Starfsstöð Útfararþjónusta Hafnarfjarðar getur tekið á móti 20 látnum einstaklingum á hverjum tíma.
Starfsstöð Útfararþjónusta Hafnarfjarðar getur tekið á móti 20 látnum einstaklingum á hverjum tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is „Það er mjög einföld lausn á þeim vanda sem nú virðist kominn upp hjá kirkjugörðunum. Þeir þurfa ekki að reka líkhúsið í Fossvogi og reyndar er ég á þeirri skoðun að þeir eigi alls ekki að standa í slíkum rekstri.“ Þetta segir Hálfdán Hálfdánarson, útfararstjóri sem á og rekur Útfararþjónustu Hafnarfjarðar ásamt konu sinni og Frímanni Andréssyni. Þau búa öll yfir áratugareynslu á sviði útfararþjónustu.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

„Það er mjög einföld lausn á þeim vanda sem nú virðist kominn upp hjá kirkjugörðunum. Þeir þurfa ekki að reka líkhúsið í Fossvogi og reyndar er ég á þeirri skoðun að þeir eigi alls ekki að standa í slíkum rekstri.“ Þetta segir Hálfdán Hálfdánarson, útfararstjóri sem á og rekur Útfararþjónustu Hafnarfjarðar ásamt konu sinni og Frímanni Andréssyni. Þau búa öll yfir áratugareynslu á sviði útfararþjónustu.

Með orðum sínum bregst Hálfdán við bréfi sem Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma (KGRP), sendi m.a. útfararstofum fyrr í vikunni og benti á að starfsemi stofnunarinnar í Fossvogi væri komin til ára sinna og að gamall kælibúnaður gæti brugðist hvenær sem er. Ekki væri til fjármagn til þess að bæta úr því.

Stefndi í mikið óefni

„Við sáum fyrir allnokkrum árum að það stefndi í mikið óefni í þessu. Líkhúsið í Fossvogi er alltof lítið og þar þyrpast allar útfararstofurnar að án þess að greiða nokkurt gjald fyrir aðstöðuna. Í raun getur líkhúsið þar ekki annað miklu meira en einfaldlega þeim kistum sem bíða bálfarar en það þrengir sífellt að hinum,“ útskýrir Hálfdán.

Segir hann að þetta hafi leitt til þess að fyrirtæki hans ákvað að koma sér upp eigin líkhúsi til þess að tryggja viðskiptavinum sínum fullnægjandi þjónustu.

„Við leituðum tilboða í sérhæfðan kælibúnað frá Spáni, Ítalíu og Englandi. Forsvarsmenn Kirkjugarða Hafnarfjarðar buðu okkur þá að kaupa búnaðinn úr líkhúsinu sem þeir hafa rekið síðustu áratugi en hafa nú gefist upp á að gera. Þeir sáu sem var að lögum samkvæmt ber kirkjugörðunum ekki að standa að þessari þjónustu og fóru því þá leið sem t.d. Kirkjugarðarnir á Akureyri virðast ætla að fara núna með því að selja frá sér aðstöðuna.“

Samkeppnisskekkja

Hálfdán segir að nú sé fyrirtæki hans sjálfbært þegar kemur að þessum þætti þjónustunnar en þá skjóti mjög skökku við að önnur fyrirtæki á þessu sviði geti nýtt aðstöðuna í Fossvogi sér að kostnaðarlausu. Það eigi meðal annars við um stærstu útfararstofuna, Útfararstofu kirkjugarðanna, sem er í eigu KGRP.

Spurður hvort það fyrirkomulag sem hann og samstarfsfólk hans hafi komið upp sé ekki til kostnaðarauka fyrir viðskiptavini segir hann að svo sé hreint ekki.

„Við höfum gert samanburð á verðinu hjá okkur og þeim sem eru í samkeppni við okkur. Útfarargjaldið hjá okkur er 165.000 kr. í dag en hjá samkeppnisfyrirtækjunum er þetta gjald hins vegar allt að 220.000 kr.“

Hálfdán segir að fyrirkomulag á rekstri líkhúsa eins og við horfum upp á í dag sé barn síns tíma. Miklu eðlilegra sé að útfararstofurnar sinni þessu sjálfar eins og tíðkist víðast hvar erlendis.

„Þetta er allt að fara í þessa átt. Og þetta mun kalla á að fyrirtækin séu öflug og stór. Þetta er ekki á færi þeirra sem sinna þessu sem einyrkjar enda er fjárfestingin talsverð og það þarf ákveðin umsvif til þess að þetta reikningsdæmi gangi upp,“ segir Hálfdán.

Tvöfalda aðstöðuna

Aðstaðan sem Útfararþjónusta Hafnarfjarðar hefur komið upp getur þjónustað 20 látna einstaklinga á hverjum tíma.

„Við hugsum þetta aðeins fyrir okkar skjólstæðinga. Við erum ekki að opna á þessa þjónustu fyrir aðrar útfararstofur. Og við erum reyndar nú þegar farin að huga að því að auka við hjá okkur. Það er ekki vanþörf á því,“ segir Hálfdán.

Hann telur litlar líkur á að vandi líkhúss Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma verði leystur. Erfitt sé reyndar að gera sér grein fyrir hvernig rekstrinum sé haldið gangandi þar sem KGRP er ekki heimilt að rukka aðstandendur um líkhúsgjald.

„Maður skynjar það á framgöngu yfirmanna þar, sem lýsa þeim vanda sem sannarlega er kominn upp, að markmiðið er að þrýsta á um meiri opinber framlög. En það er einfaldlega ekki lausnin. Við höfum sýnt það að útfararstofurnar geta sinnt þessu sjálfar og án þess að til þurfi að koma sérstakt gjald eins og talað er um að leggja á útfararstofur sem nýta sér þjónustuna í Fossvogi.“

Algjör stöðnun

Árið 2006 komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að líkhús KGRP mætti ekki rukka aðstandendur látinna einstakinga um sérstakt líkhúsgjald. Síðan þá hefur stofnunin ekki þorað að hreyfa við möguleikanum á gjaldtöku og á sama tíma hefur lítið sem ekkert verið gert til að uppfæra búnaðinn sem starfsemi líkhússins byggist á eða auka við afkastagetu þess, jafnvel þótt Íslendingum hafi fjölgað um ríflega 90 þúsund frá því að umboðsmaður komst að sinni niðurstöðu fyrir 17 árum.

Höf.: Stefán E. Stefánsson