Annir á Alþingi Að venju voru þingstörfin tekin með áhlaupi þegar jólin fóru að nálgast og í nógu að snúast hjá Birgi Ármannssyni þingforseta.
Annir á Alþingi Að venju voru þingstörfin tekin með áhlaupi þegar jólin fóru að nálgast og í nógu að snúast hjá Birgi Ármannssyni þingforseta. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margfaldur ræðukóngur Alþingis hin seinni ár, Píratinn Björn Leví Gunnarsson, hefur talað mest á yfirstandandi löggjafarþingi. Þingmenn fóru í jólafrí síðastliðinn laugardag. Skammt á eftir Birni Leví kemur Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Margfaldur ræðukóngur Alþingis hin seinni ár, Píratinn Björn Leví Gunnarsson, hefur talað mest á yfirstandandi löggjafarþingi. Þingmenn fóru í jólafrí síðastliðinn laugardag. Skammt á eftir Birni Leví kemur Eyjólfur Ármannsson, Flokki fólksins.

Björn Leví hefur flutt 63 ræður og gert 164 athugasemdir og andsvör á haustþinginu. Þar gera samtals 225 ræður/athugasemdir. Hann hefur talað í 675 mínútur samtals eða í rétt rúma 11 klukkutíma.

Í næstu sætum koma: Eyjólfur Ármannson (185/663), Guðmundur Ingi Kristinsson, Flokki Fólksins (99/434), Bergþór Ólason, Miðflokki (126/428), Inga Sæland, Flokki fólksins (88/400), Njáll Trausti Friðbertsson, Sjálfstæðisflokki (83/365), og Sigmar Guðmundsson, Viðreisn (92/320).

Samkvæmt yfirliti á heimasíðu Alþingis hefur Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, flutt fæstar ræður, 10 talsins og talað í 32 mínútur. Skammt frá eru þingkonur Framsóknarflokksins, þær Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (18/40) og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (14/47).

Sá ráðherra sem mest hefur talað er Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra (79/254). Næst koma Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (98/233) og Bjarni Benediktsson fjármála-/utanríkisráðherra (67/208).

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskólaráðherra hefur talað minnst ráðherra ríkisstjórnarinnar (6/30).

Það sem af er haustþingi, 154. löggjafarþinginu, hafa þingmenn flutt 1.998 ræður í 9.355 mínútur (155,92 klukkustundir).
Þeir hafa gert 1.740 athugasemdir í 2.752 mínútur (45,87 klst.) Meðallengd þingræðu er 4,7 mínútur og athugasemda 1,6 mínútur.

Þingið var að störfum frá 12. september til 16. desember 2023. Þingfundir voru samtals 55 og stóðu í rúmar 247 klukkustundir. Þingfundadagar voru alls 46. Lengsta umræðan var um fjárlög 2024 en hún stóð samtals í 35 klukkustundir og 43 mínútur.

Þingmál voru 586 talsins

Þingmál til meðferðar í haustþinginu voru 586 og tala prentaðra þingskjala var 858. Af 160 frumvörpum hafa nú alls 24 orðið að lögum og 136 eru enn óútrædd. Af 139 þingsályktunartillögum voru sjö samþykktar, 129 eru óútræddar og þrjár voru afturkallaðar.

Þegar Alþingi fór í frí fyrir jólin 2022 var Eyjólfur Ármannsson í efsta sætinu. Hann hafði flutt 309 ræður, athugasemdir og andsvör, og talað í samtals 1.005 mínútur. Það gera tæplega 17 klukkustundir samanlagt, sem hann hafði staðið í ræðustól Alþingis. Eyjólfur hefur því talað nokkru skemur á yfirstandandi þingi en í fyrra, rétt eins og kollegi hans Björn Leví, sem var í 2. sæti á haustþinginu í fyrra.

Fjölmargir varaþingmenn hafa tekið sæti á Alþingi á haustþinginu og sumir oftar en einu sinni. Alls hafa 88 einstaklingar tekið til máls það sem af er, en kjörnir þingmenn eru 63 talsins eins og alþjóð er kunnugt.

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis mun þing koma saman að nýju mánudaginn 22. janúar 2024 að loknu jólahléi. Nefndir þingsins hefja störf viku fyrr eða 15. janúar. Stefnt er að þingfrestun föstudaginn 7. júní.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson