Dahejia Björgunarsveitarmenn leita að fólki í húsarústum í þorpinu Dahejia í norðurvesturhluta Kína í gær.
Dahejia Björgunarsveitarmenn leita að fólki í húsarústum í þorpinu Dahejia í norðurvesturhluta Kína í gær. — AFP
Gríðarlega öflugur jarðskjálfti reið yfir Gansu-hérað í norðvesturhluta Kína rétt fyrir miðnætti aðfaranótt þriðjudags að staðartíma, um fjögurleytið á mánudaginn að íslenskum tíma. Skjálftinn var 6,2 að stærð og tala látinna er nú 127 og fjöldi særðra er meira en 700 og gæti aukist

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Gríðarlega öflugur jarðskjálfti reið yfir Gansu-hérað í norðvesturhluta Kína rétt fyrir miðnætti aðfaranótt þriðjudags að staðartíma, um fjögurleytið á mánudaginn að íslenskum tíma. Skjálftinn var 6,2 að stærð og tala látinna er nú 127 og fjöldi særðra er meira en 700 og gæti aukist. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisfjölmiðlum í Kína skemmdust yfir 155 þúsund byggingar í skjálftanum. Blaðamenn AFP-fréttaveitunnar sáu stórar sprungur í útveggjum húsa og byggingar sem voru rústir einar.

Mjög erfiðar aðstæður eru til björgunarstarfsins á skjálftasvæðinu vegna mikils kulda. „Brýnasta verkefnið fyrir okkur er að vinna eins hratt og mögulegt er þar sem frostið verður komið í -17 gráður á Celsíus í kvöld,“ sagði sjálfboðaliði við AFP-fréttastofuna í gær.

Stærsti jarðskjálfti frá 2014

„Ég er 70 ára og hef aldrei upplifað jafn öflugan skjálfta á ævinni,“ sagði Ma Wenchang, íbúi í Haidong-borg í Qinghai-héraði sem liggur að Gansu-héraði, við AFP-fréttastofuna. „Ég get ekki búið í þessu húsi lengur því það er of hættulegt. Ættingjar mínir hafa verið fluttir annað.“

Xi Jinping forseti Kína hefur fyrirskipað þúsundum björgunarsveitarmanna að sinna björgunarstörfum á svæðinu, sem er eitt fátækasta hérað Kína. Fréttamenn AFP sáu fjölda flutningabíla á vegunum sem voru þaktir rauðum borðum með áletruninni „aðstoð vegna jarðskjálfta“.

Eyðileggingin vegna jarðskjálftans er gífurleg og mörg þorp hafa nánast jafnast við jörðu og segja kínversk stjórnvöld að umfangið sé enn meira vegna gamalla og lélegra bygginga, sem margar eru úr leir.

Jarðskjálftinn er sá mannskæðasti í landinu frá árinu 2014 þegar yfir 600 manns fórust í skjálfta í suðvesturhluta Yunnan-héraðs. Í september 2022 varð skjálfti af stærðinni 6,6 í Sichuan-héraði og létust þar tæplega 100 manns. Árið 2010 varð skjálfti af stærðinni 6,9 í Qinghai og um 3.000 manns létu lífið.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir