Guðmundur Arason fæddist á Grýtubakka í Höfðahverfi 11. desember 1935. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sléttunni 10. desember 2023.

Foreldrar hans voru Ari Bjarnason, f. 1893, d. 1965, og Sigríður Árnadóttir, f. 1896, d. 1941.

Systkini Guðmundar voru: Elín, f. 1918, d. 2000; Bjarni, f. 2021, d. 2011; Árni, f. 1923, d. 1999; Arnbjörg, f. 1925, d. 2002; Steingrímur, f. 1927, d. 2004, og Snjólaug, f. 1929, d. 2015.

Guðmundur kvæntist 25. ágúst 1962 Sigrúnu Sigurðardóttur frá Úthlíð, f. 27. febrúar 1937. Foreldrar hennar voru Sigurður Tómas Jónsson, f. 1900, d. 1987, og Jónína Þorbjörg Gísladóttir, f. 1909, d. 1979.

Börn Guðmundar og Sigrúnar: 1) Arna Sigríður, f. 1964; gift Birni Stefánssyni. Dætur þeirra eru Þórdís og Valgerður. Fyrir átti Björn dótturina Heiði Margréti. 2) Haukur, f. 1967; kvæntur Kristínu Egilsdóttur. Börn þeirra eru Guðmundur, Bjarnþóra og Sigrún Snæfríður. 3) Jónína Þorbjörg, f. 1972; gift Þorsteini Yngvasyni. Dóttir þeirra er Hulda. Langafabörnin eru fjórar dætur þeirra Þórdísar og Heiðar.

Guðmundur tók landspróf frá Laugum í Reykjadal 1954 og stundaði búfræðinám við norskan landbúnaðarskóla veturinn 1955. Hann útskrifaðist frá Menntaskólanum á Akureyri 1959 og lauk síðan námi í byggingarverkfræði frá Norges Tekniske Høgskole í Þrándheimi árið 1963.

Guðmundur hóf störf hjá Vegagerð ríkisins 1963 og vann þar óslitið í 40 ár, m.a. sem umdæmisverkfræðingur Norðurlands og á brúar-, áætlunar- og framkvæmdadeildum. Í gegnum störf sín hjá Vegagerðinni tók hann virkan þátt í norrænu samstarfi og sótti fjölmarga fundi og ráðstefnur erlendis. Frá 1982 var hann prófdómari í vegagerð hjá Tækniskóla Íslands.

Guðmundur var um árabil félagi í Rotaryklúbbi Kópavogs. Hann stundaði reglulega íþróttir, m.a. badminton, sund, gönguskíði og golf, auk þess að spila bridge í yfir 50 ár.

Útförin fer fram frá Digraneskirkju í dag, 21. desember 2023, klukkan 15.

Þegar ég var yngri var ég sannfærð um að ég ætti besta pabba í heimi.

Ég minnist þess hvað hann átti endalausan tíma og þolinmæði fyrir okkur systkinin. Hann var óþreytandi að lesa, spila og púsla með okkur auk þess sem hann átti alltaf hlýjan faðm sem gott var að skríða upp í. Morgnarnir voru okkar pabba, þegar mamma fékk að sofa út um helgar ásamt eldri systkinunum. Þá var spjallað yfir heitu kakói eða spilað rommí upp í 100.

Þegar mamma tók stúdentsprófið samhliða vinnu fór pabbi að taka virkari þátt í heimilishaldinu, eldaði og þreif og var þannig að sumu leyti á undan sinni samtíð. Hann fléttaði líka á mér hárið fyrir skólann, sem ég man að vakti undrun vinkvennanna á sínum tíma. Þegar ég þroskaðist kenndi hann mér líka að skipta um dekk og rafmagnsklær, enda mikilvægt að verða ekki upp á aðra komin og geta bjargað sér.

