Náttúruöflin Að sögn Benedikts eru tíð eldgos á Reykjanesskaga nokkuð sem Íslendingar þurfa að fara að venjast.
Náttúruöflin Að sögn Benedikts eru tíð eldgos á Reykjanesskaga nokkuð sem Íslendingar þurfa að fara að venjast. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is „Við vorum kannski ansi óvissir í væntingum um hvernig þetta gos myndi haga sér. Ég held að við höfum alla vega gert ráð fyrir því að þessi byrjunarfasi myndi ekki halda áfram, sem sagt að það myndi draga úr þessu eins og það gerði,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort gosið við Sundhnúkagígaröðina sé að haga sér eins og vísindamenn spáðu eða að sýna á sér óvæntar hliðar.

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Við vorum kannski ansi óvissir í væntingum um hvernig þetta gos myndi haga sér. Ég held að við höfum alla vega gert ráð fyrir því að þessi byrjunarfasi myndi ekki halda áfram, sem sagt að það myndi draga úr þessu eins og það gerði,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur og fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, spurður hvort gosið við Sundhnúkagígaröðina sé að haga sér eins og vísindamenn spáðu eða að sýna á sér óvæntar hliðar.

Sprungur gætu opnast víðar

„Miðað við hvernig það byrjaði þá er þetta svona dæmigert gos sem byrjar af miklum krafti en dregur svo hratt úr, því það kemur greinilega upp undir þrýstingi, á meðan skjálftahrinan er á fullu en ekki í rólegheitum eins og hin gosin. Þannig að að því leyti er þetta eins og við er að búast, en svo hversu mikið dregur úr því er kannski eitthvað sem maður getur ekki sagt til um fyrir fram,“ segir Benedikt. Bætir hann við að alltaf séu ákveðnar líkur á því að það geti opnast sprungur annars staðar.

„Eins og staðan er núna eru þær kannski ekki mjög miklar, en ef það myndi hætta að gjósa fljótlega, þá mætti kannski búast við því að það gæti byrjað aftur. Það er ekki endilega búið því það er ekki hægt að bara afskrifa það um leið og það er búið,“ segir hann og tekur fram að ef önnur kvika kæmi upp myndi það væntanlega gerast í nágrenni við gígana sem eru virkir núna, en ekki allt annars staðar.

„Almennt séð myndum við ekki útiloka að það gæti komið upp gos einhvers staðar yfir kvikuganginum eins og hann myndaðist núna á mánudaginn var.“

Svæðið vaknað af dvala

Að sögn Benedikts má búast við áframhaldandi virkni á Reykjanesskaga næstu árin. Spurður að því hvort svona regluleg eldgos séu eitthvað sem við þurfum kannski bara að venjast segir hann svo vera.

„Já, ég held það og myndi gera ráð fyrir því, ekki endilega við Grindavík heldur á Reykjanesskaganum. En við vitum þó ekkert hvernig þetta þróast og í raun getum við litlu spáð um það. Við gerum kannski ráð fyrir að þetta sé bundið við þetta svæði í einhvern tíma, það er ekkert ólíklegt.“ segir Benedikt.

Óhætt sé að segja að eldvirkni á Reykjanesskaga sé „alveg komin á fullt aftur“.