta gengið út í skóginn og séð hann breytast með árstíðunum, hlustað eftir fuglunum á vorin og notið þar samveru við fjölskyldu og vini, eða bara verið jafnvel ein með hugsunum mínum eru forréttindi sem eru ekki sjálfgefin hér á landi. Hugur minn reikar oft til þeirra frumkvöðla sem hófu að rækta skóg á þessum svæðum. Fólk með hugsjónir um að breyta landi til hins betra. Tengdafaðir minn Vilhjálmur Sigtryggsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, er einn þessara frumkvöðla. Hann ræktaði skóg. Að ganga um skóg í og við Reykjavík er saga um ævistarf hans og hugsjónir. Skógurinn í Elliðaárdalnum, Öskjuhlíðinni, Bjarkarhöfða og Heiðmörk ásamt uppgræðslu lands á Hólmsheiði eru sagan hans. En allra fallegasti skógurinn sem hann ræktaði eru fjölskyldan hans, ættingjar og vinir. Þar plantaði hann öllum sínum fegurstu trjám og sinnti þeim af ómældri ást og alúð allt sitt líf. Hann var fólkinu sínu fyrirmynd á mörgum sviðum og æðruleysi hans, styrkur og dugnaður áttu sér enginn takmörk.

Að njóta þeirra forréttinda að fá að vaxa og dafna í skóginum þínum hefur verið mér ómetanlegt elsku besti tengdapabbi í heimi. Þú hefur markað djúp spor í sálu okkar fjölskyldunnar og ert ógleymanlegur. Við elskum þig af öllum lífs og sálar kröftum. Sofðu rótt elsku Villi minn í faðmi Dísu þinnar um alla eilífð.

Þín tengdadóttir,

Svava.

Gegnum lífið handtök hans,

hafa þjónað landi.

Löngum er ei léttur dans,

að lifa brautryðjandi.

Þeir sem stóran hafa hug

og hiklaust veginn ryðja,

efla fólksins dáð og dug,

drífa, leiða og styðja.

Skógarmannsins verkið vænt

verðugt lof skal hljóta.

Kolefnisjafnar og klæðir í grænt

kynslóðirnar njóta.

(Haraldur Haraldsson)

Eitthvað var líkt í okkar sálum. Einhvern veginn finnst mér að við hefðum alltaf orðið vinir, sama með hvaða hætti leiðir okkar hefðu legið saman. Að vera jafnframt tengdasonur hans varð gæfa mín. Minning um góðan dreng lifir ljós í hjarta og við sem eftir lifum njótum margvíslegra mannkosta hans í afkomendum okkar. Þeir erfðu og lærðu sýn hans og fylgdust með verkum hins hugmikla eljumanns. Þeir munu enda bera merki hans og hróður á lofti.

Í dag fylgjum við til foldar Vilhjálmi Sigtryggssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Verk hans skulu ekki tíunduð hér svo margvísleg sem þau voru en það mesta blasir við um gjörvallt höfuðborgarsvæðið, útmerkur þess og víðar. Þar sem hann hafði á sínum starfsárum forystu og með höndum framkvæmd gróðursetningar eins stærsta ef ekki stærsta samfellda manngerða skógar Íslands.

Vilhjálmur var fallegur maður, góður og greindur. Skógrækt lærði hann og skógurinn var vettvangur hans ævistarfs. Þar fann hann skjól fyrir sig og sína, land og þjóð. Þrátt fyrir gjörvileik og mannkosti þurfti hann að heyja sínar lífsins glímur og standast storm innri baráttu og ytri afla. Hann hafði þar sem í öðru sigur sem einmitt byggðist á því úr hverju hann var gerður. Honum var farið sem fuglum himins að þrá að eiga sér hreiður. Vilhjálmi var alltaf umhugað um sitt hreiður og þess naut fjölskyldan og svo óteljandi margur.

En hann var sannarlega ekki einn við sína hreiðurgerð. Eiginkona hans Herdís Guðmundsdóttir frá Böðmóðsstöðum í Laugardal var þar sá klettur sem hann og aðrir gátu stutt sig við og reitt sig á.

Dísa og Villi eins og þau voru af flestum kölluð og þá oftar en ekki í sömu andrá voru sannarlega eitt. Öðrum glæsilegri og góðum gáfum gefin gengu þau hönd í hönd sinn æviveg. Ástfangin báru þau sprek að sínum eldi á hverjum einasta degi allt sitt hjónaband.

Þótt Villi hafi léð landgræðslu og skógrækt þorra sinna krafta var hann ekki einhamur maður og víða lá náttúruhæfi hans. Tónlist rann um æðarnar sem margra skyldmenna hans, listfengi og hagleikur. Ófáir eru garðar og útivistarsvæði sem hann teiknaði. Myndlistarverk og útskurður prýða heimili afkomenda hans. Ánægju hafði hann af veiðiskap og dýrum, þá einkanlega hundum og hestum.

Okkur er gjarnt að telja upp kosti þeirra sem gengnir eru og sannarlega bjó Villi ríkulega af hvers kyns hæfileikum sem margir nutu og njóta. Mér er þó efst í huga yndisleg og gefandi nærvera hans þar sem hann umvafði sitt fólk af skynsemi, húmor, kærleik og skefjalausri ást. Þessa ást var auðvelt að endurgjalda og nú, við fráfall þessa yndislega vinar míns, að þakka.

Blessuð sé minning Vilhjálms Sigtryggssonar.

Haraldur Haraldsson (Hari).

Vilhjálmur Sigtryggsson er látinn, eða Villi afi minn, eftir stutt veikindi. Hann kvartaði nánast aldrei, sá mikli höfðingi. Villi afi var ekki bara afi minn, hann var einn af mínum traustu vinum, sú taug og vinátta er órjúfanleg. Villi afi var kletturinn í fjölskyldunni. Honum var mjög umhugað um hvernig okkur öllum liði. Hann vildi vita hvernig honum Villa Kalla sínum liði. „Hvað segirðu, nafni, förum við ekki fljótlega austur í Bjarkarhöfða?“ Ég svaraði um hæl: „Jú, að sjálfsögðu.“ Hann hafði alveg ótrúlegan viljastyrk. Þrautseigari og þrjóskari en allt og þetta meina ég á jákvæðan hátt.

Honum var mjög umhugað um að Ísland væri skógi vaxið, það var ástríða hans og Dísu ömmu. Það var heldur betur gróðursett á vakt

Vilhjálms Sigtryggssonar enda var hann framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur í 26 ár. Hann var með hundruð manns í vinnu við að gróðursetja og duglegur við gróðursetningar sjálfur, enda fyrir löngu búinn að kolefnisjafna sitt fótspor.

Ófáar ferðirnar fórum við systkinin með þeim Dísu ömmu austur í Bjarkarhöfða. Það var sko stuð. Við byggðum Þrasastaði og amma hló og hló. Þarna mættust þrjóskur þrjóskari. Eftir því sem ég eltist, vissi ég að afi hafði rétt fyrir sér þegar kom að því hvernig ætti að byggja, enda verklaginn og liggja eftir hann teikningar og aðrir gripir góðir. Fyrir austan grillaði afi en amma Dísa sá um aðra matseld. Farið var í sund að Laugarvatni eða Aratungu. Villi afi hafði góða kímnigáfu og fannst honum gaman að stríða nafna sínum í sundi án þess að það væri farið yfir strikið.

Villi afi var einnig mikill hestamaður. Hann spurði frétta af Snorku og Gerplu, hvort það væri von á folöldum í sumar, hvort ég hefði frétt af Kristínu og Bjarna. Votumýrarvarkárnin leyndi sér ekki hjá Villa afa, enda Skeiðamaður í húð og hár. Hann var með eindæmum barngóður maður og vildi líka allt fyrir þá er minna máttu sín gera í þjóðfélaginu.

Villi afi var mjög pólitískur og var tryggur sínum Sjálfstæðisflokki alla tíð. Við nafnar deildum oft í stjórnmálum en Dísa amma hafði mjög gaman af því að stríða mér og sagði oft: „Ætlarðu aldrei að þroskast, Villi Kalli minn, eins og við afi þinn og kjósa XD?“ En þau

fengu þá ósk sína nú ekki uppfyllta.

Ég er elsta barnabarn þeirra hjóna og það eina sem man eftir Sigtryggi langafa. Fyrir þrem vikum dreymdi mig draum um að Sigtryggur langafi rétti hönd sína að afa og þá orti ég þetta:

Sigtryggur sótti strákinn sinn

komdu hérna, sonur minn,

eftir situr sársaukinn.

Hinum megin beið móðir þín

falleg, fögur og fín,

eftir situr Þórdís mín

elsku litla systir þín.

Ófá eru orðin mín

sé ég tár á kinn

elsku besti afi minn.

Nú er kominn tími á kveðjustund

þú ert kominn á feðrafund.

Ég mun alltaf muna eftir þér

sama hvernig lífið fer

bíddu eftir mér

svona blessað lífið er.

Amma Dísa tekur á móti þér.

Elsku Villi afi, lífið verður aldrei samt án þín.

Ég mun alltaf sakna þín.

Hvíldu í friði.

Þinn dóttursonur,

Vilhjálmur Karl (Villi Kalli).

Elsku afi okkar, nú er komið að kveðjustund. Eins erfitt og það var að kveðja þig þá fyllast hjörtu okkar af þakklæti og ást þegar við horfum til baka á allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við minnumst með hlýhug í hjarta allra þeirra góðu stunda sem við áttum saman með þér, ömmu og fjölskyldunni í Bjarkarhöfða á okkar yngri árum. Þar lærðum við að tálga spýtur, byggja kofa, grisja landið og almennt fá græna fingur, sem við öll erfðum beint frá ykkur ömmu Dísu. Það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til ykkar ömmu þar sem manni mætti alltaf opinn faðmur og mikil hlýja í hvert skipti. Allt fram á síðasta dag hafðir þú svo mikinn áhuga á lífi okkar barnabarnanna og það skinu stjörnur úr augunum þínum þegar þú sást langafabörnin þín.

Elsku afi okkar, við munum halda minningu þinni á lífi og margar af þínum fleygu setningum munu fylgja okkur og móta um alla tíð. Nú eruð þið amma Dísa saman á ný og munuð vaka ávallt yfir okkur. Góða ferð í draumalandið elsku afi Villi okkar.

Þín barnabörn,

Sigurjón, Hinrik, Þorbjörg og Vilhjálmur Andri.

Afi minn á alveg ótrúlega stóran garð. Það fer auðvitað eftir því hvernig horft er á það, en ef við byrjum í Lambastekk í Neðra-Breiðholti þá liggur garðurinn niður í Elliðaárdal, þaðan væri hægt að fara í átt að Fossvogi og upp í Öskjuhlíð, eða fara upp með Elliðaánum, taka stökk upp í Efra-Breiðholt, umhverfis Rauðavatn og út um alla Heiðmörkina. Amma mín hefur ræktað þennan garð líka og saman tengja þau garðinn yfir Hólmsheiðina, austur í Laugardal, á Böðmóðsstaði og Bjarkarhöfða. Svona risagarður er að sjálfsögðu ekki eins manns verk og í eins manns eigu en ætli það sé ekki það fallegasta við þennan garð.

Vongóði garðyrkjumaðurinn hann afi minn sótti fræ út í lönd sem hann og fleiri töldu að gætu grætt upp landið og nú er húsið hans umlukt gróðri og trjám. Bergflétta vex upp húsvegginn, fjólur vaxa á milli mosagróinna hellna, reynitrén og sitkagrenið veita skjól.

En í garðinum vex ég líka, stelpuskjáta með frekjuskarð og tíkó. Ég læri tungumál garðsins, á verkfærin, handtökin og nöfnin á hinum plöntunum. Þó að garðyrkjumaðurinn sprauti stundum stríðnislega á mig vatni með garðslöngunni þá veit hann upp á hár hvers konar næringu stelpa eins og ég þarf til að dafna og réttir mér málningu og pensla. Hann leggur áherslu á að ég leggi rækt við listina og sú vinna leiðir mig að því starfi sem ég er í núna.

