Clair Hún leggur upp úr því að það sé ákveðin upplifun fyrir fólk að koma inn í mixmix, að þar líði fólki vel.
Clair Hún leggur upp úr því að það sé ákveðin upplifun fyrir fólk að koma inn í mixmix, að þar líði fólki vel.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það stóð aldrei til að opna verslun, en fólk var oft að biðja mig um að redda sér einhverju sem það sá heima hjá mér, svo þetta vatt upp á sig. Á næsta ári verða tíu ár frá því ég opnaði búðina hér á Íslandi, en þá var ég enn með fyrirtæki mitt í…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það stóð aldrei til að opna verslun, en fólk var oft að biðja mig um að redda sér einhverju sem það sá heima hjá mér, svo þetta vatt upp á sig. Á næsta ári verða tíu ár frá því ég opnaði búðina hér á Íslandi, en þá var ég enn með fyrirtæki mitt í Hollandi þar sem ég tók að mér að skipuleggja viðburði og stílisera. Fyrir vikið hoppaði ég fyrst mikið á milli Íslands og Hollands, en ég er löngu hætt því,“ segir Clair Janine, hollensk kona sem flutti til Íslands fyrir tólf árum og hefur undanfarinn áratug rekið verslun sína mixmix í bílskúrnum heima hjá sér við Langholtsveg í Reykjavík. Mixmix er lífsstílsverslun með ýmsar vörur, gjafir og skreytingar fyrir heimili og garða.

„Ástin var það afl sem leiddi mig hingað í norðrið. Ég kynntist núverandi eiginmanni mínum, Óskari Sandholt, í Grikklandi á sínum tíma, en þá bjó ég í Georgíu og starfaði mikið í Aþenu. Þar rákumst við Óskar á hvort annað og með okkur tókust góð kynni sem enduðu á að við fluttum hingað. Ég kann virkilega vel við mig á Íslandi og er þakklát fyrir að búa í landi þar sem loftið er hreint og fólk býr við málfrelsi. Í því felast mikil verðmæti og forréttindi,“ segir Clair sem komst fljótt að því að það var ekki eins einfalt að starfa í öðrum löndum og áður, eftir að hún flutti til Íslands.

„Þá ákvað ég að stofna verslunina mixmix, en fyrst var allt í afar smáum stíl og ég seldi einvörðungu tyrknesk hammam-handklæði. Þá þekkti enginn hér þessi þunnu handofnu handklæði, en nú eru þau orðin mjög vinsæl og þau fást enn hjá mér. Ég byrjaði með verslunina í kjallaranum í íbúðarhúsinu okkar, en þar hafði áður verið póststöð, sú fyrsta í póstnúmeri 104, og því var sérinngangur. Ég var fyrst í tuttugu fermetra rými þar og seldi ýmsar sérvörur, tyrknesku handklæðin, sápur, ilmkerti, litla skrautmuni og barnaföt. Ýmislegt sem mér sjálfri fannst fallegt. Ég held að mixmix hafi fyrir þessum tíu árum verið ein af allra fyrstu konsept-verslunum hér á landi,“ segir Clair sem skipti barnafötunum fljótlega út fyrir matvörur og bækur. „Allar vörurnar í búðinni eru valdar með ástúð og af umhyggju og með það fyrir augum að búa til heildarmynd.“

Pappír, skæri og lím í bernsku

Að flytja verslunina yfir í bílskúrinn í stærra húsnæði var auðvelt, því þar hafði verið íbúð og til staðar var lítið eldhús og baðherbergi.

„Að komast í áttatíu fermetra var mikill munur,“ segir Clair sem hefur komið sér upp tryggum viðskiptavinahópi og orðið spyrst út.

„Ég er þakklát þeim sem láta fjölskyldu og vini vita af mixmix, því hún er í íbúðahverfi en ekki við verslunargötu,“ segir Clair sem ólst upp í skapandi fjölskyldu.

„Móðir mín var listamaður og pabbi var innanhússhönnuður og arkitekt, svo ég ólst upp við pappír, skæri og lími. Það á vel við mig að vinna með efni, liti og form, og í raun snýst búðin mín um það. Ég væri til í að sjá fleiri verslanir hér á landi með sérstöðu og sérvaldar vörur af natni,“ segir Clair sem vann við sjónvarp um tíma í Hollandi og komst þá að því hversu vel það átti við hana að finna út úr hlutum.

„Mér finnst gaman að finna vörumerki sem framleiðir fáa hluti en alveg sérstaka og heyra söguna og ástríðuna sem liggur að baki. Ég nýt þessa ferlis, að hafa uppi á fólki sem framleiðir eitthvað í smáum stíl og með sérstökum hætti, og þetta fólk þekkir oft aðra sem gera slíkt hið sama og benda mér á. Til verður tengslanet og fólki finnst virkilega gaman að ég hafi fyrir því að flytja þeirra framleiðslu alla leið til Íslands. Vörurnar hjá mér koma frá ólíkum stöðum í heiminum, til dæmis Pakistan, Tibet, Sýrlandi og Indlandi, þar sem fólk býr til dæmis til glös með því að endurvinna gler. Það skiptir mig miklu máli að taka þátt í þessari hringrás, mér finnst óhjákvæmilegt að við tökum ábyrgð á fótsporum okkar, sóunin er orðin svo mikil og við skemmum of mikið. Ég hef ekki áhuga á að vera með vörur sem eru fjöldaframleiddar, heldur eitthvað sem fólk er til dæmis að framleiða til að halda við gamalli hefð, vinnur með sjálfbæran efnivið og leggur upp úr lífrænni framleiðslu. Við erum of vel stæð til að kaupa fjöldaframleitt drasl.“

Eigum að styðja hvert annað

Clair segist leggja upp úr því að það sé ákveðin upplifun fyrir fólk að koma inn í mixmix, að þar líði fólki vel og fyllist andagift og geti átt persónulegt spjall við hana.

„Draumurinn hjá mér er að stækka og geta verið með lítið kaffihús samhliða versluninni, þar sem fólk drekkur úr glösum og borðar af diskum sem það getur síðan keypt í búðinni. Sama mundi eiga við um tónlistina sem hljómar í búðinni eða bækurnar sem fólk les á kaffihúsinu,“ segir Clair sem hefur mikinn áhuga á að halda viðburði í tengslum við verslun sína og hún hefur verið með sumarviðburði og vetrarviðburði þar sem hún fær tónlistarfólk til að koma og spila í bakgarðinum þar sem hún býður fólki að smakka ýmislegt sem fæst í versluninni.

„Mig langar líka að bjóða fólki að smakka til dæmis osta, pyslur og hunang frá íslenskum smáframleiðendum. Mér finnst áríðandi að fólk úr ólíkum áttum komi saman og kynnist og hafi áhrif hvert á annað. Það er svo gaman að kynnast nýju fólki og því sem það er að gera. Við eigum að styðja hvert annað, mannfólkið, og deila hvert með öðru.“

Auk þess að reka verslun sína mixmix í bílskúrnum heima hjá sér starfar Clair fyrir eigendur húsnæðisins sem er við Gullfoss í Biskupstungum, verslun og veitingastað. Þar sem næstum allir ferðamenn koma við.

„Ég sé um að hanna allt þar inni, útlit og aðkomu og velja inn vörur, og nú er verið að stækka húsnæðið. Þar fyrir utan tek ég að mér að stílisera og hanna viðburði fyrir hvern sem þess óskar, brúðkaup og aðrar veislur, til dæmis matarboð þar sem fólk langar að hafa ákveðið þema, þá skapa ég það,“ segir Clair sem væri til í að blogga meira og skrifa meira, en hún er með blogg á vefsíðu verslunarinnar: mixmix.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir