Upplestur Erna Rósa samdi söguna fyrir bróður sinn þegar hún var 12 ára.
Upplestur Erna Rósa samdi söguna fyrir bróður sinn þegar hún var 12 ára. — Ljósmynd/Ívar Eyþórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Anna Rún Frímannsdóttir annarun@mbl.is

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Söfnunin tók kipp þessa síðustu þrjá daga áður en henni lauk en þá var ég búin að ná 60% af markmiðinu. Ég trúði bara ekki að þetta væri að gerast en allt í einu hrannaðist stuðningurinn inn og ég tók bara dansspor hérna inni á skrifstofu við tölvuna því ég átti ekki von á að þetta myndi hafast miðað við hvað þetta gerðist hægt í byrjun,“ segir Erna Rósa Eyþórsdóttir rithöfundur sem nýlega gaf út sína fyrstu bók, Litlu geimskipaleiguna, eftir að hafa safnað fyrir henni á Karolina Fund.

Ætlar að gefa út fleiri bækur

Bókin er hugsuð sem sú fyrsta í seríu en Erna Rósa stefnir á að gefa út fleiri. „Ég er komin með söguþráðinn að næstu bókum og núna er ég í raun bara að einbeita mér að einni bók í einu. Þessi bók kom bara út núna í byrjun desember og ég missti næstum því af jólabókaflóðinu því það þurfti að endurprenta bókina. Það urðu mistök í prentuninni þannig að ég fékk hana mjög seint svo ég er bara nýbyrjuð að dreifa henni í búðir og koma henni til þeirra sem styrktu í gegnum Karolina Fund. En um leið og það klárast þá ætla ég að fara að hafa aftur samband við hana Ninnu, sem myndskreytti bókina, og þróa með henni karakterana fyrir næstu bók.“

Segist Erna Rósa hafa reynt eins og hún gat að gera gott úr stöðunni og láta ekki mistök prentsmiðjunnar slá sig út af laginu.

„Ég hélt bara ró minni og var í beinu sambandi við prentsmiðjuna sem er úti í Lettlandi. Við fundum svo sameiginlega lausn á þessu. Ég fékk einn kassa sendan í hraðsendingu um leið og þau náðu að prenta. Það komu því 40 eintök til mín strax, sem ég náði að koma í búðir, og svo kom restin viku síðar en þá gat ég farið að halda útgáfuhófið og anda léttar.“

Mælir með þessu útgáfuferli

Erna Rósa kaus að fara þá leið að gefa bókina út sjálf og segist hún klárlega mæla með því að fara þá leið. Þá stóð hún sjálf straum af öllum kostnaði auk þess að sjá alfarið um dreifingu bókarinnar.

„Það fólst alveg ótrúlegur lærdómur í því að gefa út bókina sjálf og þó svo að það hafi ýmislegt farið úrskeiðis, eins og með prentunina, er ég svo þakklát og ánægð með að hafa farið þessa leið því nú kann ég þetta,“ segir hún og bætir því við að hún ætli sjálf að halda áfram að gefa út næstu bækur af Litlu geimskipaleigunni. „Ég er svo með aðrar sögur sem ég er búin að skrifa og mig langar líka að sjá hvernig það er að gefa út í gegnum útgáfufélag. Ég er búin að senda eitt eintak á eitt útgáfufélag og fæ vonandi svör eftir áramót. Maður veit náttúrulega ekki hvort það verður samþykkt en ég er þá alla vega búin að prófa.“

Spurð að lokum hvort hún lumi á ráði fyrir þá sem eiga kannski handrit í skúffunni hvetur Erna Rósa fólk einfaldlega til að taka stökkið. „Það er erfiðast að byrja, eins og í þessu tilfelli, en það tók mig 25 ár að koma þessu niður á blað. Bara byrja hægt og rólega, það er alltaf hægt að setjast niður í fimm mínútur og skrifa og svo er sniðugt ef fólk vill gefa út sjálft að hafa samband við þá aðila sem eru að auglýsa og bjóða fram aðstoð, eins og Bókasamlagið og fleiri. Þegar ég hitti hana Kikku hjá Bókasamlaginu fékk ég þá hvatningu sem ég þurfti til að klára þetta því hún hélt í höndina á mér.“