Því fylgir þó ótrúlegt frelsi að upplifa viku þar sem við getum varið tímanum í að rifja upp hvað gerðist á árinu og velt því næsta fyrir okkur.

Samfélag

Steinar Þór Ólafsson

Samskiptasérfræðingur

Árið er búið. Ókei, kannski ekki alveg búið. Það er aðeins næsta vika eftir og sú vika fellur hvert einasta ár á milli skips og bryggju. Vikan þar sem þú ert annaðhvort búinn að ná markmiðum ársins eða það er orðið of seint að ætla að reyna að bjarga þeim. Stofnanir á fjárlögum hins opinbera nenna ekki einu sinni að hafa opið þessa daga og gefa starfsfólki sínu frí. Skólarnir eru jafnframt lokaðir því það tekur því ekki að reyna að læra eitthvað nýtt úr þessu á árinu. Erlendu ríkisborgararnir sem bjarga vinnuaflsþörf hagvaxtarins halda flestir til síns heima þessa vikuna svo mörg fyrirtæki eru betur sett með því að loka en að reyna að keyra á íslensku varaafli.

Í raun gerist aðeins tvennt í þessari viku: Við gerum upp árið sem er að líða og spáum um það næsta. Hver annállinn á fætur öðrum er gefinn út af fréttamiðlum stórum sem smáum og allskonar uppgjör á sér stað um árið sem er að líða. Maður ársins, viðskiptamaður ársins, íþróttamaður ársins bæði hjá þjóðinni en líka bara hjá sveitarfélaginu Vogum. Nýjasta viðbótin eru svo annálar sem tæknirisarnir taka saman. Foreldrar leikskólabarna fá þannig nákvæma tölfræði um það hve oft þau hafa sætt sig við að hlusta á Cha cha cha með Käärijä á Spotify. Á íþróttasamfélagsmiðlinum Strava geta líka hreyfifíklar séð hve langt og lengi þau hafa hlaupið eða hjólað frá vandamálum sínum þetta árið og svona mætti lengi áfram telja.

Google segir okkur að sú uppskrift sem mest var leitað að í heiminum á árinu var hvernig eigi að elda Bibmbap, sem ég hef reyndar aldrei heyrt um. Hvað þá réttina Espeto og Papeda sem raða sér í sætin þar beint á eftir. Í fjórða sæti er svo „Scooped Bagel“ eða það þegar fólk pillar allt brauðið innan úr beyglunni og borðar því beygluskorpu með áleggi. Svona er heimurinn skrítinn.

Á hinn bóginn er þetta líka tíminn þar sem spáð er fyrir um hvað gerist á því næsta. Okkur finnst broslegt að lesa hvað Völvan spáir að gerist á næsta ári en það er hins vegar gefið út í lok hvers árs ótrúlegt magn af mjög spesifískum „völvum“ um alla anga samfélagsins. Árlega ganga á milli okkar sem störfum í stragetískum markaðsmálum brot af þessum skýrslur með spádómum næsta árs. Í ár fékk ég sendar 157 skýrslur sem saman telja um 4.000 blaðsíður. Spár um súkkulaði, alla mögulega samfélagsmiðla, tryggingar, ferðalög Z-kynslóðarinnar og kokteila svo dæmi séu tekin. Meira að segja McKinsey gefur út spá um hvað gerist í heimi tískunnar á næsta ári og nei hún minnist ekkert á að smart casual-peysa karlmanna í lögmennsku og fjármálakerfinu verði áfram 1/3 rennd peysa úr merínóull. Sumar þessar skýrslur eru svo ekki frábrugðnar blessuðum ársskýrslunum að því leyti að oft er meira púður lagt í að þær séu fallegar en að innihaldið sé gott eða þær þjóni einhverjum tilgangi. Ljótasta skýrslan þetta árið er sennilega frá Bank of America um þróun stafrænnar miðlunar 2024. Ég tek þó eiginlega mest mark á henni af þeim öllum. Það er öfug sálfræði í ljótleikanum. Skýrsla þar sem sjálfsöryggið er svo mikið að þú keyrir hana bara beint úr Word og sendir til heimsbyggðarinnar undirritaða með nafni og símanúmeri tveggja greinenda hjá bankanum hlýtur að vera byggð á svo góðum gögnum að hún geti ekki annað en ræst. Í henni er því meðal annars spáð að aukning verði í daglegri notkun snjallsíma á næsta ári um 5 mínútur. Í tilviki margra þá úr eitthvað um 5 klukkustundum og 17 mínútum á dag í 5 klukkustundir og 22 mínútur. Einmitt það sem við þurftum.

Því fylgir þó ótrúlegt frelsi að upplifa viku þar sem við getum varið tímanum í að rifja upp hvað gerðist á árinu og velt því næsta fyrir okkur. Okkur tekst sem samfélagi einhvern veginn að gaslýsa okkur að þessi vika tilheyri engu ári. Getum gefist upp fyrir því sem gerast átti á þessu ári með góðri samvisku en líka öll sammála um að of snemmt sé að byrja á einhverju sem best væri að gera á því næsta. Ástæða þess að jólavikan er sú hátíð sem við flest njótum best. Þessi vika nefnilega telur ekki. Árið er búið og það nýja ekki byrjað.