Fagnaðarfundir Fjöldi fólks tók á móti skipverjunum af Úranusi þegar þeir komu í land.
Fagnaðarfundir Fjöldi fólks tók á móti skipverjunum af Úranusi þegar þeir komu í land. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1960 „Ef ég fæ filmuna skal ég framkalla Úranus“ Ólafur K. Magnússon ljósmyndari

Baksvið

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Fréttir bárust af því í janúar árið 1960 að óttast væri um Reykjavíkurtogarann Úranus, sem hafði verið á veiðum á Nýfundnalandsmiðum frá því í desemberlok. Afar slæmt veður var komið á þessu svæði og aðrir togarar sem voru á leiðinni þangað snéru við þegar þeir áttu um 200 sjómílur ófarnar á miðin vegna slæmrar veðurspár og frosta.

Úranus RE-343 var einn af nýsköpunartogurunum svonefndu, 655 tonna skip með gufuvél smíðað í Aberdeen í Skotlandi árið 1949. Skipið var í eigu Júpíters hf. Alls voru 28 í áhöfn og skipstjóri var Helgi Kjartansson.

Morgunblaðið segir frá því miðvikudaginn 13. janúar að síðast hafi heyrst til Úranusar á sunnudagskvöld þegar togarinn Þormóður goði, sem einnig var á svæðinu en á heimleið, náði sambandi við skipið. Byrjað var að undirbúa leit. Kanadíski flugherinn var í viðbragðsstöðu og bandaríska strandgæslan sendi skip á vettvang. Þá greindi Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna á Íslandi blaðinu frá því að allar herflugvélar Bandaríkjanna á leið milli Keflavíkur og Bandaríkjanna myndu hlusta vel í loftskeytatæki sín og þær, sem yrðu yfir leitarsvæðinu í björtu, myndu svipast um eftir togaranum. En veðrið var afar slæmt, vindhraðinn 65 sjómílur, sem svarar til 33 metra á sekúndu, og stórsjór.

Ólafur Björnsson, loftskeytamaður á Úranusi, sem var í leyfi í þessari veiðiför, sagði hins vegar við Morgunblaðið að hann teldi enga ástæðu til að óttast um skipið að svo komnu máli. Líklegast væri að loftskeytatæki skipsins hefðu orðið óstarfhæf af einverjum ástæðum. Úranus væri eitt besta sjóskip togaraflotans.

Djúp og þakklát gleði

Og daginn eftir gat Morgunblaðið fært lesendum þau tíðindi að Úranus væri fundinn og skipshöfn hans heil á húfi. Segir blaðið á forsíðunni að heit fagnaðarbylgja hafi farið um alla Reykjavík, þegar fregnin barst út um bæinn. „Í hinum gamla sjómannabæ ríkti síðara hluta dags djúp og þakklát gleði meðal almennings. Á heimilum sjómannanna á Úranusi snérist nagandi kvíði og óvissa upp í einlægan fögnuð og tilhlökkun til heimkomu ástvina, frænda og vina.“

Fram kemur að flugvél frá varnarliðinu fann skipið klukkan 16:45 daginn áður en með vélinni voru tveir menn frá Landhelgisgæslunni, Guðmundur Kærnested, sem átti síðar eftir að koma mikið við sögu þorskastríðanna við Breta, og Guðjón Jónsson. Skipið var þá um 490 sjómílur frá Reykjanesi. Loftskeytatæki Úranusar voru í ólagi en skipverjar gáfu merki um að allt væri í lagi og óskuðu ekki aðstoðar.

Á forsíðu Morgunblaðsins var sönnun þess að Úranus væri heill á húfi, ljósmynd sem tekin var úr björgunarflugvél varnarlisðins sem sýndi skipið á siglingu. Ljósmyndin minnir raunar helst á kolateikningu af draugaskipi í gömlum sjóferðasögum enda segir í myndatexta að tekið hafi verið að rökkva eins og myndin beri með sér.

Tildrög þess að myndin birtist voru nokkuð söguleg. Í sýningarskrá fréttaljósmyndara árið 1977 skrifaði Matthías Johannessen, þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, að hann hefði óskað eftir myndinni því fólk þyrfti að sjá hana til að trúa að Úranus væri ofansjávar. Illa gekk að fá filmuna frá varnarliðsmönnum sem sögðu hana ekki sýna neitt að gagni. En þá hafi Ólafur K. Magnússon, ljósmyndari Morgunblaðsins, sagt: „Ef ég fæ filmuna skal ég framkalla Úranus.“ Þetta fannst varnarliðsmönnum ótrúlegt en létu filmuna samt af hendi eftir nokkurt þref og raunar mun sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hafa beitt sér fyrir að leyfið fékkst.

