Það er napur morgunn í Danaveldi þegar blaðamaður leggur leið sína frá Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn og í norður, um 40 kílómetra leið, til bæjarins Humlebæk sem stendur á austurströnd Sjálands og er því aðeins steinsnar frá Svíþjóð, nágrannanum í austri. Aðeins Eyrarsundið skilur á milli.
Erindið er ærið. í Humlebæk eru höfuðstöðvar risafyrirtækisins Coloplast sem í ágúst síðastliðnum festi kaup á ísfirska lækningavörufyrirtækinu Kerecis fyrir 1,2 milljarða dollara. Og þennan ágæta morgun eru þeir báðir staddir á svæðinu, Kristian Villumsen, forstjóri danska risans, og Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis. Það er forvitnilegt að ná þeim saman á spjall um kaupin og framtíðaráform fyrirtækjanna tveggja.
Uppfinning úr plasti
Við setjumst niður upp úr hádegi, milli funda. Ég bið Kristian að útskýra fyrir mér hvers konar fyrirtæki Coloplast sé.
„Coloplast er 65 ára gamalt fyrirtæki og það var stofnað af verkfræðingi, Aage Louis-Hansen, en sonur hans er varaformaður stjórnar fyrirtækisins í dag. Hann byggði nýja framleiðslu á hugmynd hjúkrunarfræðingsins Elise Sörensen sem leitaði leiða til að hjálpa systur sinni eftir ristilnám. Það var fyrsti stómapokinn og þetta var upphafið að fyrirtækinu en Aage hafði aflað sér reynslu í plastframleiðslu og það kom sér einnig vel að kona hans, Johanne Louis-Hansen, var hjúkrunarfræðingur,“ útskýrir Kristian.
Guðmundur bætir við og setur upphaf fyrirtækisins í samhengi við sögu sem við þekkjum frá Íslandi.
„Þegar þessi tækni verður að veruleika, stómapoki úr plasti og tæknin við að halda honum við líkamann, þá var þetta bylting. Fólk átti fram að þessu í miklum erfiðleikum. Það notaðist við eins konar segldúk við að reyna að grípa meltingarvökvann og það þurfti að reyra þetta um mitti fólks, þetta lak og því fylgdu mjög skert lífsgæði. Þannig breytti þessi tækni heiminum fyrir fólk sem þarf að notast við stóma. Það má að mörgu leyti líkja þessu við uppfinningu Össurar Kristinssonar á sílíkonhulsunni sem breytti lífi þeirra sem misst hafa neðan af fæti. Áður en sú tækni komi til sögunnar þurfti fólk mikinn og þungan búnað, belti, axlabönd og annað til þess að halda gervifæti við líkamann. Þetta virkar margt eins og ótrúlega einföld tækni en hún er það ekki fyrr en hún er uppgötvuð og þróuð áfram.“
Mikil þróun
Kristian heldur áfram að rekja söguna:
„Fyrstu þrjá áratugina eða svo hélt fyrirtækið áfram sem framleiðslufyrirtæki sem seldi vörur sínar í gegnum dreifingaraðila vítt og breitt um heiminn. Snemma á 9. áratugnum var fyrirtækið skráð í kauphöll hér í Danmörku og með henni aflaði fyrirtækið fjármuna til þess að færa sig inn á ný svið sem fólust fyrst og síðast í að auka þjónustustig við fólk sem nýtti vörur þess. Þannig tók fyrirtækið að vinna náið og beint með umönnunaraðilum og læknum, lagði áherslu á uppfræðslu og annað í þeim dúr. Þannig byggði fyrirtækið upp þjónustustöðvar víða um heim,“ útskýrir Kristian.
Til að setja stærð Coloplast í samhengi fyrir íslenska lesendur þá starfa um 14.500 manns hjá því í öllum byggðum heimsálfum og markaðsvirði þess nemur um 24,5 milljörðum dollara, jafnvirði um 3.400 milljarða króna. Til að setja það í samhengi við íslenskan veruleika þá er virði Coloplast um áttfalt virði Alvotech sem er langsamlega verðmætasta fyrirtækið í Kauphöll Íslands.
