Jóhann Gunnarsson fæddist í Keflavík 15. apríl 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 10. desember 2023. Foreldrar hans voru Gunnar Jóhannsson, f. 18. ágúst 1920, d. 31. júlí 2005, og Valgerður Baldvinsdóttir, f. 17. október 1920, d. 28. janúar. 1991. Systkini Jóhanns eru: Hildur, f. 22. mars 1945, d. 7. maí 2020, Guðmundur Jónsson, f. 16. júní 1950, Baldvin Rúnar, f. 6. febrúar 1957, d. 26. febrúar 1960, Guðrún Bríet, f. 23. febrúar 1961, Kolbrún, f. 11. apríl 1962, og Hrefna, f. 11. apríl 1962.

Hinn 2. maí 1970 giftist Jóhann eiginkonu sinni Önnu Maríu Aðalsteinsdóttur leikskólakennara, f. 3. maí 1950, d. 14. mars 2016. Foreldrar hennar voru Aðalsteinn H. Vígmundsson, f. 17. mars 1920, d. 16. júní 1997, og Beta Guðjónsdóttir, f. 11. september 1920, d. 5. apríl 1965.

Börn Önnu Maríu og Jóhanns eru: 1) Aðalsteinn vélfræðingur, f. 15. janúar 1971, eiginkona Harpa Sif Jóhannsdóttir, f. 26. febrúar 1971. Börn þeirra eru Jóhann Karl, Gunnar Árni og Anna María. 2) Gerður Beta hjúkrunarfræðingur, f. 18. febrúar 1976, eiginmaður Arnar
Þór Sævarsson, f. 16. nóvember 1971. Börn þeirra eru Arnar Freyr, Ásrún Inga og Eyrún Anna.

Jóhann sleit barnsskónum í Keflavík og eftir gagnfræðapróf þaðan hóf hann nám í Vélskóla Íslands og lauk þar námi 1970. Að smiðjutíma loknum hjá Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar á Nýlendugötu fór hann sem vélstjóri á Hrafn Sveinbjarnarson áður en leiðin lá í Heklu hf. 1974. Þar byrjaði hann í viðgerðum á Caterpillar-bátum og -vinnuvélum innan- sem utanlands á vegum fyrirtækisins. Síðar varð Jóhann verkstjóri á vélaverkstæðinu þar sem hann var m.a. meistari margra sveina í vélvirkjun sem tóku smiðjutíma sinn hjá Heklu hf. Jóhann starfaði alla sína starfsævi hjá Caterpillar-umboðinu á Íslandi, fyrst hjá Heklu hf. og síðar Kletti og var frá árinu 2016 tæknifulltrúi á tæknisviði Kletts sem sá um úrlausn tæknimála, tilboðs- og reikningagerð ásamt úrvinnslu ábyrgðarmála. Hann vann síðustu árin í 50 prósent starfshlutfalli og það var ekki fyrr en árið 2021 sem hann ákvað að hætta að vinna, þá 72 ára gamall og eftir 47 farsæl og skemmtileg ár hjá Caterpillar- og Scania-umboðunum á Íslandi.

Útför Jóhanns fer fram frá Árbæjarkirkju í dag, 20. desember 2023, klukkan 15.

Nú er pabbi haldinn á vit ævintýranna í Sumarlandinu, ég veit að vel er tekið á móti honum en við sem sitjum eftir með hjörtu okkar full af söknuði og sorg getum yljað okkur við minningar um einstakan mann.

Pabbi ólst upp í Keflavík en á sumrin var hann í sveit á Iðu í Biskupstungum. Ættingjar hans eru mikið handverksfólk og erfði hann þá hæfileika, það lék allt í höndunum á honum. Alveg sama hvað þurfti að laga, hvað okkur langaði að láta smíða hvort sem það var lítill hlutur eða hús. Pabbi hugsaði málið í smá stund, teiknaði upp, fór síðan af stað í rólegheitunum og áður en maður vissi af var verkefninu lokið. Hlutirnir sem hann hefur skapað og smíðað eru óteljandi og allir gerðir af miklum hagleik og vandvirkni.