Pabbi hvatti okkur systkinin til að mennta okkur og lagði sitt af mörkum til að tryggja að við hefðum grunninn sem þurfti til. Mikið var lagt upp úr lestri og vikulegar bókasafnsferðir tryggðu að alltaf var nóg af spennandi lesefni. Hann studdi okkur einnig í náminu, enda ekki amalegt að taka upp stærðfræðina við eldhúsborðið með honum. Þau mamma sköpuðu okkur ómetanlegan grunn og öryggisnet sem maður áttar sig seinna á að skiptir sköpum til að blómstra í lífinu.

Hann naut lífsins á sinn rólega og hógværa hátt, myndaði traust vinasambönd og fann gleðina í því að hreyfa sig daglega. Þau mamma áttu fallegt og samrýmt hjónaband og hann var endalaust stoltur af henni. Stundum var jafnvel erfitt að taka fjölskyldumyndir án þess að hann horfði á hana með aðdáunarsvip. Þessi aðdáun átti svo enn eftir að aukast á efri árunum, þegar hann smám saman missti færni en mamma efldist og bætti við sig hverju verkefninu á fætur öðru.

Það er með djúpu þakklæti sem ég kveð minn besta pabba í heimi og þakka honum fyrir hans endalausu ást og stuðning í gegnum lífið.

Jónína Guðmundsdóttir.

Ég kynntist tengdafjölskyldu minni þegar ég kynntist Hauki, tvítug að aldri. Þá hélt ég að ég væri einungis að velja lífsförunaut en hafði aldrei leitt hugann að því hve tengdafjölskyldan myndi skipta miklu máli um alla framtíð. Frá fyrsta degi tók Guðmundur vel á móti mér og aldrei fann ég annað en velvild og hlýju frá honum. Betri tengdapabba hefði ég ekki getað eignast.

Það kom fljótt í ljós að venjurnar í fjölskyldu eiginmannsins voru ólíkar því sem ég átti að venjast. Þegar við Haukur hittumst á aðfangadagskvöld fyrstu jólin okkar saman, eftir að hafa farið í mat til foreldra okkar, þá sagði Haukur mér með glampa í augunum að pabbi hans ætlaði að bjóða börnunum á jólateiknimyndina á annan í jólum. Ég velti fyrir mér hvaða börn hann væri að tala um, þau systkinin væru öll í kringum tvítugt. Það hafði verið hefð á jólunum að fara í bíó og sjá jólateiknimynd með Guðmundi, það breyttist ekki þó börnin væru flutt að heiman. Ég var dálítið hissa, en skildi betur síðar að engan langaði til að vaxa upp úr samverustundum af þessu tagi. Eftir því sem ég kynntist Guðmundi betur kom í ljós hve barngóður hann var. Hann veitti 100% athygli þegar sóst var eftir henni. Þegar börnin þau voru ungbörn sat hann gjarnan með þau í fanginu, taldi upphátt allar tær og alla fingur, þegar þau stækkuðu sat hann með þau og las fyrir þau. Þegar við renndum í gegnum myndaalbúmin þá voru ófáar myndir af barnabörnunum í fanginu á afa sínum eða af honum að spila við þau eða leika við börnin. Hann talaði ætíð um gullin sín.

Guðmundur tranaði sér aldrei fram, en hann var alltaf til staðar. Það gilti það sama gagnvart fullorðnum og börnum, það fengu allir fulla athygli. Ég heyrði hann aldrei hallmæla neinum. Hann var næmur á aðstæður og náði að lýsa aðstæðum með einstökum hætti og hjá okkur lifa ýmis orðasambönd sem frá honum eru komin. Eitt lýsir þeirri stöðu þegar börnin og barnabörnin bjuggu erlendis og voru að koma til Íslands í frí. „Það er svo gott þegar allir verða tvisvar fegnir.“ Þessi setning lýsir með svo fallegum hætti hvernig best er að njóta samverustundanna með sínu fólki til hins ýtrasta og hve mikilvægt það er fyrir alla að verða glaðir og ánægðir með að komast aftur í rútínuna sína.

Guðmundur var sérstaklega bóngóður, en um leið alveg óvenjulega laus við alla tilætlunarsemi í garð annarra og þetta voru eiginleikar sem hann deildi í ríkum mæli með Sigrúnu. Hann hjálpaði okkur hjónunum hvort sem var við framkvæmdir og flutninga eða við barnagæslu, án þess að honum virtist nokkru sinni detta það í hug að við gætum kannski aðstoðað við eitthvað. Það var ekki einu sinni í boði að taka þátt í frágangi eftir sunnudagsmatinn eða Hrauntungudinner eins og hann var jafnan kallaður. Það var hins vegar í boði að fá augnháralitun hjá tengdapabba eftir matinn.

Það er yndislegt að upplifa að sumir þessara dýrmætu eiginleika Guðmundar hafa borist áfram til barna hans og barnabarna. Þannig sé ég hann lifa áfram í fjölskyldunni.

Blessuð sé minning Guðmundar Arasonar.

Kristín Egilsdóttir.

Nú er látinn nær 88 ára að aldri eftir talsvert erfið veikindi Guðmundur Arason verkfræðingur. Hann var móðurbróðir undirritaðs, yngstur af sjö systkinum, sem nú eru öll látin, en í röðinni var móðir mín elst. Af þeim öllum náði Bjarni Arason hæstum aldri, varð 89 ára. Skírnarnafn Guðmundar var líklega sótt í föðurætt ömmu hans á Grýtubakka, Snjólaugar Sigfúsdóttur á Varðgjá Guðmundssonar.

Guðmundur var aðeins fimm ára að aldri þegar Sigríður móðir hans lést úr illvígum heilasjúkdómi. Faðir hans kvæntist aftur en Guðmundur mun ekki hafa sætt sig vel við stjúpmóður sína. Um 1951-52 flutti Guðmundur til foreldra minna að Brún í Reykjadal og átti þar lögheimili um nokkurt skeið. Guðmundur var ekki nema tæplega sex árum eldri en ég og virkaði því nánast eins og eldri bróðir á heimilinu. Hann gerðist um skeið foringi í leikjum okkar systkinanna, og var m.a. reynt að stunda ýmsar frjálsíþróttagreinar, svo sem hlaup, langstökk og kúluvarp. Um þetta leyti höfðu Íslendingar átt ýmsa afreksmenn í þessum íþróttum, sem hafði sín áhrif. Einnig grunar mig að hann hafi kennt okkur að hjóla. En Guðmundur dvaldi í rauninni ekki langdvölum á Brún, heldur fór hann til náms í Laugaskóla og lauk þaðan landsprófi. Á sumrin stundaði hann vinnu eins og skólapiltar gerðu á þessum tíma, m.a. mun hann hafa verið í vegavinnu.

Eftir stutta dvöl í Noregi settist Guðmundur í Menntaskólann á Akureyri í ársbyrjun 1956. Þaðan lauk hann stúdentsprófi 1959 og síðasta veturinn þar gerði Þórarinn Björnsson skólameistari hann að inspector scholae, enda var Guðmundur hvarvetna vinsæll og vel metinn. Sama ár og hann brautskráðist varð ég nemandi við skólann og hlaut að erfðum útvarpstæki sem Guðmundur frændi hafði áður notað, og kom það sér vel.

Guðmundur stundaði síðan nám í Niðarósi og lauk þaðan verkfræðiprófi. Hann gerist þá fyrst starfsmaður Vegagerðarinnar á Norðurlandi og síðar í Reykjavík.

Guðmundur settist að í Kópavogi ásamt Sigrúnu Sigurðardóttur konu sinni. Hjónaband þeirra var mjög gott, enda var hann einstaklega umhyggjusamur fjölskyldufaðir. Ég kom stöku sinnum til þeirra þar, og eitt sinn hafði hann orð á því að hann teldi ábyrgð sína á börnunum mikla og sér bæri að halda heilsu og kröftum nógu lengi til að geta komið þeim vel upp og til mennta, sem tókst með ágætum. Seinna kom ég sem gestur á fund í Rótarý-klúbbi Kópavogs og hitti þar fyrir Guðmund sem tók mér með miklum ágætum, en hann var þarna vel virkur félagi.

