Sigríður Zophoníasdóttir fæddist 15. febrúar 1934. Hún lést 4. desember 2023. Útför hennar fór fram 18. desember 2023.

Enn fækkar fólkinu sem bjó á Eiðum eftir miðja síðustu öld þegar Sigríður Zóphoníasdóttir er fallin frá. Á Eiðum var gott að alast upp en samfélagið þar var skólasamfélag og mikil samheldni ríkti meðal heimafólks og Eiðafólkið eins og ein stór fjölskylda.

Ungu prestshjónin komu í Eiða árið 1956 og þremur árum síðar fæddist elsta barn þeirra. Þau áttu eftir að búa þar fram undir aldamótin síðustu, í rúm 40 ár, og allan tímann gegndi sr. Einar prestskap og var um tíma prófastur. Kona hans, Sigríður, stóð við hlið manns síns og sinnti margvíslegum störfum sem húsmóðir auk starfa í þeirri víðáttumiklu sókn sem prestakallið var. Það má ímynda sér að það hafi verið viðbrigði fyrir Sigríði, 21 árs, að koma austur í Eiða fjarri fjölskyldu sinni á Blönduósi. Þá hefur rólyndi og yfirvegun hennar komið sér vel en einnig er ég viss um að henni hefur verið vel tekið af nágrönnum á staðnum. Samgangur milli fólks var mun meiri í þá daga og heimilin voru gjarnan vettvangur í leik barnanna. Ég minnist þess hve mér fannst prestsbústaðurinn sem reistur var árið 1962 glæsilegt hús, þar var allt innréttað eftir tísku þess tíma sem einkenndist af tekki og gleri og fallegum innréttingum. Heimili þeirra Sigríðar og Einars var mjög fallegt enda voru þau hjón mikil snyrtimenni og tóku vel á móti gestum og gangandi. Þau sinntu lóðinni af alúð og ræktuðu þar tré og blóm sem hafa blómstrað svo eftir var tekið. Það var alltaf gott að koma til þeirra og stundum passaði ég eldri börn þeirra hjóna, Onna og Rúnu. Mér er minnisstætt eitt skiptið að ég heyrði söngl úr einu herberginu og þegar ég spurði krakkana hvaða hljóð þetta væri sögðu þau að þetta væri bara hún amma þeirra að fara með bænirnar sínar. Ég minnist þess líka að Sigríður og Einar sýndu börnum áhuga enda sinntu þau bæði kennslu. Sigríður kenndi mér handavinnu einn vetur í barnaskólanum, hún var mikil hannyrðakona og allt mjög vandað og fallegt sem hún vann í höndunum.

Þegar foreldrar mínir fluttu frá Eiðum um miðjan 8. áratuginn hélst gott samband við Sigríði og Einar og skipst var á heimsóknum, þau litu gjarnan við í kaupstaðarferðum sínum í Egilsstaði. Síðar þegar bæði hjón höfðu flutt suður til Reykjavíkur vildi svo ánægjulega til að þau bjuggu í sama hverfi, einungis göngufæri á milli. Þráðurinn styrktist því enn frekar og stundum var hóað í fleira Eiðafólk, gamla vini og kunningja. Þá voru gjarnan rifjaðar upp gamlar og góðar stundir að austan sem allir skemmtu sér vel við. Heilsunni hrakaði smám saman og nú eru prestshjónin bæði látin, á sama ári með hálfs árs millibili. Það sýnir hversu náin þau voru. Við mamma erum afskaplega þakklátar fyrir sólskinsstund á heimili Sigríðar nokkrum dögum eftir andlát Einars með Hildi dóttur hennar. Þá var heilsu Sigríðar farið að hraka en hún horfði bjartsýn fram á betri tíð og brosti sínu fallega brosi og þakkaði „Ingu sinni“ fyrir komuna með sinni mildu rödd.

Við sendum fjölskyldu Sigríðar innilegar samúðarkveðjur.

Megi hún hvíla í friði.

