Nýrri innlendri ríkisgreiðslumiðlun er ætlað að sporna við samþjöppunaráhættu að mati stjórnvalda. Fjármálafyrirtæki eru ekki samþykk því að Seðlabankinn fái rýmkaðar heimildir til að setja þeim reglur um starfsemi.
Nýrri innlendri ríkisgreiðslumiðlun er ætlað að sporna við samþjöppunaráhættu að mati stjórnvalda. Fjármálafyrirtæki eru ekki samþykk því að Seðlabankinn fái rýmkaðar heimildir til að setja þeim reglur um starfsemi. — Morgunblaðið/Ómar
Boðaðar breytingar á lögum um Seðlabankann skylda fjármálafyrirtæki til að þróa, sjá um rekstur og viðhald og bera kostnað af ríkisgreiðslumiðlun. Þetta kemur fram í umsögnum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), Samtaka atvinnulífsins (SA) og…

Boðaðar breytingar á lögum um Seðlabankann skylda fjármálafyrirtæki til að þróa, sjá um rekstur og viðhald og bera kostnað af ríkisgreiðslumiðlun.

Þetta kemur fram í umsögnum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF), Samtaka atvinnulífsins (SA) og Viðskiptaráðs við frumvarp sem nýlega var birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem breytingar eru boðaðar á lögum um Seðlabankann. Lagabreytingin miðar að því að styrkja heimildir bankans til þess setja reglur og ákveða fyrirkomulag á stofnun innlendrar greiðslumiðlunar. Seðlabankinn hefur áður komið áhyggjum sínum á framfæri við þjóðaröryggisráð. Það snýr að mestu að því hversu smágreiðslumiðlun á Íslandi sé háð fáum erlendum kortafyrirtækjum, þar sem yfir 90% af innlendri kortagreiðslum fari í gegnum erlenda kortainnviði og innlendar fjártæknilausnir séu háðar sömu innviðum. Enn fremur er bent á í umsögnum fyrrnefndra aðila að það liggi ekki nægjanlega fyrir hvaða vanda innlend ríkisgreiðslulausn eigi að leysa, hvernig eigi að útfæra hana eða hvort slík greiðslulausn komi til með henta á Íslandi.

Segir vanta fleiri valkosti

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við áhyggjum Seðlabankans og þjóðaröryggisráðs af samþjöppunaráhættu og aukinni notkun á rafrænni greiðslumiðlun, sem hafi leitt til fjölgunar á netárásum og hagnýtingu á veikleikum í hugbúnaði. Samþjöppunaráhættan þykir, að mati stjórnvalda, ekki ásættanleg fyrir íslenskt efnhagslíf og því sé þörf á fleiri valkostum við greiðslumiðlun á Íslandi. Til þess þarf að breyta lögum og rýmka heimildir Seðlabankans til að setja reglur og fyrirkomulag um að setja á stofn innlenda greiðslumiðlun.

Sektir allt að ein milljón á dag

Í frumvarpsdrögunum eru einnig lagðar fram breytingar á þvingunarheimildum Seðlabankans, svo bankinn geti gert kröfur á fjármálastofnanir um úrbætur og beitingu dagsekta. Bankinn fær því sérstaka heimild til þess að leggja dagsektir á fjármálafyrirtæki, sem geta verið frá tíu þúsund krónum til ein milljón á dag, á þá aðila sem Seðlabankinn telur ekki fara eftir reglum eða verða ekki við kröfum um úrbætur. Með þessu er verið að rýmka þvingunarúrræði bankans til muna, sem einskorðast nú við lánastofnanir og verðbréfasjóði.

Veruleg útvíkkun á sektarheimildum Seðlabankans

SFF telur einnig að frumvarpið feli í sér verulega útvíkkun á dagsektarheimildum Seðlabankans sem lúta ekki eingöngu að greiðslumiðluninni heldur einnig heimild fyrir Seðlabankann að beita sektum ef bankinn telur að fjármálafyrirtæki fari ekki eftir öðrum ákvæðum í lögunum en þeim sem snúa að greiðslumiðluninni. Að mati SFF skortir einnig verulega á rökstuðning fyrir nauðsyn rýmkunar á valdheimildum Seðlabankans til að beita dagsektum í þeim mæli sem breytingarnar gera ráð fyrir.

Efast um lögmæti laganna

SFF telja verulegan vafa á hvort frumvarpið standist grundvallarreglur stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu sem stjórnvöld verða að hlíta þegar ný lög eru sett. Ef Seðlabankinn fær auknar valdheimildir líkt og boðað er í frumvarpinu, sem hefur áhrif á stjórnskrárvarin rétttindi lánastofnana, feli það í sér takmörkun á atvinnufrelsi og eignarrétti. Samtökin byggja þá skoðun á því, að þegar hið opinbera setur takmarkanir á stjórnarskrárvarin réttindi sé gerð sú krafa „að takmörk og umfang skerðingar komi skýrt fram í lögum og stjórnvöld hafi ekki sjálfræði um ráðstöfun á slíkum réttindum,“ eins og það er orðað. Að mati SSF er verulega óljóst í hverju valdheimildir Seðlabankans felast miðað við orðalag frumvarpsins, þar sem frumvarpið veitir bankanum nokkurt svigrúm til að setja reglur. Seðlabankinn sem eftirlitsaðili hafi ekki heimild samkvæmt stjórnarskránni til þess að setja reglur sem varða hagsmuni fjármálafyrirtækja og lánastofnana.