Pabbi og mamma byggðu upp sumarbústað í Fljótshlíðinni sem er orðinn mikill sælureitur. Þar byggðu þau upp hægt og rólega, húsnæðið stækkaði með hverjum fjölskyldumeðlim. Það var svo magnað að horfa á pabba vinna, það var allt vel undirbúið, mikil nákvæmni og vandvirkni viðhöfð. Alltaf kaffipásur og hádegismatur á réttum tíma og síðan var haldið áfram, aldrei asi en það gekk hratt undan honum. Það var ótrúlegt hvað hann áorkaði miklu.

Hann naut þess að vera alltaf með verkefni í höndunum og framkvæma. Þegar við bjuggum á Blönduósi og von var á mömmu og pabba í heimsókn hringdi mamma og tryggði hvort við værum ekki örugglega með einhver verkefni fyrir pabba til að dunda sér við. Þegar listinn var búinn voru stelpurnar iðulega kallaðar til, bátar, fuglahús og margt fleira smíðað undir handleiðslu pabba. Fjölskyldan var pabba allt, hann naut svo sannarlega samvista við barnabörnin sín, hafði einlægan áhuga á því sem þau voru að gera, var mikil fyrirmynd og kenndi þeim margt.

Þegar mamma féll frá fyrir sjö árum var það mikið áfall fyrir pabba þar sem hann missti sinn albesta vin og lífsförunaut. Hann tókst á við nýtt hlutverk af miklu æðruleysi og stóð áfram sem kletturinn og jarðbinding fjölskyldunnar.

Það var alltaf gott að leita ráða hjá pabba, hann var úrræðagóður, hugsaði allt af yfirvegun og komst að skynsamlegri niðurstöðu. Það sem einkenndi pabba var að allt sem hann tókst á við var með stóískri ró, alveg sama hvað var um að vera. Ég hef aldrei séð pabba skipta skapi, hann leiðbeindi okkur og leiðrétti en alltaf á yfirvegaðan hátt.

Hann tókst á við veikindi sín af yfirvegun eins og honum var einum lagið og sagði oft við mig: þetta hefur sinn gang. Það er nefnilega þannig að við höfum ekki stjórn á öllu, það hafði pabbi löngum tileinkað sér.

Litlu hlutirnir og hversdaglífið skipta okkur oft meira máli en við gerum okkur grein fyrir. Ég á eftir að sakna svo margra fasta í okkar lífi sem pabbi tók þátt í. Það verður tómlegt án hans en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að hafa átt einstakan pabba og vin sem ég treysti svo vel. Hann var ekki maður margra orða en við fundum öll skilyrðislausa ást í garð okkar allra. Megi ljós þitt ávallt skína yfir okkur. Takk fyrir allt elsku pabbi.

Gerður Beta.

Pabbi var einstakur karakter, áhugasamur, úrræðagóður, handlaginn, mentor, ávallt tilbúinn að aðstoða, hjartahlýr, húmoristi, frábær karl, tengdó, afi, langafi, eiginmaður og pabbi sem við erum svo heppin að hafa fylgt í gegnum lífið.

Hann útskrifaðist úr Vélskólanum árið 1970 og hóf síðar störf hjá Heklu hf. árið 1974, þar sem við síðan enduðum á því að vinna saman í 24 ár eftir að ég útskrifaðist úr Vélskólanum 1997.