Eygló Eiðsdóttir.

Í starfi og leik var aldrei langt á milli sæmdarhjónanna, Sigríðar og sr. Einars. Þau voru með ýmsum hætti ólík, en þar sem eldmóður og áhugi sköruðust féll það best að báðum. Samtaka í að hlúa að afkomendum og fjölskyldum og þeim verkefnum sem embætti sóknarprests og prófasts á Eiðum kölluðu eftir. Hugur og hönd sem einn maður væri.

Svo er Guði fyrir að þakka að þau upplifðu ekki þann viðsnúning sem orðinn er hjá forystu þjóðkirkjunnar að gjalda nývígðum prestum varhug við að blanda fjölskyldunni í „starfið“ eins og það nú heitir.

Mátti glögglega finna í fari Sigríðar þá gleði og lífsfyllingu sem þátttaka hennar og framlag veitti og varð hennar gæfa. Fleiri en fjölskyldan, ættmenni og vinir fundu fyrir alúð og myndarskap húsmóður. Samfélagið og börn og starfsfólk í Sumarbúðum þjóðkirkjunnar á Eiðum fengu sinn ríkulega skerf.

Sigríður var ásamt mér og fleirum lengi í stjórn Kirkjumiðstöðvar Austurlands, sérstaklega meðan á uppbyggingu stóð við Eiðavatn. Í þeirri miklu vinnu var hún glögg og ötul við að leggja á ráðin með einni undantekningu þó. Öðrum falið að sjá um kaup á tækjum og búnaði í eldhús Kirkjumiðstöðvarinnar. Til allrar hamingju var hún að mestu ánægð með þau innkaup nema að eldunarpannan þótti í stærra lagi og hún þá ekki lengi að skipta henni út fyrir minni og hentugri. Svo voru það skeiðarnar, hluti borðbúnaðar. Kvaðst hún ekki skilja í þeim sem sá um innkaupin að velja þessa tegund fyrir börn. Víddin slík að börnin þyrftu þá að brosa út undir eyru um leið og skeiðinni var smokrað inn fyrir varir. Nefndust þær upp frá því bros-skeiðar. Öllum til léttis rættist hugboðið og næsta víst að ekkert barn á meðan á dvölinni stóð gat varist brosi.

Iðulega sat Sigríður héraðsfundi prófastsdæmisins sem fulltrúi sóknarinnar og lét að sér kveða. Þótti prestum þáttur hennar í þjónustu við kirkjuna vera slíkur að hún ætti fremur heima í þeirra hópi. Þegar hún var ávörpuð kom fyrir að „séra“-titlinum væri bætt framan við með alvöruþunga, eins og ekkert væri eðlilegra og nefndu hana séra Sigríði. Þessu var jafnan vel tekið enda ljóst að þakklætið og virðingin sem að baki bjó var ósvikin.

Um árabil sóttu eldri borgarar hvarvetna af Austurlandi og víðar orlofsdvöl í Kirkjumiðstöðinni. Þjónustu við það fólk sinntu þau hjónin af einstakri lipurð og trúmennsku. Flykktist fólk þangað ár eftir ár og rómaði dvölina.

Upp úr stendur við leiðarlok ómetanlegt hugsjónastarf fyrir hönd kirkjunnar. Helst það að búa börnum kjarngott veganesti trúarinnar. Slíkan áttavita átti fjölskyldan sameiginlegan og aldrei horft í viðveru, vinnu og fyrirhöfn. Allt gjafir Guði til handa til blessunar þeim sem hlotnaðist. Að eiga slíkum kröftum á að skipa er gulls ígildi.

Bilið á milli jarðlífsloka þeirra beggja var stutt. Spurningin áleitin; hvernig gat annað eiginlega orðið?

Guði séu þakkir fyrir þau forréttindi að fá að vera þeim hjónum samferða. Það var ævintýri, ánægja og ávinningur. Guð blessi hugljúfa minningu og ástvini alla.

Davíð Baldursson.