[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur lagt til að Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs verði skipuð nýr sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, en sendiráðið hefur aðsetur í Washington DC

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hefur lagt til að Svanhildur Hólm Valsdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs verði skipuð nýr sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, en sendiráðið hefur aðsetur í Washington DC. Þetta staðfesti Svanhildur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Fyrrverandi aðstoðarmaður

Svanhildur hefur starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands í um þrjú ár, en þar á undan var hún aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar ásamt því að starfa í forsætisráðuneytinu á árunum 2013-2020.

Svanhildur er menntaður lögfræðingur og hefur einnig lokið MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði sem fjölmiðlakona um árabil og vann meðal annars sem umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Kastljóss og Íslands í dag á sínum tima.

Tillaga Bjarna um að Svanhildur taki við embætti sendiherra Íslands í Bandaríkjunum er á meðal fyrstu verka hans í embætti utanríkisráðherra, en hann tók við embættinu um miðjan október þegar þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir höfðu stólaskipti. Þótt tillaga Bjarna um skipun Svanhildar hafi verið sett fram eiga Bandaríkin enn eftir að fallast á hana. Að sögn Svanhildar er um tímabundna skipun að ræða samkvæmt breytingu á lögum um utanríkisþjónustu sem gerð var árið 2020. Hún segir skipunina vera að hámarki til fimm ára og ekki fela í sér möguleika á framlengingu.

Fái tilnefning utanríkisráðherra samþykki í Bandaríkjunum tekur Svanhildur við embætti sendiherra af Bergdísi Ellertsdóttur, sem gegnt hefur starfinu frá 2019 þegar Geir Haarde fyrrverandi forsætisráðherra lét af störfum.