— Árni Sæberg Morgunblaðið/´Árni Sæberg
Erla Þóra veit fátt betra en að bjóða upp á villibráð um hátíðirnar og ætlar meðal annars að bjóða upp á grafinn lax með bláberjum og dilli í forrétt í hátíðarbúningi. Ætlum okkur að fara alla leið Hún er mikil keppnismanneskja og tók meðal annars…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Erla Þóra veit fátt betra en að bjóða upp á villibráð um hátíðirnar og ætlar meðal annars að bjóða upp á grafinn lax með bláberjum og dilli í forrétt í hátíðarbúningi.

Ætlum okkur að fara alla leið

Hún er mikil keppnismanneskja og tók meðal annars þátt í heimsmeistarakeppni matreiðslumanna fyrir jól í fyrra þar sem þau náðu framúrskarandi árangri. „Ég er á leiðinni út með íslenska kokkalandsliðinu í febrúar á komandi ári til að taka þátt í Ólympíuleikunum sem haldnir verða í Stuttgart. Ég er því búin að standa í ströngu þessa dagana með landsliðinu þar sem stífar æfingar eru í gangi fyrir keppnina en við ætlum okkur að ná langt og horfum til þess að fara á verðlaunapallinn,“ segir Erla og brosir.

Borinn fram með graflaxsósu

Erla Þóra ætlar þó að leyfa sér að njóta jólanna í faðmi ástvina og snæða ljúffengan mat. Hún er mikið jólabarn og hefur gaman af því að töfra fram kræsingar í hátíðarbúningi, sérstaklega villibráð. „Mér finnst ómissandi að bjóða upp á góðan forrétt sem gleður bæði auga og munn og grafinn lax finnst mér eiga vel við um jólin. Ég ætla að bjóða upp á grafinn lax með bláberjum og dilli í forrétt á aðfangadagskvöld og bera hann fram með graflaxsósu sem ég geri frá grunni. Allar sósur eru bestar sem gerðar eru frá grunni,“ segir Erla Þóra.

Landsliðskokkurinn deilir hér með lesendum Morgunblaðsins sinni uppáhaldsuppskrift að graflaxi sem hún marínerar með bláberjum og dilli og uppskriftin að sósunni er líka úr smiðju hennar.

Grafinn lax með bláberjum og dilli

1 laxaflak

100 g salt

100 g sykur

100 g bláber, frosin

60 g dill, fínt saxað

1 stk. límóna einungis börkurinn

1 stk. sítróna, einungis börkurinn

Blandið saman salti og sykri og annaðhvort merjið bláberin eða setjið þau í matvinnsluvél. Blandið öllu saman og setjið yfir laxinn. Geymið í kæli í 6-8 klukkustundir. Skolið þá laxinn.

Graflaxsósa

100 g majónes

180 g sýrður rjómi

1 msk. sætt sinnep

1 msk. sterkt sinnep

1 msk. hunang

1 msk. púðursykur

2 msk. dill

Öllu blandað saman. Gott að leyfa sósunni að standa í kæli yfir nótt.

Framsetning

Sneiðið laxinn í fallegar þunnar sneiðar og raðið upp á viðarbretti eða fallegan disk. Setjið graflaxsósuna í skál og setjið með á viðarbrettið. Skreytið með kryddjurtum, greni, ferskum berjum eða því sem ykkur finnst fallegt að setja með. Berið fram og njótið.