Hvatar fyrir fyrirtæki til að ráðast í skuldsettar yfirtökur eru takmarkaðir um þessar mundir. Tækifæri til hagræðingar og innlausn samlegðar þarf að vera umtalsverð til að standa undir háum fjármagnskostnaði. Kaupendahópur er því að einhverju leyti takmarkaður við þá sem hafa aðgengi að lausafé.

Fyrirtækjaráðgjöf

Lovísa Anna Finnbjörnsdóttir

Sviðsstjóri Fjármálaráðgjafar Deloitte

Það leynist engum að aðstæður á fjármagnsmörkuðum hafa verið krefjandi það sem af er ári og hafa bæði heimili og fyrirtæki fundið fyrir því í formi verð- og vaxtahækkana. Ekki er um séríslenskar aðstæður að ræða, heldur hafa vextir alls staðar í heiminum hækkað skarpt. Þetta hefur valdið óvissu á mörkuðum sem hefur meðal annars komið fram með samdrætti í fjölda og umfangi viðskipta með fyrirtæki á evrópskum markaði.

Á innlendum markaði kveður þó við annan tón. Hér hefur verið líflegur markaður með viðskipti með fyrirtæki, þrátt fyrir að vextir hér á landi séu með þeim hæstu sem nú sjást á þróuðum mörkuðum. Þetta kemur meðal annars fram í fjölda afgreiddra samrunamála, en á síðasta ári var 28 málum lokið en það sem af er ári hefur 38 málum verið lokið og sjö til viðbótar bíða afgreiðslu. Af þessum tölum að dæma eru engar vísbendingar um kólnun á markaði með fyrirtæki, þó vissulega litist tilgangur og eðli viðskipta af markaðsaðstæðum.

Hvatar fyrir fyrirtæki til að ráðast í skuldsettar yfirtökur eru takmarkaðir um þessar mundir. Tækifæri til hagræðingar og innlausn samlegðar þarf að vera umtalsverð til að standa undir háum fjármagnskostnaði. Kaupendahópur er því að einhverju leyti takmarkaður við þá sem hafa aðgengi að lausafé. Viðskipti eru sömuleiðis betur ígrunduð, drifin áfram af strategískum ákvörðunum og tækifærum til að auka verðmætasköpun.

Framtakssjóðir voru áberandi á kauphlið á árinu en þriðjungur innlendra viðskipta var kaup framtakssjóða, eða félaga í eigu framtakssjóða, á rekstrarfélögum. Umfang framtakssjóða á markaðnum hefur aukist á síðustu árum með fjármögnun fleiri sjóða. Framtakssjóðir eru mikilvægir fjárfestar til að viðhalda heilbrigðum markaði og stuðla að verðmætasköpun í þeim fyrirtækjum sem þeir fjárfesta í, og því ánægjulegt að sjá umfang framtaksfjárfestinga á markaði sambærilegt við það sem er að gerast á öðrum mörkuðum.

Um 20% viðskipta í ár eru kaup skráðra félaga, flest fjármögnuð með útgáfu hlutabréfa. Félög á hlutabréfamarkaði hafa langflest metnaðarfull markmið um vöxt, sem í mörgum tilvikum kallar á ytri vöxt. Sömu áskoranir gilda fyrir þessa kaupendur og aðra, fjármagn er dýrt og verðlagning hlutabréfa endurspeglar það. Velja þarf tækifærin vel og vanda undirbúning, það hefur sjaldan verið dýrara að gera mistök í yfirtökum.

Viðskipti ársins eru úr fjölmörgum atvinnugreinum, flest eru þau með fyrirtæki í ferðaþjónustu sem eru þó ekki nema um 15% af viðskiptum ársins. Sjávarútvegur kemur þar næst á eftir. Líklegt er að sjávarútvegur verði fyrirferðarmesta atvinnugreinin á næsta ári, þar sem heimildir til samþjöppunar hafa verið minnkaðar og sérhæfðir fjárfestingarsjóðir settir á laggirnar.

Það er gott að sjá líf á markaði í þessu árferði. Þeir fyrirtækjaeigendur sem huga að sölu ættu ekki að óttast ástandið heldur huga strax að undirbúningi.