Nú er frekjuskarðið horfið og tíkóið líka. Forvitin rölti ég enn um í garðinum sem eitt sinn var hugmynd á teikniborðinu hans afa. Út frá göngustíg sem liggur frá Arnarbakka að Stíflu fer ég inn á milli trjánna, tek nokkrar myndir og ber þær saman við slidesmyndirnar hans afa. Trén virka nú sem mælikvarði á tíma og hjálpa mér að skilja, en veita einnig skjól og hlýju í sorginni, elsku afi minn.

Þín

Svanhildur Halla
Haraldsdóttir.

Hann situr við skrifborð í Lambastekknum, þungt hugsi. Ég ligg undir því, á maganum með fæturna fasta við hans. Þarf ekki að láta lítið fyrir mér fara, þó að eitthvað liggi á honum. Réttir mér blað og penna undir borðið. Hann er fallegur, penninn. Ég legg blaðið ofan á bók og teikna mynd af honum og ömmu. Yfir þau set ég regnboga, á milli þeirra hjarta.

Hann færir hausinn undir borðið og réttir fram höndina, ég stíg undan því. Hann reisir sig úr stólnum, en beygir sig aftur niður. Mætir mér í augnhæð. Réttir mér aftur höndina og við göngum saman í takti upp tröppurnar og þaðan inn í eldhús. Þar situr Villi Kalli við borðið með mjólk í glasi. Amma gengur til okkar, hún er með rauðu svuntuna á sér. Ég færi þeim myndina, en lít undan þegar þau mætast í kossi. Þau eru jöfn. Afi og amma í Lambastekknum, kjarninn í tilverunni minni.

Afi var næmur á fólk og lagði sig fram um að mæta því þar sem það var. Það var einkennandi. Það kom mér því ekki á óvart, raunverulega, að hnén gæfu sig snemma hjá honum, svo oft hafði hann beygt þau af virðingu við okkur börnin. Hann notaði hjólastól sín síðustu ár. Þá var það mitt að færa mig niður í hans augnhæð og þar höfum við mæst í okkar órjúfanlegu tengslum. Tengslin við afa urðu sterk á síðustu æviárum hans. Í honum eignaðist ég trúnaðarvin sem ég syrgi sárt í dag.

Afa sem mætir öllum eins og þeir eru, hlustar þrátt fyrir að heyra ekki allt. Hlustar með hjartanu.

Eldey mín og Dagur minn nutu leiðsagnar og vináttu við langafa og ég fylgdist með honum mæta þeim á sama jafningjagrundvelli og ég upplifði í minni æsku. Nú var augnhæðin náttúruleg. Hvorugt þurfti að beygja hnén. Hjá honum var öllum spurningum svarað og vandamál leyst í kærleika.

Vilhjálmur Sigtryggsson, náttúruunnandi, mannþekkjari, kærleikurinn, húmoristinn og vinurinn. Villi hennar Dísu. Afi og langafi sem allt skilur.

Hugurinn reikar til minnar síðustu heimsóknar til afa. Ég vissi það ekki þá að þetta væri okkar kveðjustund. Síðasti laugardagurinn í lífinu hans afa. Það var eins og hann væri klæddur upp á fyrir daginn. Í sparifötum og fallegum gulum sokkum. Sem fyrr bað hann mig að heilsa upp á Þorstein. Þeir höfðu myndað djúp tengsl á Ísafold og stundum sagði afi í gamni að þeir væru eins og gömul hjón. Afi var áhugasamur um fólkið sitt, lagði áherslu á að jólagjafirnar skiluðu sér. Hann talaði um ömmu og lífið hennar. Já, amma var svo falleg, sagði ég annars hugar. Hann leit snöggt á mig, næstum ásakandi. Hún var svo gáfuð, Herdís, amma þín var svo vel gefin. Ég fór hjá mér, sá mistökin. Ég veit, skil.

Það var einstakt samband á milli afa og ömmu. Þau stóðu þétt saman í gegnum lífið, það var honum þungbært að missa ömmu.

Nú þegar komið er að okkar kveðjustund, elsku afi, þá er gott að sjá ykkur fyrir mér saman á ný.

Undir regnboganum með hjartað eitt á milli ykkar.

Takk fyrir gleðina, samkenndina og alla hlustunina.

Við búum að þinni leiðsögn út ævina og berum áfram til næstu kynslóða.

Þín

Herdís Sólborg.

Nú kveðjum við þig elsku afi. Þú vildir allt það besta fyrir okkur, við fundum það. Þú vildir að við eltum drauma okkar og ekkert gæti stoppað okkur ef áhuginn væri fyrir hendi.

Við eigum svo yndislegar minningar frá því þegar þið amma bjugguð á Strikinu. Við munum eftir skartgripunum hennar ömmu, flottu eyrnalokkunum hennar og síðu hálsmenunum sem hún leyfði okkur alltaf að nota. Við spiluðum mikið við ömmu og spjölluðum við þig afi um gamla tíma, skreyttum jólatréð fyrir jólin og fengum bleikan snúð með glassúr úr bakaríinu.

Á síðustu árum jukust samskiptin við afa. Við fundum fyrir einlægum áhuga hjá honum á lífi okkar og þroska. Hann kenndi okkur svo margt, gaf okkur góð ráð og var alltaf hvetjandi og við fundum að hann hlustaði vel á okkur. Afi lagði mikla áherslu á að lifa góðu lífi og að vera hamingjusamur. Hann var alltaf glaður og í góðu skapi og hann átti auðvelt með að láta öllum líða vel í kringum sig. Afi var mjög fyndinn og sagði svo skemmtilega frá, hann var einstaklega orðheppinn. Við munum ávallt muna sögurnar hans og geyma þær hjá okkur. Afi hafði þannig nærveru að okkur leið alltaf betur í hjartanu eftir að hafa hitt hann. Hann gaf okkur alltaf einhver verkefni út í lífið, eitthvað heimspekilegt til að hugsa um.

Við kveðjum þig með fyrsta og síðasta erindi úr ljóði eftir Steingrím Thorsteinsson skáld og fyrsta formann Skógræktarfélags Reykjavíkur 1901. Ljóðið heitir „Skógarhvíldin“ og fannst okkur það táknrænt fyrir þig elsku afi.

Nú vakna ég eldhress í ilmandi lund

sem ómar af vorfugla kliði.

Hér fékk ég að sofna þeim blíðasta blund

við blæinn, sem þau uppi í viði.

Upp! glaður nú rís ég af grösugum blett

og geng meðan endist mér dagur.

Minn hugur er kátur og hjartað er létt

og heimurinn víður og fagur.

Við elskum þig. Nú ertu kominn aftur í faðm ömmu.

Þín barnabörn,

Bryndís, Ólafía Bella og Katrín Edda Ólafsdætur.

Sú harmafregn barst okkur á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ að Vilhjálmur Sigtryggsson hefði látist snemma morguns 8. desember sl. eftir mjög skammvinn veikindi. Villi eins og hann var jafnan kallaður var frændi minn, við vorum þremenningar. Þórdís Þorsteinsdóttir, amma Villa, var systir Ingvars, afa míns. Þau voru af Reykjaætt á Skeiðum. Villi var góðvinur minn og sannur félagi á hjúkrunarheimilinu. Við náðum vel saman og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Villi hafði yndi af að segja mér frá frændfólki okkar á Skeiðunum og sveitalífinu þar þegar hann var ungur. Hann hafði frá mörgu skemmtilegu að segja, minnið var furðu gott þótt skammtímaminnið væri farið að gefa sig. Villi var afar stoltur af börnum sínum og barnabörnum og sagði mér reglulega frá þeirra högum. Á sama hátt hafði hann mikinn áhuga á börnum mínum og barnabörnum og spurði regulega um þau eins og þau væru hans eigin.

Villi hafði afar létta lund og tímunum saman gátum við gantast og gert grín, mest hvor að öðrum. Reyndar var það svo að heyrðum við góðs manns getið þá áttum við það til að segja: Já! Hann eða hún hlýtur að vera af Reykjaætt eða hafa dvalið lengi á Skeiðunum! Þá nefni ég það að okkur Villa varð aldrei hált á að nota orðið maður sem nær yfir bæði karla og konur. Oft styttum við okkur stundir við að giska á hvaða matur yrði á boðstólum hverju sinni og þótti okkur frekar lélegt að fá kjúklingarétti og kölluðum kjúklingana ýmsum nöfnum, s.s. haughoppara eða bara hænur. Góður fiskur með hamsatólg eða lambakjöt var í uppáhaldi hjá okkur.