Guðmundur Arason var einstakur heiðursmaður sem mátti í engu vamm sitt vita. Guð blessi minningu hans. Sigrúnu og afkomendum þeirra eru hér með sendar innilegar samúðarkveðjur.

Björn Teitsson.

Við minnumst föðurbróður okkar, Guðmundar Arasonar verkfræðings, með mikilli hlýju og virðingu.

Það var mikill aldursmunur á þeim bræðrum, Bjarna föður okkar og Guðmundi, en alltaf sterk tengsl og vinskapur og það var mikill samgangur á milli fjölskyldnanna. Guðmundur var hægur, fróður og víðsýnn. Þá var hann ávallt jákvæður í garð annarra og talaði ekki illa um nokkurn mann. Hann hafði myndað sér djúphugsaðar skoðanir á flestum málum og oftar en ekki kom hann með ný og rökstudd sjónarhorn. Guðmundi var auðið að ræða málefni af hæglæti og virðingu en með djúpri þekkingu og skilningi. Grunnt var þó alltaf á fína glettni og gamansemi.

Ekki er hægt að tala um Guðmund án þess að minnast á Sigrúnu konu hans en þau voru ólík en einstaklega samrýnd. Sigrún hugsaði svo vel og fallega um Guðmund í veikindum hans að unun var að fylgjast með.

Við sendum Sigrúnu og fjölskyldunni allri samúðarkveðju og erum þakklát fyrir að hafa notið samveru með Guðmundi frænda og hans fjölskyldu. Minningar um hann rista djúpt.

Haraldur, Sigríður og Ari.

Haustið 1959 lágu leiðir okkar Guðmundar fyrst saman í Þrándheimi, þar sem hann var að hefja nám í byggingarverkfræði og ég í Tækniskólanum. Við áttum það í upphafi sameiginlegt að vera tveir norðlenskir sveitapiltar. Þrándheimur var mikill skólabær og þangað flykktust nemendur víðsvegar að og erfitt var að verða sér úti um húsnæði. Guðmundur hafði fengið inni á stúdentagörðunum, en var ekki að öllu leyti ánægður þar.

Við tókum tal saman og ákváðum að auglýsa, í bæjarblaðinu Adress Avisen, eftir lítilli tveggja herbergja íbúð fyrir tvo íslenska námsmenn. Það bar strax árangur, fljótlega fengum við litla tveggja herbergja íbúð í nýju húsi í úthverfi bæjarins. Þarna undum við okkur vel og bjuggum saman í tvo vetur. Eigendurnir höfðu þann sið að leggja sig að loknum vinnudegi og fóru þess vegna fram á það að við hefðum hljótt á meðan. Okkar sambúð gekk í alla staði vel. Það var reyndar ekki um mikla eldamennsku að ræða. Við borðuðum alltaf aðalmáltíðina á matsölustað Hotel Bondeheimen, en snörluðum svo heima á kvöldin. Oft var gestkvæmt hjá okkur. Íslendingar sem voru einnig við nám í Þrándheimi komu stundum í heimsókn og þá var glatt á hjalla. Kolbrún Ragnarsdóttir vinkona okkar, sem var við arkitektanám í Þrándheimi, og ein af gestunum, bakaði gjarnan pönnukökur eða vöfflur handa okkur og gestunum, sem alltaf féll í góðan jarðveg.

Þegar ég lauk námi tveimur árum seinna var Sigrún komin til sögunnar og hófu þau sinn búskap í Þrándheimi. Að loknu námi fluttu þau heim. Guðmundur hóf þá störf hjá Vegagerðinni þar sem hann vann æ síðan. Þau bjuggu fyrst um sinn í Austurbrún, en fluttu síðar í Kópavog þar sem þau bjuggu alltaf eftir það. Við heimsóttum þau fljótt í Austurbrúnina og það tókst strax góður vinskapur með okkur þessum tvennum hjónum. Þau kunnu vel að taka á móti gestum, voru alltaf svo viðræðugóð og okkur skorti aldrei umræðuefni. Ógleymanleg eru öll gamlárskvöldin, sem við áttum saman í rúm 60 ár, fyrst með börnum okkar og þegar þau uxu úr grasi, þá aðeins við fjögur. Þau komu sér upp reisulegum sumarbústað í landi Úthlíðar, þaðan sem Sigrún er ættuð, og þar nutum við gestrisni þeirra. Seinna myndaðist góður hópur fyrrverandi Þrándheimsnema og eiginkvenna þeirra, 10 manns í allt. Við ferðuðumst víða saman og áttum líka notalegar og huggulegar stundir yfir girnilegum mat á heimilum okkar.

Guðmundur hafði einkar ljúfa lund og var afar þægilegur í viðmóti. Síðustu ár voru honum nokkuð mótdræg þar sem hann átti við heilsuleysi að stríða, en naut góðrar umönnunar fjölskyldunnar. Með þessum orðum viljum við þakka þeim Guðmundi og Sigrúnu fyrir einstaklega gefandi og trygga vináttu.

Sveinbjörn Sigurðsson,
Véný Lúðvíksdóttir.

Í dag kveðjum við gömlu vinirnir Guðmund Arason, enn einn bekkjarfélaga okkar úr MA og á kveðjustund sem þessari reikar hugurinn til áranna fjögurra í heimavist MA 1955-1959 þar sem við ólum hvert annað upp og hver og einn lagði fram þann manngildissjóð sem honum fylgdi úr heimahúsum. Á mótunarárum sem þessum reynir á að vandaðir, sterkir og góðir stofnar ráði stefnunni og móti atferli og þroska og þannig finnst mér einmitt að hafi verið með þennan hóp okkar og þar átti Guðmundur drjúgan hlut að máli.

Guðmundur Arason var yngstur sjö systkina, sem nú eru öll látin. Hann var af eyfirskum og þingeyskum ættum kominn og nokkrum árum eldri en við flest, fullorðinslegur í orði og æði. Hann var alltaf í góðu skapi og jákvæður í hugsun, vandaður ungur maður, sem ávann sér virðingu og vináttu bekkjarsystkina sinna, lærifeðra og annarra sem kynntust honum. Guðmundur var skarpgreindur og góður námsmaður, drengur góður og glaðsinna, samviskusamur, hæglátur, traustur vinur og félagi.

Vinabönd verða til á þessum árum, styrkjast og endast ævilangt og þannig varð tenging og samkennd okkar MA-59-félaganna til og hún er enn sterk í huga okkar.

Við vorum samtals 67 í árganginum sem útskrifaðist frá MA á stórhríðardaginn mikla, 17. júní 1959. Eftir myndatökuna, sem vegna óveðursins fór fram í gamla íþróttahúsi skólans, skildust leiðir um sinn, en vináttan til skólans okkar og gömlu skólafélaganna þar lifði í hjarta okkar. Glaðar og bjartar minningar voru að baki, um félaga og vini sem við höfðum kynnst, átt samleið með fáein æskuár í námi, starfi og leik og bundist þeim böndum vináttu og félagsskapar, sem traustast eru knýtt í lífinu, en það er einmitt á þessum árum ævinnar sem þau verða til. Vinaböndin voru og eru tengd áfram, náin og sterk á langri ævi okkar.

