[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Staða heilbrigðismála á Íslandi og heilsufar landsmanna kemur nokkuð vel út í nýjum samanburði OECD á heilbrigðismálum á Íslandi og í löndum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. Á ýmsa mælikvarða er Ísland þó undir meðallagi Evrópulandanna sem samanburðurinn nær til

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Staða heilbrigðismála á Íslandi og heilsufar landsmanna kemur nokkuð vel út í nýjum samanburði OECD á heilbrigðismálum á Íslandi og í löndum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins. Á ýmsa mælikvarða er Ísland þó undir meðallagi Evrópulandanna sem samanburðurinn nær til.

Lífslíkur við fæðingu á Íslandi eru nokkuð yfir meðaltali Evrópusambands- og EES-landa eða 82,1 ár og hálfu öðru ári yfir meðallífslíkum í Evrópulöndunum. En bent er á í skýrslunni að bakslag hafi orðið á Íslandi á seinasta ári þegar umframdauðsföllum fjölgaði mikið ekki hvað síst vegna Covid-19-andláta, eða um 19% umfram meðalfjölda dauðsfalla á næstu fimm árum þar á undan skv. skýrslunni.

Leiddi þetta til þess að lífslíkur við fæðingu hér á landi skertust um 1,1 ár í fyrra frá því sem var fyrir faraldurinn. Á sama tíma lækkuðu lífslíkur að jafnaði í Evrópulöndum um 0,6 ár. Eftir sem áður eru lífslíkur við fæðingu hér á landi enn yfir meðallífslíkum í Evrópu (80,1 ár). Átta lönd eru fyrir ofan Ísland, þar á meðal eru Svíþjóð þar sem lífslíkurnar eru 83,1 ár og Noregur 82,6 ár.

Þegar borin er saman dánartíðni í löndunum vegna svonefndra ótímabærra dauðsfalla á árinu 2020 kemur fram að tíðni þeirra var langum lægri hér á landi en í samanburðarlöndunum eða 99 á hverja 100 þúsund íbúa samanborið við 180 að meðaltali í löndum Evrópu. Dánartíðni vegna sjúkdóma sem hefði verið hægt að meðhöndla var lægst á Íslandi í samanburði sem nær til 30 Evrópulanda. 40% þessara dauðsfalla hér á landi voru vegna ristilskrabbameins og blóðþurrðarsjúkdóma í hjarta.

Ísland kemur misvel út þegar löndin eru borin saman á mælikvarða áhættuþátta sjúkdóma vegna lifnaðarhátta. Rekja má rúmlega þriðjung dánarorsaka til þessara þátta. Tóbaksreykingar á Íslandi eru þær minnstu í Evrópulöndunum og bent er á að skv. tölum frá 2020 var áfengisneysla hér á landi mæld í lítrum af vínanda á íbúa 25% minni en að meðaltali í löndum ESB. Óhófleg áfengisneysla á Íslandi er þó mun meiri hér (23% fullorðinna) en í Evrópulöndunum (18,5%).

Íslendingar eru meðal efstu þjóða í heilsurækt og hreyfingu en ofþyngd og offita er sögð vera heilsufarslegt vandamál hér á landi, sem hefur færst meira í vöxt hér en að jafnaði í öðrum Evrópulöndum. Ísland kemur vel út í samanburði á heilsufari eldri borgara í Evrópu og lífslíkur fólks við 65 ára aldur eru nokkru hærri hér. Mun lægra hlutfall íslenskra karla og kvenna á þessu aldursskeiði á við langvinn heilsufarsvandamál að stríða eða býr við takmarkanir í daglegu lífi sögum heilsufars en eldri borgarar að meðaltali í samanburðarlöndum að mati OECD (sjá töflu).

Í skýrslunni er sjónum sérstaklega beint að ástandi geðheilbrigðismála í Evrópu. Þrátt fyrir að vera meðal hamingjusömustu þjóða heims er ástand geðheilbrigðismála hér sagt vera í meðallagi í Evrópusamanburði. 16% þjóðarinnar áttu við geðraskanir að stríða hér, lítið eitt undir meðaltalinu í Evrópulöndunum. Notkun þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja hefur aukist víðast hvar í Evrópu en bent er á að notkun þunglyndislyfja var um 61% yfir meðaltalsnotkun annarra norrænna landa á árinu 2021. Tíðni sjálfsvíga var 20% hærri hér en í löndum ESB á árinu 2020.

Útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi af vergri landsframleiðslu á árinu 2021 voru nokkuð undir meðaltali í samanburði á löndunum. Hið opinbera greiddi tæp 84% heildarútgjaldanna árið 2021, sem er hærra hlutfall en að jafnaði í samanburðarlöndunum, sem var 81%. Opinber útgjöld til heilbrigðismála hér voru töluvert meiri en sem nemur vexti landsframleisðlu á árunum fyrir faraldur krórónuveirunnar en á árinu 2021 voru útgjöld á Íslandi 9,7% af landsframleiðslu og nokkru undir 11% meðaltali í öðrum Evrópulöndum.

Höf.: Ómar Friðriksson