Egill Þórir Einarsson
Egill Þórir Einarsson
Íslendingar hafa aldrei verið eftirbátar annarra þegar kemur að því að sýna frumkvæði, þegar mannréttindi eru annars vegar, og ættu að stíga fram.

Egill Þórir Einarsson

Í Palestínu, þessu stríðshrjáða landi, er uppruni kristinnar trúar og hennar helstu helgidómar svo sem Betlehem og Jerúsalem sem einnig gegnir mikilvægu hlutverki hjá gyðingum og múslimum. Það er kaldhæðni örlaganna að þetta land skuli vera helsta bitbein og átakasvæði þjóða sem báðar rekja sitt upphaf þangað og ástunda trúarbrögð sem ættu að byggjast á mannúð og umburðarlyndi. Þjóðir sem gátu lifað hlið við hlið öldum saman án átaka en hefur nú verið att saman í tilgangslausu stríði með tilheyrandi þjáningum og óendanlegri neyð.

Eftir tveggja mánaða stanslausa skothríð tæknivæddustu þungavopna heims er búið að murka lífið úr 20 þúsund íbúum Gasa, þar af meirihluta konum og börnum. Undirritaður spáði í fyrri pistli sínum þann 4. nóv. sl. að Ísraelsmenn myndu ekki láta staðar numið fyrr en þeir hefðu tífaldað dánartölu sinna eigin fallinna. Nú eru þeir komnir nærri því að 15-falda þá tölu og eru enn að!

Staðan er þessi: Palestínumenn hafa enn í haldi um 100 ísraelska gísla sem þeir neita að láta af hendi nema samið sé um vopnahlé. Ísraelsmenn segjast munu halda áfram hernaði þar til Hamas-liðar hafa afhent gíslana en neita að semja um vopnahlé. Er ekki eitthvað galið við þessa afstöðu? Eru einhverjar líkur á að þessir gísla lifi af þegar annar aðilinn neitar að láta þá lausa nema með skilyrðum en hinn aðilinn neitar að koma til móts við þau skilyrði sem sett eru? Halda mætti að gíslarnir skiptu engu máli fyrir Ísrael þótt ástvinir þeirra heyi nú harða baráttu við ráðamenn um að semja um lausn þeirra.

Markmið Ísraels er að „uppræta“ Hamas. Hvað þýðir það? Upprætir maður hugmyndafræði eða aldagamla kúgun og uppsafnað hatur? Það er hægt að uppræta ákveðinn hóp sem skilgreindur er sem Hamas-liðar en í þeirri herferð verður engin meðalhófsregla í heiðri höfð. Og eftir situr hugmyndafræðin og afkomendur þeirra sem láta lífið í þeirri ómanneskjulegu og grimmilegu herför. Ísraelsríki hegðar sér eins og sært dýr og særð dýr eru hættuleg. Þess vegna verður að hafa vit fyrir þeim þar til varnarviðbrögðin hafa hjaðnað og skynsamleg nálgun tekið við. Víða um heim hafa menn tekist á við miklu alvarlegri atburði en fjöldamorð Hamas á ísraelskum borgurum og náð að finna leið til friðar og sátta. Þótt sú leið sé sár og erfið er hún eina leiðin út úr ógöngum Ísraelsríkis. Sem dæmi má nefna áralanga og blóðuga baráttu IRA á N-Írlandi fyrir réttindum kaþólikka sem lauk með sátt.

Heimurinn stendur ráðalaus gagnvart þessari aðför eins hervæddasta ríkis heims, sem stutt er af mörgum helstu stórveldum heims, gegn einu fátækasta ríki heims. Sameinuðu þjóðirnar, sem eiga að vera sá öryggisventill sem hægt væri að grípa til, hafa reynst máttlausar vegna neitunarvalds einstakra ríkja þótt ekki megi vanmeta framlag þeirra við hjálparstarf til stríðsþjáðrar þjóðar. Þær þjóðir sem mesta ábyrgð bera þurfa að horfa fram hjá þröngum hagsmunum sínum og velja stærri hagsmuni fyrir minni. Frakkar hafa þegar stigið fram og gert kröfur um tafarlaust vopnahlé á Gasa. Bretar og Þjóðverjar standa enn á bremsunni og Bandaríkjamenn eru hnepptir í fjötra sterkra hagsmunasamtaka Gyðinga. Íslendingar hafa aldrei verið eftirbátar annarra þegar kemur að því að sýna frumkvæði, þegar mannréttindi eru annars vegar, og stjórnvöld ættu að stíga fram og knýja á um lausn í deilunni. Við búum að farsælu samstarfi við helstu ríki á Vesturlöndum bæði í Evrópusamstarfi og í Atlantshafsbandalaginu. Við myndum þar fara að fordæmi Norðmanna sem áður hafa komið að lausn deilna fyrir botni Miðjarðarhafs. Við höfum áður sýnt það og sannað að okkar rödd heyrist þótt við séum smá og ekki væri til betri jólagjöf til þeirra sem um sárt eiga að binda. Og þegar kemur að því að beina þjóðum sem teljast vinaþjóðir okkar til betri vegar má líta á hið gullvæga máltæki „vinur er sá er til vamms segir“.

Höfundur er efnaverkfræðingur og eftirlaunaþegi.

Höf.: Egill Þórir Einarsson