Hvammsvirkjun Áformuð Hvammsvirkjun er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Hvammsvirkjun Áformuð Hvammsvirkjun er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. — Ljósmynd/Landsvirkjun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Samfélagslegri sátt í nærumhverfi orkuvinnslu á Íslandi er einungis hægt að ná fram með því að samfélagið njóti efnahagslegs ávinnings og að undanþágur orkufyrirtækja frá lögboðnum tekjustofnum sveitarfélaga verði felldar úr gildi.“

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Samfélagslegri sátt í nærumhverfi orkuvinnslu á Íslandi er einungis hægt að ná fram með því að samfélagið njóti efnahagslegs ávinnings og að undanþágur orkufyrirtækja frá lögboðnum tekjustofnum sveitarfélaga verði felldar úr gildi.“

Svo segir í umsögn sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps um endurmat og flokkun á virkjunarkostum úr 3. áfanga rammaáætlunar sem tekur til Héraðsvatna, Skrokkölduvirkjunar, Kjalölduveitu, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar.

Í umsögninni er ítrekuð gagnrýni sveitarstjórnarinnar á fyrirkomulag skattlagningar orkumannvirkja, en sveitarfélög þar sem orkuverin standa njóta einungis fasteignaskatta af stöðvarhúsum en ekki af öðrum mannvirkjum orkuveranna, svo sem stíflum, aðrennslisgöngum, frárennslisskurðum, spennistöðvum, lokumannvirkjum, fallgöngum eða flutningskerfum. Virði stöðvarhúsa af heildarvirði orkumannvirkja sé einungis 5%, en stöðvarhúsin eru andlag fasteignaskatta sem til sveitarfélagsins renna.

Landsvirkjun greiddi ríflega 241 milljón í fasteignaskatta til sveitarfélagsins 2022, en ef önnur mannvirki virkjananna hefðu ekki verið undanþegin þessum skatti má ætla að skatttekjur sveitafélagsins af þeim hefðu numið tæpum 5 milljörðum króna þetta ár. Það er þó ekki farið fram á það af hálfu sveitarfélagsins. Í samtali við Morgunblaðið segir Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri að sveitarfélagið vilji afnema undanþágu orkufyrirtækja til greiðslu fasteignaskatts, en vilja nýjan skattstofn þess í stað. Sá skattstofn beri lægri skattprósentu og skatttekjurnar dreifist eftir nýjum reglum óháð sveitarfélagamörkum sem myndi þýða sanngirni gagnvart nærsamfélaginu.

Þá segir í umsögninni að langflest störf hjá ríkisorkufyrirtækjunum séu á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst hin verðmætustu. Þá séu höfuðstöðvar einnig þar og þau vilji hvergi fara. Ef höfuðstöðvar þeirra hefðu í upphafi verið byggðar upp á landsbyggðinni, hefði byggst upp öflug starfsemi og samfélög í nærumhverfi orkuvinnslunnar og efnahagslegur ávinningur þess hefði orðið gríðarlegur fyrir sveitarfélagið, en 35% af allri rafmagnsframleiðslu Landsvirkjunar fara fram í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Þá er tínt til að þegar litið sé til samspils fasteignaskatta, útsvars og greiðslna úr Jöfnunarsjóði megi færa rök að því að beint fjárhagslegt tap Skeiða- og Gnúpverjahrepps af starfsemi Landsvirkjunar 2022 geti verið allt að 43 milljónir króna og ljóst sé að uppsafnaður kostnaður samfélagsins í sveitarfélaginu síðustu áratugi hlaupi á milljörðum. Enda hafi ekki átt sér stað nein raunveruleg uppbygging innviða þar um áratugaskeið.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson