Baldvin Björgvinsson
Baldvin Björgvinsson
Auka þarf heimildir skóla til að fjölga nemendum í rafiðngreinum og öðru iðn- og verknámi. Iðnskólar eru fljótir að borga sig.

Baldvin Björgvinsson

Það þarf ekki flókinn útreikning til að komast að því að verðmæti eins rafvirkja, sem útskrifast með sveinsbréf nálægt tvítugsaldri, er einn til tveir milljarðar. Já það er verðmætið á einum tilbúnum rafvirkja. Það byggist á því hvað á eftir að selja vinnu rafvirkjans fyrir mikið í heildina næstu 50 árin.

Árlega er hundruðum umsækjenda vísað frá námi í rafvirkjun einni saman. Nálægt þúsund umsækjendum er vísað frá iðnnámi. Ástæðan er einfaldlega sú að skólarnir hafa ekki heimild til að taka fleiri nemendur.

Í dag næst ekki einu sinni að útskrifa nógu marga með sveinsbréf í rafvirkjun í stað þeirra sem hætta.

Á næstu áratugum mun um það bil helmingur allra starfa sem nú eru til hverfa varanlega. Rafvirkjun er ekki í þeim hópi og fá iðnaðarstörf eru þar. Iðnmenntaðir þurfa almennt ekki að kvíða framtíðinni, hvorki í launum né atvinnuhorfum.

Íslenska menntakerfið þarf, eins og önnur lönd, að skoða hvar áherslur skuli vera í menntun. Hvort verið er að mennta fólk til starfa sem munu fljótlega hverfa eða til framtíðarstarfa.

Alls staðar er kallað eftir fleiri rafvirkjum, tæknimenntuðum einstaklingum og einstaklingum með sambærilegt nám að baki.

Samtök iðnaðarins og margir aðrir hafa lengi bent á þörfina.

Í íslensku menntakerfi verður þessi vandi aðeins leystur á einum stað í samstarfi menntamála og fjármála.

Eigi Ísland og íslensk fyrirtæki að geta staðið sig í samkeppni þjóðanna næstu ár og áratugi þarf einfaldlega að taka þá ákvörðun að ætla að standa sig. Það þarf að beina meira fé til menntunar í iðngreinum, sérstaklega þar sem skorturinn er mestur og fyrirsjáanleg þörf mest. Það þarf meira pláss, fleiri kennara og skólar þurfa leyfi samhliða fjármagni til að taka inn fleiri nemendur í iðn-, verk- og tæknigreinar.

Það þarf ekki að bíða, það er hægt að leigja húsnæði og fjölga nemendum strax. Það er hægt að leysa kennaravandann og nemendurnir bíða í röðum fyrir utan eftir að fá að koma inn.

Það er augljóst að í hvert sinn sem til dæmis Tækniskólinn útskrifar nemendur þá eru þeir fjármunir sem fóru í rekstur skólans það árið komnir til baka margfalt. Hundrað rafvirkjar sem ljúka sveinsprófi í rafvirkjun í janúar 2024 gerir um það bil eitt til tvö hundruð milljarða verðmæti af rafvirkjum bara í þeirri útskrift.

Það þarf bara að taka sameiginlega ákvörðun í núverandi ríkisstjórn um að leyfa þeim skólum sem kenna þær iðngreinar þar sem þörfin er mest að bæta verulega í með öllum tiltækum ráðum.

Höfundur er formaður Félags kennara í rafiðngreinum.

Höf.: Baldvin Björgvinsson