Í minningargrein um Ólaf, sem Elín Pálmadóttir blaðamaður skrifaði í Morgunblaðið í nóvember árið 1997, lýsir hún hvernig þessi framköllun gekk. „Óli hvarf inn í myrkraherherbergið. Á fyrstu myndinni mátti sjá depil, rétt eins og punkt í letri. Aftur og aftur hvart Óli inn í myrkraherbergið, síðast var hann með stækkarann kominn í stiga upp undir loft með myndina á gólfinu. Í hvert skipti kom meira í ljós og smám saman kom skipið út úr þokunni. Þarna var Úranus og hægt að færa þjóðinni fréttina um að skipið og mannskapurinn hefði bjargast.“

Matthías skrifaði í fyrrnefnda sýningarskrá, að á tuttugu ára ritstjóraferli sínum þætti honum vænst um þessa forsíðu Morgunblaðsins – og þessa mynd.

Morgunblaðið ræddi þennan dag við fjölskyldur nokkurra úr áhöfninni, þar á meðal við Hildi Jónsdóttur, konu skipstjórans Helga Kjartanssonar sem sagðist hafa daginn áður fengið þær fréttir að eitthvað væri að og það ætti að fara að leita.

„Ég sagði þeim alltaf að þeir væru ofansjávar. Einn góðvinur hringdi og sagði: „Við skulum vona það“ og fannst mér hann heldur dapur. Annar vinur okkar kom þó hingað í gær og taldi í okkur kjark, því auðvitað læddist efinn að.“

Og hvernig stóð á því, að þú varst svona viss um að þeir væru ofansjávar? spyr blaðamaður.

„Mig dreymdi hann ekkert, og það var mér nóg. Mig hefur alltaf dreymt Helga, þegar eitthvað hefur komið fyrir um borð. Mig dreymdi hann t.d. þegar stýrimanninn tók út af skipinu í hitteðfyrra.“

Smá andskotans hnútur

Úranus kom til hafnar í Reykjavík föstudagskvöldið 16. janúar. Skipið var fullt af fiski með um 280 tonn, sæmilegur reytingur, er haft eftir Helga skipstjóra.

Morgunblaðið segir að mikill fjöldi fólks hafi safnast niður á togarabryggju þegar Úranus renndi inn í höfnina. „Kaðlar höfðu verið strengdir nokkuð frá bryggjubrún til þess að halda forvitnum áhorfendum frá. Glampar frá ljósmyndatækjum blaðaljósmyndaranna sáust hér og hvar enda munu hundruð mynda hafa verið tekin þegar hið langþráða skip kom af hafi. Það mun vart hafa ríkt meiri fögnuður yfir endurheimt nokkurra manna síðan flugvélin Geysir fannst á Vatnajökli fyrir áratug. Það er óhætt að fullyrða að fagnaðaralda fór um hugi hvers einasta Íslendings þegar gleðitíðindin bárust. Og Reykvíkingar undirstrikuðu þennan fögnuð með því að hópast niður á bryggju í gærkvöldi,“ segir blaðið.

„Þetta var smá andskotans hnútur sem kom á brúna stjórnborðsmegin og braut nokkra glugga og braut upp hurðina á loftskeytaklefanum og þá blotnuðu tækin,“ hefur blaðið eftir Helga skipstjóra.

Um heimferðina segir Helgi: „Hún gekk ágætlega. Okkur var alveg sama þótt við værum sambandslausir við land, en við vissum að fólkið heima myndi fara að óttast um okkur. Okkur leið ágætlega. Það var bara talsverður mótvindur sem tafði okkur. Við höfum oft fengið verra veður en þetta og ekkert komið fyrir. Það kom engin ísing. Það er alvanalegt að fá svona hnúta. Hann hitti bara illa á núna.“

– Og ætlarðu aftur á Nýfundnalandsmið?

„Nei ekki á næstunni. En mig vantar eina fjóra menn í næsta túr og ég ætla að bjóða ykkur blaðamönnunum, sem eruð hér inni, að koma með sem hásetar.“

Úranus landaði síðast í Reykjavík 7. mars árið 1974 og var siglt til Spánar í apríl sama ár þangað sem hann var seldur í brotajárn. Skipið var tekið af skrá í maí árið 1974. Helgi Kjartansson lét af skipstjórn á Úranusi í maí 1961 og tók við öðru skipi en fór í land 1965. Hann lést árið 1978, 64 ára að aldri. Hildur kona hans lést 1985, 76 ára að aldri.