Sigalda Áformað er að bæta einni vél við virkjunina og auka afl um 65 MW.
Sigalda Áformað er að bæta einni vél við virkjunina og auka afl um 65 MW. — Ljósmynd/Landsvirkjun
Niðurstaða Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar varðandi stækkun Sigölduvirkjunar er sú að skýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar sem kunngjört var á mánudag

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Niðurstaða Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar varðandi stækkun Sigölduvirkjunar er sú að skýrslan uppfylli skilyrði laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þetta kemur fram í áliti stofnunarinnar sem kunngjört var á mánudag. Því er ekki amast við stækkunaráformunum.

Stækkun Sigölduvirkjunar á að skila 65 megavöttum og er undanþegin ákvæðum rammaáætlunar skv. niðurstöðu Orkustofnunar frá því sl. sumar. Eftir stækkun yrði uppsett afl virkjunarinnar 215 megavött. Með stækkuninni verður fjórðu vélinni bætt við í inntaksmannvirki Sigöldustöðvar.

Fram kemur hjá Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé innan iðnaðarlóðar og að ráð hafi verið gert fyrir stækkuninni þegar virkjunin var byggð á 8. áratug sl. aldar. Ásamt því að auka afl virkjunarinnar sé tilgangurinn með stækkuninni að auka skveigjanleika í orkuafhendingu og mæta afltoppum þegar eftirspurn eftir raforku er í hámarki.

Enda þótt virkjunin verði stækkuð um framangreint er ekki gert ráð fyrir að meira vatn fari um hana, heldur verði meira vatn nýtt í skemmri tíma sem um leið auki sveiflur í rennsli um virkjunina. Breytingarnar sem stækkuninni fylgja eru tímabundinn rennslishraði vatns um uppistöðulón og veituskurð ásamt stækkun stöðvarhúss, en aðrar breytingar séu óverulegar. Áhrif af manngerðu umhverfi verði óveruleg, enda stöðvarhúsið ofan í dæld í landinu.

Meðal verklegra framkvæmda sem ráðist verður í eru stækkun stöðvarhússins, fjórðu þrýstipípunni bætt við ásamt rist og viðgerðarloka.

Þótt áhrif á jarðmyndanir verði nokkuð neikvæð þar sem um varanlega eyðingu jarðefna verði að ræða, þá njóti þær ekki sérstakrar verndar og þeim hafi þegar verið raskað á téðu svæði.

Bent er á að fá þurfi ýmis leyfi fyrir framkvæmdinni, þ.e. virkjunarleyfi frá Orkustofnun, framkvæmda- og byggingaleyfi frá Ásahreppi, starfsleyfi frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, leyfi frá Minjastofnun ef hrófla þarf við fornleifum og leyfi frá Fiskistofu og forsætisráðuneyti.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson