— Morgunblaðið/sisi
Hagstæð tilboð bárust í brúarsmíði á Vestfjörðum í seinni tilraun Vegagerðarinnar. Tiboð í fyrra útboðinu voru talin of há, var þeim því hafnað og verkið auglýst að nýju. Hundruðum milljóna munaði á lægstu tilboðum í útboðunum tveimur

Hagstæð tilboð bárust í brúarsmíði á Vestfjörðum í seinni tilraun Vegagerðarinnar. Tiboð í fyrra útboðinu voru talin of há, var þeim því hafnað og verkið auglýst að nýju. Hundruðum milljóna munaði á lægstu tilboðum í útboðunum tveimur.

Hinn 19. desember voru opnuð tilboð í smíði veggja steinsteyptra eftirspenntra 34 metra plötubrúa yfir Fjarðarhornsá og Skálmardalsá, ásamt vegagerð við hvora brú fyrir sig, samtals um 1,8 kílómetrar. Brýrnar eru beggja vegna Klettsháls.

Sex tilboð bárust. Það lægsta átti VBF Mjölnir ehf. á Selfossi, krónur 790.574.090. Var það 95% af áætluðum verktakakostnaði, sem var tæpar 828 milljónir.

Þotan ehf. í Bolungarvík átti næstlægsta boðið, 862 milljónir. Hæsta boðið áttu Íslenskir aðalverktakar hf. í Reykjavík, tæpar 1.156 milljónir.

Vegagerðin bauð verkið fyrst út 13. október sl. og voru tilboð opnuð 7. nóvember. Þrjú tilboð bárust, öll vel yfir kostnaðaráætlun. Eykt ehf. í Reykjavík átti lægsta tilboðið, krónur 1.129.936.429. Var það 57% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Sérfræðingar Vegagerðarinnar fóru yfir tilboðin og var ákveðið að hafna þeim öllum. Munurinn á tilboðum Eyktar og Mjölnis reyndist vera tæpar 340 milljónir króna.

Verkinu skal að fullu lokið eigi síðar en 1. desember 2025. sisi@mbl.is