Við höfðum þó brasað ýmislegt áður en við hófum störf saman í Heklu þar sem ég hafði keypt Willys-jeppa ári áður en ég fékk bílprófið sem ég sá fyrir mér að við pabbi myndum breyta saman í bílskúrnum í Fiskakvísl. Þegar jeppinn var kominn inn í bílskúr fékk ég hins vegar gjöf frá pabba sem var verkfærakista og Heynes-viðgerðarbók fyrir „Jeep“ sem hann fór í gegnum með mér á hundavaði og sagði svo: „Ef það er eitthvað þá spyrðu mig eftir að þú ert búinn að reyna að gera það sjálfur.“ Þetta gekk ágætlega og ef eitthvað var skýrði hann það út fyrir mér en lét mig síðan framkvæma það sjálfur. Þegar kom að mótornum, sem var úr Volvo, gekk mér eitthvað illa að finna út úr því þannig að ég fór til hans og bað um aðstoð. Daginn eftir fékk ég að gjöf Heynes-viðgerðarbók fyrir Volvo og tímbyssu og sagan hélt áfram. Á endanum komst jeppinn á götuna og ófáar Þórsmerkurferðir fór hann með mig og vini með þó nokkrum stoppum í bústaðnum í Fljótshlíð hjá mömmu og pabba þegar þurfti að laga eitthvað sem hafði bilað í þeim ferðum. Ég áttaði mig ekki á því þarna, en þetta lagði grunn að því sem ég byggði síðan enn frekar á í mínu námi og starfi seinna meir, en þegar kom að vali á meistara í Heklu ákvað ég þó að velja Óla B. heldur en pabba og fá fleiri Heynes-bækur að gjöf og finna út úr því sjálfur.

Pabbi var verkstjóri og yfirmaður minn í Heklu og við komum okkur fljótt saman um eina reglu, sem var að skilja vinnuna eftir í vinnunni og njóta samvista í bústaðnum, á ferðalögum eða á íþróttaleikjum með fjölskyldunni og tala um eitthvað allt annað en vinnuna. Ég fór síðar í tæknideild Kletts, sem var þá orðið Caterpillar-umboðið á Íslandi, og þá deildum við skrifstofu saman í nokkur ár í Klettagörðum. Þegar mamma kvaddi síðan árið 2016 og framtíðarplön þeirra breyttust ákvað pabbi að halda áfram að vinna og þá var ég orðinn þjónustustjóri og yfirmaður hans. Þetta gekk frábærlega í fimm ár til viðbótar þar sem við deildum skrifstofu áfram og sáum um úrlausn tæknimála, tilboðs- og reikningagerð auk úrvinnslu ábyrgðarmála ásamt ýmsu öðru eða allt þar til hann ákvað að hætta að vinna þá 72 ára að aldri. Þessi tími sem við nutum í og utan vinnu var gjöf sem lífið gaf okkur sem maður sér núna hversu verðmætur er þótt gátan um hvort kom á undan, eggið eða hænan, sé enn óleyst í okkar tilviki. Ég veit þó að það skiptir máli að tækla lífið eins og þú með brosmildi, áhuga, húmor, stóískri ró og njóta lífsins með fjölskyldu og vinum meðan færi gefst því það gerir okkur að því sem við erum og þannig muntu lifa hjá okkur.

Aðalsteinn (Steini).

Elskulegi tengdapabbi minn hefur nú kvatt okkur. Samfylgd okkar varði í 28 ár og á milli okkar Jóa var alla tíð mjög kært. Jói hafði einstakt jafnaðargeð, ég sá hann aldrei reiðan eða æsa sig við nokkurn mann, hann tók öllu með stóískri ró. Meira að segja undir það síðasta þegar hann lá mjög veikur á líknardeildinni og við fjölskyldan vorum að hvetja hann áfram og vonast eftir meiri bata sagði hann reglulega við okkur: þetta hefur allt sinn gang.

Þeir sem þekktu Jóa kynntust einstakri handlagni hans. Hann var bæði vandvirkur og ótrúlega útsjónarsamur, hvort sem það voru viðgerðir eða þegar hann smíðaði fjölbreytt listaverk úr tré eða hinum ýmsu málmum. Þótt hann hafi aldrei beint sýnt það, þá fóru óvönduð vinnubrögð og fljótfærni ekki vel í hann. Jói var ávallt fyrstur til að bjóða fram aðstoð þegar einhver í fjölskyldunni var í framkvæmdum og hann naut þess að geta hjálpað. Með sinni einstöku þolinmæði var hann líka duglegur og áhugasamur í að miðla handbragðinu áfram til barnabarnanna. Gunnar Árni, sonur okkar, lærði t.d. að munda ýmis verkfæri af afa sínum og skar út og smíðaði fjölbreytt verk úr tré með honum.

Mínir yndislegu tengdaforeldrar, Jói og Anna María, voru mjög samrýnd hjón og þau voru farin að ræða aðeins hvernig þau ætluðu sér að njóta efri áranna saman. Missir Jóa var því mikill þegar elsku tengdamamma féll frá langt fyrir aldur fram. En Jói var sterkur. Þetta hafði allt sinn gang og lífið hélt áfram. Hann hitti vini sína reglulega á kaffihúsum, fór oft í bíó með Eyfa, ferðaðist með vinum og fjölskyldu, bæði erlendis og innanlands, bauð í dýrindis kvöldverði og við fjölskyldan nutum margra góðra samverustunda með honum í paradísinni hans í Fljótshlíðinni, sumarbústaðnum. Það var líka nánast full vinna að fylgjast með og taka þátt í lífi barnabarnanna en þau hafa öll og eru sum enn að spila handbolta. Jói var ávallt stuðningsmaður nr. 1. Hann mætti reglulega á leiki, skutlaði og sótti á æfingar og fylgdist með hverjum og einum vaxa og dafna. Hann var einstaklega áhugasamur um allt sem var að gerast í lífi barnabarnanna. Þú varst einstakur afi og tengdapabbi.

Elsku Jói, ég bið að heilsa Önnu þinni. Hafðu innilegar þakkir fyrir allt, minning þín mun lifa áfram með okkur. Hvíl í friði.

Þín tengdadóttir,

Harpa Sif Jóhannsdóttir.

Vinur minn og tengdapabbi, Jóhann Gunnarsson, Jói, er látinn 75 ára að aldri. Hann tengdapabbi minn var dásamlegur maður fyrst og síðast, réttsýnn, vel lesinn, nákvæmur, nýtinn og mikill handverksmaður. Jóhann var fjölskyldumaður númer eitt. Dýrkaði konuna sína, börnin sín og barnabörn. Ég er stoltur að hafa haft hann sem tengdapabba minn. Hann hefur veitt mér óteljandi ráð og sagt mér hundruð sagna. Við vorum báðir ánægðastir í vinnugallanum að vinna í einhverju og enda daginn á að gera við vel við okkur í mat og drykk.

Gunnar var skemmtilegur maður, hrifnæmur, náttúrubarn og með gott skopskyn. Hann náði afar góðu sambandi við barnabörnin, var þeim góður félagi og ástríkur afi.

Jói var mikill handverksmaður og hann gat smíðað og lagað hvaðeina sem komst í hans hendur. Hann hóf ekkert verk nema hafa verið búinn að þaulhugsa öll skref til enda. Síðan var gengið fumlaust til verka og á undraverðum tíma var verkið unnið án þess að neinn tæki eftir því.

Jóa leið hvergi betur en í Fljótshlíðinni þar sem hann og Anna María voru búin að koma sér upp fallegum bústað undir barðinu eins og kallað er í sveitinni. En með tímanum er barðið orðið að paradís á jörðu. Þar liggja mörg handverkin. Jói var afar natinn maður. Alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur þá var vandvirknin alltaf í fyrirrúmi. Trén í Hlíðarbrekkunni byrjuðu sem fræ sem hann hlúði að fyrst með því að setja í næringarríka mold og geymdi heima úti á svölum. Í jörðu færu þau ekki fyrr en þau voru komin sæmilega á legg. Enda er sumarbústaðalóðin í dag þakin fjölbreyttum trjátegundum sem Jói var búinn að nostra við af gaumgæfni.

Ófáar stundirnar áttum við saman í sveitinni. Jói var ekki mikið fyrir að tala en saman sátum við oft án orða en samt stund þúsunda orða. Við töluðum mikið um trjárækt og landrækt, sumarbústaðabyggingar, pallasmíði, vélar og tæki. Þá kjaftaði hver tuskan á Jóa.

Það er ljóst að öll fjölskyldan hefur misst mikið en minningin um dásamlegan mann, maka, pabba, afa, vin og tengdapabba mun lifa um ókomin ár. Nú hafa heiðbláu augun lokast í hinsta sinn og glettið brosið mun aðeins lifa í minningunni. Þétt faðmlag og léttur koss á kinn. Í banka minninganna má líka finna ótal gleðistundir þar sem Jói var hrókur alls fagnaðar

Með söknuð í hjarta er gott að ylja sér við minningar um skemmtilegan og góðhjartaðan mann og dásamlegar stundir í faðmi fjölskyldunnar í Hlíðarbrekku.

Hvíldu í friði, Jóhann minn, þakka þér fyrir allt og allt.

Þinn vinur og tengdasonur,

Arnar Þór Sævarsson.

Elsku afi, takk fyrir allar góðu minningarnar. Það var fátt skemmtilegra en að fara upp í sveit með þér og hafa það kósí og gaman. Þú varst uppáhaldsferðafélaginn minn hvort sem það var á Íslandi eða á Spáni. Að sjá þig í stúkunni með fjölskyldunni á handboltaleikjunum mínum gaf mér yl í hjartað. Ég á svo frábærar minningar með þér sem ég mun aldrei

gleyma. Það er ekki hægt að biðja um betri og skemmtilegri afa en þig, ég er óendanlega þakklát og heppin að hafa átt þig sem afa.

Hvíldu í friði hjá ömmu.

Anna María
Aðalsteinsdóttir.

Skólabróðir minn og góður vinur, Jóhann Gunnarsson, er fallinn frá eftir skömm veikindi. Ég átti því láni að fagna að kynnast Jóa Gunn nokkuð náið. Fyrst í Vélskólanum, en þaðan útskrifuðumst við vorið 1970, og síðan í verklegu námi til sveinsprófs í vélvirkjun í Vélsmiðju Kristjáns Gíslasonar en þar störfuðum við saman tvö ár.

Jói var um margt einstakur maður, hann var algjört prúðmenni í allri framkomu, sannur vinur vina sinna hvað sem á gekk og virtist svona til að sjá frekar hægur en var hamhleypa til verka hvort sem um var að ræða flóknar viðgerðir á vélum og tækjum eða smíðar af einhverju tagi. Jói eyddi aldrei tíma í fjas um verkefnin sem honum voru falin heldur gekk til verks án málalenginga.

Dæmi þar um er að einhverju sinni var honum falið við annan mann að öxuldraga í fiskibáti. Við öxuldrátt er venjan að fenginn sé kranabíll til að draga öxulinn út þegar búið er að losa það sem losa þarf. Þegar verkstjórinn taldi að hæfilegur tími væri liðinn frá því að hann fól þeim félögum verkið spurði hann Jóa hvort ekki væri orðið tímabært að panta kranabílinn. Svarið var stutt en skýrt: Heyrðu, við erum búnir.

Að loknu sveinsprófi réð hann sig á vélaverkstæði Heklu hf. sem var m.a. með umboð fyrir Caterpillar-díeselvélar sem voru þá algengar í fiskiskipunum bæði sem aðalvélar og ljósavélar og einnig sem rafstöðvar í landi.

Þar byrjaði Jói á gólfinu eins og sagt er, fljótlega varð hann verkstjóri og síðan þjónustustjóri, og í lokin sá hann um að greina hvaða tjón féllu undir verksmiðjuábyrgð viðkomandi véla og tækja og hver ekki og ganga síðan frá reikningum til viðkomandi. Mál af þessu tagi eru bæði vandasöm og viðkvæm og krefjast yfirburðaþekkingar þeirra er um sýsla. Í þessu var Jói réttur maður vegna yfirburðaþekkingar sinnar á þessum málum.

Á meðan við vorum saman í Vélskólanum kynntist Jói konuefni sínu henni Önnu Maríu Aðalsteinsdóttur, þau tóku síðan saman og hófu búskap í Eskihlíð 1 í Reykjavík.

Þrátt fyrir að þau væru mjög ólík í sér eins og sagt er var hjónaband þeirra mjög náið og gott. Hún opin og tilbúin að blanda geði við þá sem á vegi hennar urðu hverju sinni en Jói rólega manngerðin. Segja má að verkaskiptingin í þeirra sambúð hafi verið mjög skýr; Anna sá um glaðværðina og tengslin við aðra en Jói um skipulagið og verklegar framkvæmdir.