Guðmundur nam byggingarverkfræði hjá frændum okkar í Noregi og var að námi loknu ráðinn til Vegagerðarinnar, þar sem hann vann til aldursstarfsloka. Hópurinn okkar hefur alla tíð haldið einstaklega vel saman, við höfum farið árlega með mökum okkar í dagsferðalag og í áratugi hafa þeir sem áhuga og getu hafa hverju sinni mætt á vikulega kaffifundi MA-59. Guðmundur lét sig sjaldan vanta á þessa samfundi okkar meðan heilsa hans leyfði.

Síðustu árin var greinilega farið að draga af Guðmundi og loks gat hann ekki lengur mætt í hópinn sinn. Við fylgdumst döpur með hrakandi heilsu hans og svo fór að hann varð að lúta í lægra haldi. Það er skammt stórra högga á milli en Guðmundur er sá fjórði úr hópnum okkar sem látist hefur á þessu ári sem er að líða, en alls eru núna 30 bekkjarfélaganna látnir. Við verðum að sætta okkur við það að svona er gangur lífsins, en þessara kæru félaga er sárt saknað af gömlu vinunum.

Við gömlu félagarnir úr MA vottum Sigrúnu Sigurðardóttur ekkju Guðmundar Arasonar og fjölskyldunni innilega samúð okkar, þökkum Guðmundi gefandi samveru og löng og góð kynni og geymum hlýjar minningar um góðan vin.

Skúli Jón Sigurðarson.

Kynni okkar Guðmundar Arasonar hófust þegar við hófum nám í Menntaskólanum á Akureyri 1955 og urðum síðan bekkjarbræður í stærðfræðideild skólans. Hann var ágætur námsmaður og valdist gjarnan til umsjónar og forystu í bekknum, síðasta árið var hann inspector scholae og fórst það vel úr hendi. Við vorum báðir í heimavistinni og þarna bundust vináttubönd sem héldust alla tíð síðan. Að loknu stúdentsprófi 1959 tvístraðist hópurinn eins og gengur en margir úr stærðfræðideildinni héldu til náms erlendis haustið 1959. Guðmundur hélt til Þrándheims í tækniháskólann, NTH, og lauk námi í byggingarverkfræði 1963 og hóf þá störf hjá Vegagerðinni. Ég kom til starfa hjá Vegagerðinni eftir að ég lauk verkfræðinámi árið 1964 og vorum við Guðmundur samstarfsmenn þar allt þar til að Guðmundur lét af störfum árið 2003. Störf Guðmundar hjá Vegagerðinni voru margvísleg. Hann vann við vega- og brúahönnun, skipulagsmál og var um tíma umdæmisverkfræðingur á Norðurlandi. Lengst var hann þó yfirverkfræðingur á brúadeild Vegagerðarinnar og forstöðumaður þeirrar deildar. Guðmundur var frábær samstarfsmaður, við unnum saman að hönnun, áætlunum og ástandsmati á vegakerfinu. Því fylgdu oft töluverð ferðalög sem stundum gátu verið strembin en voru alltaf ánægjuleg og sum ógleymanleg.

Utan starfs voru samskiptin við Guðmund og Sigrúnu hans ágætu eiginkonu ekki síður ánægjuleg, minnisstæð er bílferð um Þýskaland ásamt Eymundi samstarfsmanni okkar og hans konu. Ekki síður minnisstæðar eru ótal sumarferðir vítt og breitt um landið með hópi samstarfsfólks. Fyrir fimmtíu árum hófum við að spila bridge ásamt bekkjarbræðrum okkar Birni Dagbjartssyni og Júlíusi Stefánssyni. Við spiluðum hálfsmánaðarlega yfir veturinn til skiptis heima hjá hver öðrum í áratugi meðan heilsa og þrek leyfði. Nú er sögnum lokið í spilaklúbbnum og við þrír sem eftir sitjum minnumst spilakvöldanna með þökk og eftirsjá.

Með Guðmundi er genginn traustur vinur og samstarfsmaður sem ég kveð með söknuði og þakklæti. Við Ásdís sendum Sigrúnu og börnum þeirra Guðmundar innilegar samúðarkveðjur.

Jón Rögnvaldsson.