Ingibjörg Gísladóttir
Ingibjörg Gísladóttir
Breska lögreglan meðhöndlar borgarana ekki jafnt. Pólitískir sérhagsmunahópar, s.s. íslamistar, BLM og loftslagsaðgerðasinnar, fá sérmeðferð.

Ingibjörg Gísladóttir

Fyrir ekki svo löngu var ímynd bresku lögreglunnar vinalegur, vopnlaus náungi er gekk um á meðal almennings en það hefur heldur betur breyst.

Er Suella Braverman, fyrrverandi innanríkisráðherra Breta, lét nýlega í ljós þá skoðun sína að mismunandi hópar fengju mismunandi meðferð hjá lögreglu landsins þá var henni ýtt til hliðar og James Cleverly kallaður inn.

Suella benti á að hópum sem gengið hafa um göturnar til stuðnings íbúum Gasa hefur leyfst að gera hvað sem er, svo sem að kalla eftir jíhadi gegn gyðingum og láta í ljósi vanvirðingu sína á breskri sögu með því að klifra á minnismerkjum og styttum og ata þær málningu. Mismununin er þó mun víðtækari.

„Woke“ löggæsla

Eins og Laura Dodsworth lýsir í greinum sínum í Spiked þá var tekið á móti friðsömum mótmælendum covid-lokananna í Bretlandi með fjöldahandtökum og af fullri hörku í skrúða óeirðalögreglunnar. Hins vegar var tekið á Black Lives Matter-mótmælendum með silkihönskum á sama tíma og umhverfissinnunum í Just Stop Oil hefur leyfst að stöðva umferð langtímum saman.

Um þúsund manna hópi lögreglunnar var falið að fylgjast með skrifum á netmiðlum og skrá alla hatursorðræðu gegn sjálfsmyndarhópum, þótt hún væri ekki refsiverð að lögum, og menn voru hvattir til að tilkynna upplifun sína af óvild sökum kynhneigðar, trúar, fötlunar o.s.frv.

Kristnir fá sérmeðferð

Lögreglan hefur kristna predikara í sigtinu og eru þeir gjarnan handteknir fyrir að boða Orðið. Svartur predikari fékk bætur fyrir að hafa verið handtekinn árið 2019, ásakaður um rasisma og íslamófóbíu. Biblía hans var gerð upptæk.

Dan Wootton á GB News hefur fjallað um mál kristna predikarans Hatun Tash sem hefur tvisvar sinnum verið handtekin ólöglega í Hyde Park því predikanir hennar hafa valdið óróa meðal múslima þar og rithöfundurinn Douglas Murray sagði í nýlegu viðtali við Ritu Panahi á áströlsku Sky News-fréttastöðinni að lögreglan hefði áreitt kristna konu sem baðst hljóðlaust fyrir nálægt fóstureyðingastöð en létist ekki sjá skeggjaða múslima er kölluðu eftir jíhadi og herkvaðningu múslima gegn vantrúuðum á heimsvísu.

Virðingarleysi við innfædda

Á minningardegi hermanna, hinn 11.11. síðastliðinn, átti að banna mönnum að ganga að minnismerki um fallna hermenn í London (nefnist Cenotaph og var reist eftir fyrra stríð) því ganga til stuðnings Gasabúum átti að fara fram á sama tíma. Að sjálfsögðu létu fyrrverandi hermenn ekki bjóða sér það, mynduðu fleyg og ruddu lögreglumönnunum til hliðar og stóðu í nokkrar mínútur þegjandi við minnismerkið til að votta föllnum virðingu sína.

Maður gagnrýninn á íslam handtekinn en Hamas-leiðtogi ekki

Hinn 25. nóvember gengu um 100.000 manns gegn gyðingahatri í London. Allt fór það friðsamlega fram fyrir utan að Tommy Robinson, yfirlýstur stuðningsmaður Ísraelsríkis, var handtekinn og gefið að sök að valda mönnum ótta og kvöl með nærveru sinni. Hann reyndi að vísa í að hann væri mættur þar sem fréttamaður á vegum Urban Scoop og ætti að njóta verndar sem slíkur en um 20 manna hópur leiddi hann í burtu og táragasi var úðað í augu hans.

Hamas-leiðtoginn Muhammad Qassem Sawalha, sem flúði til Bretlands fyrir aldamótin og er sagður halda áfram að vinna fyrir Hamas, er hins vegar ekki handtekinn þótt hann mæti í Gasagöngurnar. Skyldi það ekki valda einhverjum ótta og kvöl að sjá hann ganga um götur Lundúna í hópi er kallar eftir jíhadi gegn gyðingum og kyrjar „frá ánni til sjávar …“, vísun í sáttmála Hamas frá 2017 – ósk um eyðingu Ísraelsríkis.

Hvað með Ísland?

Íslenska lögreglan virðist enn ekki orðin smituð af þessari hugmyndafræði um skiptingu fólks í kúgara og kúgaða sem ekki skuli meðhöndla jafnt en hana má samt greina víða í samfélaginu. Hið hvíta, gagnkynhneigða, kapítalíska „feðraveldi“ (sem gyðingar eru sagðir tilheyra) er gert ábyrgt fyrir öllu sem aflaga fer: undirokun minnihlutahópa, hlýnun jarðar, nýlendustefnu og arðráni mannfólks, náttúru og dýra.

Skoða má eftirlátssemi kerfisins við Samtökin '78, femínista, Landvernd og þá sem kalla eftir opnum landamærum sem þjónkun við nýmarxismann. Hið sama á við um loftslagsskattana sem okkur er ætlað að borga þótt við stöndum fremst þjóða í notkun endurnýjanlegrar orku.

Þessi hugmyndafræði sem breska lögreglan hefur tileinkað sér, að réttindi manna ákvarðist af því hvaða sjálfsmyndarhópi þeir tilheyri, er bæði skaðleg og heimskuleg og veldur óhjákvæmilega sundrung innan hvaða þjóðfélags sem er.

Höfundur starfar við umönnun aldraðra.

Höf.: Ingibjörg Gísladóttir