Anna og Jói byggðu sér sumarbústað austur í Fljótshlíð. Efnið sem bústaðurinn var byggður úr var að stórum hluta fengið úr vönduðum trékössum sem Caterpillar sló utan um vélarnar sínar til flutnings til landsins. Úr þessum efnivið smíðaði Jói bústaðinn um helgar þegar stund gafst frá krefjandi vinnu hans hjá Heklu.

Minnist þess að einhverju sinni gistum við hjónin hjá Önnu og Jóa í bústaðnum og mér varð litið til lofts eftir að komið var upp í rúmið og virti fyrir mér loftklæðninguna en þar stóð á einni plötunni Caterpilar D 399 eða eitthvað í þá áttina.

Minnisstæðar eru allar gleðistundirnar í Eskihlíðinni en þrátt fyrir að íbúðin væri ekki stór var þar ævinlega nóg pláss fyrir félagana sem hittust þar af ýmsu tilefni.

Kæri vinur, takk fyrir allt, megirðu eiga farsæla för yfir móðuna miklu þar sem hún Anna þín bíður á ströndu og tekur þig brosmild í faðminn.

Helgi Laxdal.

Elsku kæri vinur. Nú ertu frjáls frá öllum verkjum og kominn í frjálsa landið og búinn að hitta Önnu Maríu og allt þitt fólk. Ekki bjóst ég við að það væri svona stutt í þetta þegar við kvöddumst síðast, að þetta yrði í síðasta skiptið að sinni, en svona er lífið. Þegar Gerður Beta hringdi í mig og tilkynnti mér andlát þitt var eins og það væri slökkt á mér, en svona er það bara, ég þurfti tíma til að átta mig á þessu, að vísu hafði ég fengið daglega fréttir af þér í gegnum Gerði Betu og er ég henni afar þakklátur fyrir það.

Það mun vanta helling, Jói minn, engir bíltúrar einu sinni til tvisvar í viku inn í KAPP og síðan í Vallarbraut og mikið spjall á báðum stöðum og þar á milli spjölluðum við í símann. Við ræddum mikið saman, þá aðallega um landbúnaðartæki, þú hafðir vit á vélum en ég ekki neitt svo ég spurði þig út úr á þeim vettvangi. Þú varst ótrúlegur uppi í sumarbústað, alltaf eitthvað að gera, en svo komið höggið þegar þú sagðir mér frá sjúkdómnum sem felldi þig að lokum. Þú varst alltaf svo rólegur og yfirvegaður og kvartaðir aldrei. „Þetta er bara svona,“ eins og þú sagðir sjálfur, „það er eins og þrekið sé búið.“

Ferðirnar okkar til Vestmannaeyja, það voru góðar ferðir, mikið spjallað. Trúmál voru lítið rædd en ég fann að þú hafðir trú og ég hafði sagt þér hvar ég stóð í þeim málum og nú trúi ég að meistarinn sjálfur hafi tekið á móti þér í allri sinni dýrð og umvafið þig blessun sinni.

Í öll þessi ár sem við höfum verið saman heyrði ég þig aldrei hallmæla nokkrum manni né tala illa um nokkurn, fyrir mér varstu góður maður og frábær vinur sem hægt var að tala við um alla skapaða hluti og treysta því að það sem við sögðum hvor öðrum væri geymt en ekki gleymt.

Elsku vinur, það er svo erfitt að kveðja þig en þú mátt vera ánægður með hvað góð börn þú átt, Aðalstein og Gerði Betu, og barnabörnin sem þú dýrkaðir og varst ólatur við að keyra á íþróttaæfingar. Elsku Aðalsteinn og Gerður Beta, þið hafið misst yndislegan föður og barnabörn yndislegan afa og tengdabörn yndislegan tengdaföður, og ég veit að vinur minn Jói er nú í góðum höndum hjá góðum Guði. Ég votta ykkur innilega samúð og bið algóðan Guð að blessa og varðveita ykkur öll og styrkja í ykkar sorg.

Elsku vinur Jóhann, takk fyrir alla þína vináttu og kærleika sem þú hefur sýnt mér í gegnum árin. Guð geymi þig kæri vinur.

Friðrik Ingi Óskarsson.