„Ég kom til fyrirtækisins árið 2008 og á árunum 2009 og 2010 tókum við þá ákvörðun að byrja að þjónusta viðskiptavini okkar beint, það er fólkið sem notar vörurnar okkar. Við höfum fjárfest gríðarlega í þessu og það sem tryggir sérstöðu okkar á markaðnum er að við erum leiðandi í þróunarstarfi, nýtum tækni og leggjum áherslu á klínísk gæði vörunnar og í bland við þetta ræktum við tengslin við þá sem veita sérfræðiþjónustu tengda vörum okkar og sinnum viðskiptavinum okkar, notendunum sjálfum, beint.“
Kristian bendir á að þetta viðskiptalíkan hafi ekki beina þýðingu fyrir allar þær rekstrareiningar sem fyrirtækið heldur úti. En að þetta eigi við í þeim tilvikum þar sem þjónustan beinist að fólki ævilangt. Þar er um að ræða eintaklinga sem nota vörur fyrirtækisins yfir langt tímabil, oftast ævina á enda. Gjarnan eru það viðskiptavinir sem gengist hafa undir skurðaðgerðir vegna ýmiss konar krabbameins og líffæri verið fjarlægð af þeim sökum.
Vantaði langtímaþjónustu
„Við komumst að því að heilbrigðiskerfin í heiminum eru ekki sérstaklega góð í að sinna fólki sem þarf á langtímaþjónustu að halda. Fólk þarf meiri aðstoð en oft er viðurkennt þegar það útskrifast af sjúkrahúsum og fólk rekur sig á ýmsa veggi og vantar svör við því hvernig lífinu muni vinda fram. Er hægt að ferðast þrátt fyrir hinar breyttu aðstæður? Er hægt að stunda íþróttir, útivist eða aðrar tómstundir? Það vakna mjög margar mikilvægar spurningar sem Coloplast getur veitt svör við og gert fólki lífið bærilegra,“ segir Kristian.
Fyrirtækið starfar í dag á mörgum sviðum, og voru sjálfstæðar rekstrareiningar þess fimm talsins, uns Kerecis bættist við sem sjálfstæð eining. Þrjár þeirra starfa á sviði langtímasjúkdóma sem fylgja sjúklingum ævina á enda og þessi svið standa undir 70% af tekjum Coloplast. Meðal annarra rekstrareiningar er sú sem framleiðir og þróar sáraumbúðir, en fyrirtækið haslaði sér völl á þeim markaði fyrir um þremur áratugum. Þar hefur meðal annars nýst tækni og þróun sem tengist stómapokunum og efnunum sem notuð eru til þess að festa þá með viðeigandi hætti á líkama fólks.
En Kristian viðurkennir að þótt Coloplast sé leiðandi á heimsvísu á flestum sviðum, þá hafi keppinautum tekist að halda forystu í sárameðferðunum. Og þar kemur að kaupunum á Kerecis sem tilkynnt var um í ágúst.
Forystusætið í skotlínu
„Við erum sannfærð um að með kaupunum á Kerecis séum við að koma Coloplast í forystusætið á þessu sviði eins og hinum. Það er ekki lítill áfangi en áherslan og tækifærin sem við sjáum birtist í því að við ráðumst í þessi stóru kaup. Það segir kannski sína sögu að þetta er í fyrsta sinn sem við förum í hlutafjárútboð vegna yfirtöku á fyrirtæki.“
Guðmundur Fertram bætir svo við: „Minn draumur er sá að í höndum Coloplast getum við skrifað sömu sögu með sáraroðinu frá Ísafirði og Coloplast hefur gert með stómapokunum og Össur hf. með sílíkonhulsuna. Við viljum að þessi tækni nái til allrar heimsbyggðarinnar og verði staðallinn sem aðrir miða sig við þegar kemur að meðhöndlun stórra og þrálátra sára.“
Kristian útskýrir reyndar að Coloplast hafi ekki verið þekkt fyrir að drífa vöxt sinn áfram með kaupum og yfirtökum á öðrum fyrirtækjum. Raunar sé fjöldi þeirra teljandi á fingrum beggja handa. Hins vegar eru kaupin á Kerecis ekki þau stærstu í sögunni. Stærri kaup áttu sér stað árið 2021 þegar Coloplast keypti sænska lækningatæknifyrirtækið Atos Medical sem sérhæft hefur sig í flóknum búnaði til þjónustu við fólk sem orðið hefur fyrir því óláni að missa barkakýli í kjölfar skurðaðgerðar.
„Við viljum vera algjörlega viss í okkar sök þegar við tökum skref af þessu tagi og við vorum búin að skoða óteljandi fjölda fyrirtækja þegar kom að því að fjárfesta í Kerecis,“ útskýrir Kristian.
Fundurinn gerði útslagið
Ég fæ hann því til að útskýra hvað gerði útslagið.
„Við áttum fund með Fertram hér í höfuðstöðvunum,“ segir hann og bendir í átt að glervegg sem skilur skrifstofu hans frá gangveginum. „Það var bara í fundarherberginu hérna við hliðina á okkur. Og þarna fór hann yfir það hvað þetta fyrirtæki gengur út á. Bæði voru það rannsóknarniðurstöður og reynslan af vörunum sem vöktu athygli mína, en ekki síður sú sýn sem hann hafði á viðfangsefnið. Þarna var komið fyrirtæki með vöru sem hafði yfirburði á samkeppnina og hugsunin var að beita henni með áhrifaríkum hætti á markaðinn þannig að það myndi breyta lífi fólks.“
Eins og oft vill verða þegar menn ná saman, þá teygjast fundirnir út yfir hinn formlega fundartíma. Þegar leið fram að kvöldi hélt hópurinn heim til Kristians sem býr í um 20 mínútna akstursfjarlægð frá skrifstofum fyrirtækisins.
„Við fengum okkur sushi og kampavín og ræddum þessa hluti áfram. Ég sannfærðist um þetta og lagði fyrir stjórnina að leggja upp í þessa vegferð. Það var ekki einfalt mál enda fer þessi hópur mjög varlega í sakirnar.“
Í baksýnisspeglinum virðist þetta hafa verið beinn og breiður vegur, rétt eins og uppbygging Kerecis. En þá sögu höfum við áður rakið í ítarlegu viðtali við Guðmund Fertram og Fanneyju Hermannsdóttur konu hans sem birtist í Sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins 5. ágúst síðastliðinn.
„Ég var fyrir löngu búinn að lofa mér því að ég myndi aldrei fjárfesta í þeim hluta lækningavörugeirans sem byggist á efnum með lífræna virkni. Það er bæði flókinn markaður og afar vandasamur og ekki hluti af viðfangsefnum Coloplast til þessa,“ útskýrir Kristian. „En þarna var einfaldlega komin tækni sem var ekki hægt að horfa fram hjá.“
Lego kom að málum
Guðmundur Fertram segir að samskiptin við Coloplast hafi verið ánægjuleg frá upphafi. Kerecis hafi verið á höttunum eftir auknu fjármagni til þess að efla starfsemi sína, ekki síst sölustarf í Bandaríkjunum. Fyrri fjármögnunarlotur hafi gengið vel og þar hafi ekki síst skipt máli að fá sjóð á vegum Laurence Powell Jobs inn í hluthafahópinn og síðar sjóð í eigu Kirkby-fjölskyldunnar sem oftast er kennd við Lego.
„Við höfðum ætlað að skrá fyrirtækið á markað með öflugum samruna í Bandaríkjunum. Við höfðum verið að vinna að þessu í árslok 2022. En þá versnaði ástandið á mörkuðum til muna, ekki síst í okkar geira. Við ákváðum því að slá þessu á frest. En fyrirtækið var farið að skila hagnaði og við vorum því ekki í vanda stödd. HIns vegar vissum við að ef við ætluðum að vaxa hratt og ná útbreiðslu um heim allan þyrftum við að stóla á utanaðkomandi krafta en ekki aðeins á innri vöxt fyrirtækisins. Þegar bréfið frá Coloplast kom sáum við þess vegna stórt og spennandi tækifæri fyrir framan okkur,“ útskýrir Fertram.
