Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur átt í erfiðleikum með að koma sér saman um texta í ályktun um samskipti Ísraelsmanna við Hamas-samtökin. Bandaríkin beittu neitunarvaldi þegar Antonio Guterres framkvæmdastjóri SÞ beitti sjaldgæfri grein í stofnsáttmála samtakanna til að kalla öryggisráðið saman til atkvæðagreiðslu um ástandið á Gasasvæðinu. Atkvæðagreiðslu var frestað á mánudaginn og í gær átti atkvæðagreiðsla um nýja yfirlýsingu að fara fram klukkan fimm að staðartíma í New York, en var aftur frestað til dagsins í dag.
Miklum áhyggjum lýst
Saminn hefur verið nýr texti sem greidd verða atkvæði um. Fram kemur á vef öryggisráðsins að þar sé þess krafist að deiluaðilar leyfi og geri kleift að flytja tafarlaust mannúðaraðstoð í umfangsmiklum mæli til íbúa Gasa og að gera hlé á stríðinu svo það gangi eftir. Þá er lýst miklum áhyggjum af ástandinu á Gasa og áhrifum þess á almenna borgara, ekki síst konur og börn.
Lögð er áhersla á þá skyldu að vernda hjálpar- og heilbrigðisstarfsfólk. Þá er lagt til að eftirlitsaðila SÞ verði gert kleift að fylgjast með og flýta fyrir afhendingu mannúðaraðstoðar og gildi samningur um það í eitt ár.
Krafist er að öllum gíslum sé sleppt tafarlaust og að þeir fái læknishjálp meðan þeir eru í haldi. Öll brot á alþjóðlegum mannúðarlögum eins og árásir á almenna borgara og hryðjuverk eru fordæmd og farið fram á að vígamenn Hamas virði öryggi starfsfólks hjálparstofnana. Að lokum er ítrekuð skuldbinding öryggisráðsins við tveggja ríkja lausn og mikilvægi þess að sameina Vesturbakkann og Gasasvæðið undir Palestínustjórn.
Ismail Haniyeh leiðtogi Hamas-samtakanna, sem dvelur í Katar, ætlar að heimsækja Egyptaland á miðvikudag til að ræða vopnahlé á Gasasvæðinu og fangaskipti við Ísrael. Katar, með stuðningi Egypta og Bandaríkjamanna, hafði milligöngu um að samið var vikulangt vopnahlé og gísla- og fangaskipti í nóvember.
„Gasa er hættulegasti staður í heimi fyrir börn,“ sagði James Elder talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á blaðamannafundi í gær eftir að hann sneri til baka eftir að hafa dvalið í tvær vikur á Gasasvæðinu. Hann sagði að palestínsk börn væru upp til hópa í alvarlegu áfalli og þau sem ekki létu lífið í loftárásum ættu á hættu að deyja úr sjúkdómum eða hungri.
130.000 börn án aðhlynningar
Þá væru sjúkrahúsin, sem margir hefðu notað sem skjól, engan veginn örugg. Eider benti á að loftárásir hefðu verið gerðar tvisvar á Nasser-sjúkrahúsið í Khan Younis undanfarna tvo sólarhringa. Fjöldi barna hefði leitað skjóls í sjúkrahúsinu eftir að hafa særst og hann sagðist hafa hitt fjölda ungra barna sem hefðu misst útlimi í sprengingunum. Umfang vandans væri slíkt að nú væru meira en 130 þúsund börn undir tveggja ára aldri sem fengju ekki viðhlítandi aðhlynningu og hann væri „öskureiður“ yfir að heimurinn léti þetta viðgangast.
Eitt af fáum sjúkrahúsum í Gasaborg sem enn voru starfandi, al-Ahli-sjúkrahúsið, varð að stöðva starfsemina í gær eftir að Ísraelsher réðst á það að sögn forstöðumanns sjúkrahússins. Elder segir að aðeins átta sjúkrahús séu nú að hluta til starfhæf af þeim 36 sem eru á Gasasvæðinu.