Þjóðin stendur sameinuð með Grindvíkingum

Þrátt fyrir að velflestir hafi búist við nýju eldgosi á Reykjanesskaga um allnokkurt skeið kom hið nýja eldgos flestum að óvörum. Nema kannski háðfuglinum Dóra DNA, sem liðinn föstudag spáði fyrir um það af nokkurri nákvæmni í þættinum Spursmálum á mbl.is, þvert á það sem ýmsir hálærðir eldfjallafræðingar höfðu talið líklegast.

Lærdómurinn sem draga má af því er fyrst og fremst sá, að ógerningur er að segja fyrir um hvar og hvenær náttúruöflin brjótast næst fram og að allur sé varinn góður.

Liðlega fimm vikur eru liðnar síðan Grindavík var rýmd eftir linnulitlar jarðhræringar, sem bentu til þess að eldgos væri yfirvofandi, jafnvel beint undir bænum. Grindvíkingum var óljúft að fara, en þeir skildu hættuna og skildu líka að þetta var ekki léttvæg ákvörðun fyrir Almannavarnir.

Það hefur líka reynt mikið á Grindvíkinga að þurfa að yfirgefa heimili sín og heimabyggð, samfélag og atvinnulíf í uppnámi, en allt á huldu um hvenær eða jafnvel hvort fólk getur snúið aftur heim og lífið komist í fastar skorður á ný.

Mörgum þótti biðin löng og síðustu daga voru ýmsir farnir að láta í sér heyra um að tímabært væri að snúa heim til Grindavíkur, þótt jörð skylfi enn. Í jarðsögulegum skilningi var þetta þó ekki löng bið, en gosið nú braust fram á þeim stað, sem fyrir 40 dögum þótti sennilegastur.

Í því samhengi er líka hollt að rifja upp að þessi skjálftavirkni teygir sig lengra aftur en 40 daga, því það eru meira en 46 mánuðir liðnir síðan jarðhræringarnar hófust þar suður frá, bráðum fjögur ár. Það er líka stuttur tími í jarðsögunni.

Þá er hins vegar rétt að minnast þess að jarðfræðingar telja að hafið sé nýtt skeið Reykjaneselda. Í hinu síðasta stóð það yfir í þrjár aldir með einhverjum hléum en síðasta goshrina þess stóð yfir í 30 ár.

Engu er hægt að slá föstu um hvort okkar bíði slíkt tímabil nú, en það er vel mögulegt og það rennur upp fyrr eða síðar. Hvernig sem það fer þarf þolinmæðin að duga lengur en 40 daga.

Gosið nú hófst af miklum krafti og hraunstraumurinn ógnarmikill. Gossprungan hefði getað opnast á verri stöðum með tilliti til mannvirkja í Svartsengi og Bláa lóninu, en ef hraunið vellur áfram af sama móði gæti hæglega reynt á varnargarðana umhverfis þau.

En svo er ekki ómögulegt að sprungan stækki skyndilega eða að gos verði annars staðar. Í nýju hættumati frá Veðurstofu Íslands segir að hætta hafi aukist umtalsvert á öllum fyrri hættusvæðum við og fyrir ofan Grindavík. Í sjálfum bænum er svo talin aukin hætta á gosopnun án fyrirvara.

Sú ógn gæti vart verið meiri, en jafnvel þó svo bærinn sleppi í þessari hrinu, þá mun önnur koma. Við höfum lært að búa í návígi við óblíð, jafnvel skelfileg náttúruöfl. Stundum hafa höggin verið óbærileg, en okkur hefur líka orðið ágengt við að verjast þeim og jafnvel afstýra.

Þessar náttúruhamfarir hafa valdið því að Grindavík stendur auð, en líkt og í Vestmannaeyjum fyrir 50 árum lifa allir. Eftir sem áður er það áfall fyrir Grindvíkinga, hvern og einn, en einnig alla Íslendinga, að eitt af stærri byggðarlögum Íslands, einn öflugasti útgerðarbær landsins, sé úr leik.

Öll vonum við að úr rætist og Grindvíkingar geti snúið aftur til síns heima, en um það má hvorki hafa óþolinmæði né óraunsæi. Enginn getur sagt fyrir um þá framvindu, nema það að hún mun engum reynast auðveld.

Frammi fyrir þeim vanda stendur þjóðin sameinuð með Grindvíkingum og þannig mun hún sigrast á þeim vanda, vinna upp það sem tapast hefur og tapast kann vegna Reykjaneselda, þar sem annars staðar suður með sjó. Þar mun enginn Íslendingur telja eftir sér að leggja sitt af mörkum.

Þannig þarf það líka að gerast fyrir tilstuðlan ríkisheildarinnar, sem kalla má sameiginlegt tryggingafélag allra Íslendinga, en ekki með því að láta banka eða lífeyrissjóði borga brúsann. Það skiptir máli að gera þetta rétt og gera það vel, án þess að láta af höfðingsskap einhvern annan bera kostnaðinn.