Uppvakningur spókar sig um á Times Square í sumar, til að kynna nýja sjónvarpsþætti. Því frjálsari sem hagkerfi eru, því auðveldara eiga þau með að halda uppvakningum í skefjum.
Uppvakningur spókar sig um á Times Square í sumar, til að kynna nýja sjónvarpsþætti. Því frjálsari sem hagkerfi eru, því auðveldara eiga þau með að halda uppvakningum í skefjum. — AFP/Leonardo Munoz
Þegar þættirnir The Walking Dead voru hvað vinsælastir velti ég vandlega fyrir mér kostum þess að eiga öruggt skjól á afskekktum stað – kannski huggulegt lítið neðanjarðarbyrgi eða fjallakofa – þar sem ég gæti hreiðrað um mig á meðan…

Þegar þættirnir The Walking Dead voru hvað vinsælastir velti ég vandlega fyrir mér kostum þess að eiga öruggt skjól á afskekktum stað – kannski huggulegt lítið neðanjarðarbyrgi eða fjallakofa – þar sem ég gæti hreiðrað um mig á meðan hvers kyns skakkaföll í samfélaginu gengju yfir. Með nokkrar pallettur af fínum vínum, gæsalifrarkæfu og Nóa-konfekti til að næra líkamann, og stafla af góðum bókum og tímaritum til að næra andann, myndi mig ekki vanhaga um neitt.

The Walking Dead eru ágætis rannsóknarefni fyrir áhugamenn um hagfræði og mannfræði, því eftir því sem líður á söguna – sem spannaði á endanum 11 þáttaraðir, frá 2010 til 2022 – reynast það ekki lengur uppvakningarnir sjálfir sem mest hætta stafar af heldur eru það eftirlifendurnir sem þarf að varast. Í þáttunum gerist það trekk í trekk að vanhæfir leiðtogar, spilling, valdagræðgi og miðstýring reynast langtum varasamari en mannætu-uppvakningar.

Ég gafst að lokum upp á uppvakninga-hryllingnum, í 5. eða 6. þáttaröðinni, enda var formúlan þá orðin frekar einhæf. Svo gat ég ekki lengur litið fram hjá því hve óraunhæft það væri að uppvakningar gætu gert söguhetjunum lífið leitt svo árum skipti. Uppvakningarnir geta jú ekki nært sig og líkamsvefirnir ættu að grotna niður tiltölulega hratt. Í bandarísku veðurfari myndi það varla taka nema fimm ár þar til ekkert væri eftir nema beinagrindin. Án nokkurra inngripa og afskipta myndu uppvakningarnir hverfa af sjálfu sér.

Stuðningnum hætt

Nú eru uppvakningar viðskiptalífsins farnir að týna tölunni, hver á fætur öðrum. FT greindi nýlega frá því að undanfarið ár hefði gjaldþrotum bandarískra fyrirtækja fjölgað um 30% frá árinu á undan. Í Frakklandi, Hollandi og Japan er ástandið svipað, en aukningin 25% í Þýskalandi og þegar Evrópusambandið er skoðað í heild sinni mælist aukningin 13%. Í Danmörku, Svíþjóð, Bretlandi, Spáni, Finnlandi og Noregi hafa fleiri fyrirtæki orðið gjaldþrota að undanförnu en í fjármálakreppunni 2008 til 2009.

Greinendur eru sammála um að mörg af þeim fyrirtækjum sem um ræðir hefðu gefið upp öndina fyrir löngu ef ekki hefði verið fyrir þá rausnarlegu innspýtingu sem stjórnvöld um allan heim veittu fyrirtækjum í kórónuveirufaraldrinum. Nú eru styrkirnir og ívilnanirnar á þrotum, og því til viðbótar eru rekstrarskilyrðin krefjandi og hefur lántöku-, launa- og orkukostnaður rokið upp. Áhrif launa- og orkukostnaðar sjást best á því að í Evrópu eru gjaldþrotin hlutfallslega tíðust hjá fyrirtækjum í flutningageira annars vegar og veitinga- og ferðaþjónustugeira hins vegar.

Reikna sérfræðingar með að þróunin haldist óbreytt, a.m.k. vel fram á næsta ár, og er því spáð að hrina samruna og gjaldþrota muni einkenna bandaríska smásölugeirann á næsta misseri.

Tíminn mun síðan leiða í ljós hvort bandarískt atvinnulíf sé komið í var, og hvort t.d. fasteignabólan þar í landi eigi eftir að draga dilk á eftir sér. Þá glímir Evrópa enn við langvarandi stöðnun og hefur hagkerfi ESB, heilt á litið, setið pikkfast allt þetta ár og fátt sem gefur tilefni til að halda að þar sé mjög jákvæðra breytinga að vænta.

Frelsi stuðlar að vægari niðursveiflum

Það er eðlilegur hluti af hagsveiflunni að fyrirtæki koma og fara. Gjaldþrot eru afskaplega leiðinleg fyrir eigendur, starfsfólk og viðskiptavini, en reynslan sýnir okkur að þeim hagkerfum reiðir best af þar sem frjáls markaðsöfl fá að grisja ólífvænlegan rekstur í burtu hratt og vel. Ef hagkerfið er frjálst spretta ný og betri félög upp í staðinn til að fylla í skarðið og gott betur.

Danski hagfræðingurinn Christian Bjørnskov birti árið 2016 víðtæka rannsókn á þessu fyrirbæri, m.a. sem andsvar við fullyrðingum fræðimanna á borð við Noam Chomsky, Paul Krugman og Joseph Stiglitz um að efnahagskreppur stafi einkum af of litlum inngripum stjórnvalda í hagkerfinu. Keynes sjálfur gekk svo langt að fullyrða að því verri sem efnahagsvandi þjóða væri, því skaðlegra væri inngripaleysið.

Niðurstaða Bjørnskovs er áhugaverð, því hann fær það út að ekki aðeins þurfi frjálsustu hagkerfin að glíma sjaldnar við efnahagsáföll, heldur reynast niðursveiflurnar hjá þeim ekki jafn djúpar.

Þeim hagkerfum reiðir miklu verr af þar sem stjórnmálamenn grípa fram fyrir hendur markaðarins með stuðningi og ívilnunum. Þannig hagkerfi fyllast smám saman af skjögrandi uppvakningum sem ekkert virðist fá grandað.