En það var annar styrkleiki sem Kerecis bjó yfir sem einnig freistaði Coloplast. Kerecis hefur náð gríðarlegum árangri á Bandaríkjamarkaði á tiltölulega skömmum tíma, en það er ekki einn af sterkustu mörkuðum danska risans. Þannig er sölu- og dreifinet Kerecis nokkuð sem Coloplast mun geta hagnýtt sér, á meðan víðtækt sölunet þess um allar aðrar álfur mun gera Kerecis kleift að koma vörum sínum mun hraðar á framfæri en áður hefði verið mögulegt.
Margföldunarmöguleikar
„Við sjáum gríðarlega möguleika í þessari tækni og vörunum frá Kerecis. Það segir sína sögu að salan er í kringum 100 milljónir dollara í dag en við höldum að þetta séu umsvif sem verði metin í milljörðum dollara,“ segir Kristian.
Fertram bætir því við að varan hafi sannað sig. Klínískar rannsóknir sýni að hún virkar betur en þær lausnir sem keppinautarnir hafa upp á að bjóða.
En þá vík ég talinu að verðlagningu vörunnar. Vitað er að fiskroðið að vestan er í hópi dýrari lækningavara og ljóst að það verður ekki á færi allra markaða að tryggja aðgengi að því. Kristian segir að það sé rétt ályktað en ýmsar leiðir megi fara til þess að auka útbreiðslu vörunnar, m.a. með því að bjóða upp á ódýrari eða einfaldari lausnir í ákveðnum tilvikum.
Margir Íslendingar hafa spurt hver örlög starfseminnar á Ísafirði verða, nú þegar fyrirtækið er komið í danska eigu. Bæði Kristian og Fertram hafa skýra sýn á það hvaða stefna verður tekin.
Kerecis er íslenskt og ísfirskt
„Ég lít á Kerecis sem íslenskt og ísfirskt fyrirtæki. Það er hluti af danskri samsteypu sem samanstendur af dönsku, sænsku og íslensku fyrirtæki. Þar skipta arfleifðin og frásögnin miklu máli. Hreinleikinn og sagan eru mikilvægur þáttur í því hvernig við kynnum vöruna og komum henni á markað. Þess vegna tel ég víst að framleiðslan verði áfram á Ísafirði eins og verið hefur,“ segir Kristian.
Fertram bætir því við að Kerecis, rétt eins og Coloplast, sé fyrirtæki sem horfi til þess að lágmarka kostnað af starfsemi sinni. Það geri vel rekin fyrirtæki. Hins vegar sé framleiðslukostnaðurinn sem slíkur lítill hluti af heildarkostnaði Kerecis og það einfaldi málið talsvert. Þorskroðið sem notað er til framleiðslunnar sé í hæsta gæðaflokki og komi úr hreinasta hafsvæði í heimi. Það skipti miklu máli fyrir vöruna og fyrirtækið og hann segist mjög efins um að vörur fyrirtækisins hefðu fengið viðurkenningu lyfjayfirvalda í Bandaríkjunum, svo dæmi sé tekið, ef fiskurinn hefði veiðst á miðum sunnar í Atlantshafinu.
Það leynir sér ekki að það fer vel á með Kristian og Fertram, rétt eins og blaðamaður varð vitni að þegar hann hitti samstarfsmennina tvo á Arctic Circle í Hörpu fyrr í haust. En mér leikur forvitni á að vita hvernig samstarfið hefur gengið síðustu mánuði, eða frá því að Kerecis varð hluti af starfsemi Coloplast. Með kurteislegri bendingu felur Fertram Dananum að ríða á vaðið.
Húmor skiptir máli
„Samstarfið hefur gengið frábærlega. Við höfum náð mjög vel saman í þessu verkefni og þar hjálpar auðvitað mikið að við höfum sömu sýn á það hvert við viljum taka félagið. En það finnst mér ekki skipta minna máli að Fertram hefur góðan húmor. Það verður seint vanmetið.“
Ég beini því næst sömu spurningu til uppfinningamannsins og hann tekur í sama streng.
„Þetta samstarf er gott og við ætlum í sameiningu að breyta heiminum.“
Svo mörg voru þau orð.