Nú er hálftómlegt á deildinni okkar á Ísafold eftir að Villi er fallinn frá. Hann fyllti herbergi og matsalinn slíku lífi með geislandi nærveru sinni.

Ég sakna sárt góðs vinar og sendi börnum hans og öðrum ættingjum og vinum samúðarkveðjur.

Þorsteinn Helgi
Þorsteinsson.

Elsku Villi hefur kvatt þennan heim og er nú kominn til elsku Dísu sinnar.

Villi og Dísa voru alltaf svo að segja sama og foreldrar mínir og við Ingunn óaðskiljanlegar. Ég var því mikið heima hjá þeim hjónum, enda fannst mér ég vera svona eins og þriðja dóttirin. Við Ingunn komum ævinlega skítugar heim eftir prakkarastrikin saman, ósjaldan með skrámur eða sand í auganu. Villi var þá ekki lengi að bregðast við, gaf okkur plástur, kyssti á bágtið og sleikti sandinn úr auganu, sem mér fannst alltaf svolítið skrítið, en það hjálpaði alltaf.

Ég mun aldrei gleyma þeim ótal ferðum sem við fórum saman í bústaðinn Bjarkarhöfða við Böðmóðsstaði, þá fengum við alltaf að taka kíló af lakkrís með okkur, svo var sungið alla leiðina upp eftir og mikið hlegið. Við vorum oft með mikil læti en alltaf voru þau hjón með skilning og jafnaðargeð gagnvart okkur. Mér er það einnig mjög minnisstætt hvað mér fannst alltaf flott að Villi væri framkvæmdastjóri Skógræktar Reykjavíkur og fannst mér þá að hann hlyti að eiga öll tré á Íslandi og væri því næstvaldamesti maður á Íslandi eftir forsetanum.

Margt fleira gæti ég talið upp hér um mín kynni af Villa, hann var mjög góður maður og í miklu uppáhaldi hjá mér. Í seinni tíð fylgdumst við hvort með öðru í gegnum Ingunni. Nú þegar dagar þínir hér á jörðu eru taldir mun ég sakna þess að fá ekki fréttir af þér lengur minn kæri.

Elsku Villi, hvíldu í friði. Þið Dísa voruð mér alltaf mikils virði og ég mun geyma ykkur í huga og hjarta alla mína tíð. Ykkur kæra fjölskylda votta ég mína dýpstu samúð. Megi guð varðveita þau bæði í himnaríki.

Vertu til

er vorið kallar á þig,

vertu til

að leggja hönd á plóg.

Komdu út

því að sólskinið vill sjá þig

sveifla haka

og rækta nýjan skóg.

Inga Hrönn Grétarsdóttir.

Vilhjálmur Sigtryggsson var framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur frá 1969 til 1996. Vilhjálmur vann ötult og mikið starf á blómlegum tíma í sögu félagsins. Fossvogsstöðin, sem var í eigu Skógræktarfélags Reykjavíkur, var ein helsta ræktunarstöð landsins þar sem framleidd voru tré til skógræktar fyrir útivistarsvæði eins og Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Breiðholt, Heiðmörk og Hólmsheiði. Vilhjálmur leiddi það starf ásamt mörgu góðu fólki sem kom að starfinu. Í dag njótum við höfuðborgarbúar góðs af því mikla starfi sem unnið var í tíð Vilhjálms Sigtryggssonar. Ég votta fjölskyldu hans innilega samúð.

Frá Yggdrasils aski að örsmæsta tré

vér ætlum að trjálífið hugumkært sé.

Hvað elskarðu' náttúru, ef elskarðu' ei skóg

með ilm gróðri, fuglalíf' og himneskri ró?

Það hugarþel góða, sem hingað dró þig,

af hjarta vér þökkum við skilnaðar stig,

og fræðslu með hugsjón, að heft verði grand

og hækkandi markmið, að „klæða vort land“.

(Steingrímur Thorsteinsson, fyrsti formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, 1904)

Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri
Skógræktarfélags Reykjavíkur.