Vigur-Breiður Elsti fornbátur landsins.
Vigur-Breiður Elsti fornbátur landsins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í bókinni Fornbátar á Íslandi er fjallað um 54 fleytur og notendur þeirra.

Helgi Máni Sigurðsson

„Við Íslendingar erum eyþjóð. Frá upphafi byggðar hafa íbúar hér reitt sig á hvers kyns fley til siglinga, fyrir ferðir út og heim, vöruflutninga til og frá landinu og til að draga lífsbjörg úr sjó.“ Með þessum orðum byrjar Guðni Th. Jóhannesson forseti ávarp sitt í bókinni Fornbátar á Íslandi. Hann fer þar með einföld sannindi sem kannski voru óþörf en stundum sést okkur yfir það sem mest blasir við.

Að vera eyþjóð fjarri meginlöndum hefur verið bæði kostur og galli. Atlantsálar hafa til að mynda oft haldið okkur frá vígaferlum og styrjöldum í gegnum aldirnar. En einangrun landsins hefur einnig hamlað framförum á ýmsum sviðum. Til að mynda þurftum við að finna hjólið upp á nýtt um miðja 19. öld að því er best verður séð. Staðan á sviði siglinga og fiskveiða var einnig merkilega frumstæð fram undir lok 19. aldar. Mikil þróun hafði átt sér stað í skipasmíðum í Evrópu á síðmiðöldum sem varð til þess að Englendingar og fleiri þjóðir tóku að sækja á Íslandsmið. Í nokkrar aldir höfðu Íslendingar síðan fyrir augunum erlendar skútur í tugatali, knúnar vindafli, sem mokuðu upp afla árið um kring. Sjálfir héldum við okkur við skektur, opna árabáta, sem ekki var unnt að sækja sjóinn á nema skammt frá landi og þegar sæmilega viðraði.

Rétt er samt að árétta að árabátarnir höfðu sína kosti og skiluðu sínu. Þeir voru fjölmargir, iðulega á annað þúsund talsins, allt umhverfis landið. Og sjómenn þess tíma voru harðgerir og kappsamir, fóru í róðra hvenær sem tækifæri gafst og sóttu drjúgan afla. En segja má að miðaldir hafi ríkt hér í sjómennsku lengst af. Það tók að rofa til á 19. öld þegar skútuútgerð jókst sem kom fljótt fram í aukinni velmegun í landi, meðal annars bættum húsakynnum. En afgerandi umskipti urðu ekki fyrr en í byrjun 20. aldar þegar vélbátaöld gekk í garð, árið 1902, og togaravæðing hófst, 1905.

Siglinga- og fiskveiðisaga landsmanna er víða skráð í máli og myndum eins og vera ber. Sömuleiðis hefur hennar verið minnst með varðveislu sögulegra minja um sjómennsku, ekki síst fornbáta en einnig verbúða, veiðarfæra, ýmissa verkfæra o.s.frv. Minjar eru í raun traustustu heimildirnar sem til eru um söguna, þær er hvorki hægt að falsa með góðu móti né rangtúlka. Og með því að skoða þær, á safni eða annars staðar, komast menn í eins áþreifanlegt samband við fortíðina og kostur er.

Í ritverkinu Íslenskir sjávarhættir eftir Lúðvík Kristjánsson, sem út kom fyrir fjórum áratugum, var myndarlega fjallað um sjóminjar. En síðan hafa þeim ekki verið gerð skil eins og vert er. Til að bæta örlítið úr því og vekja athygli á skipa- og bátaarfleifð landsmanna var bókin Fornbátar á Íslandi gefin út. Í henni er fjallað um 54 fleytur og notendur þeirra. Langflestar eru þær aldursfriðaðar samkvæmt lögum, þ.e. smíðaðar fyrir 1950. Hér er aðeins um úrval að ræða, heildarfjöldi fornbáta hérlendis er meiri en 250.

Einn af þekktari bátum bókarinnar nefnist Pétursey, smíðuð 1855, og er til sýnis í Skógasafni undir Eyjafjöllum. Þórður Tómasson, safnvörður í Skógum, sem naut ómældrar virðingar, sagði á sínum tíma að Pétursey væri höfuðprýði safnsins. Öllu sterkari meðmæli er vart hægt að gefa bát en hann stendur vel undir þeim. Annað fley, sérlega svipmikið og með merka sögu, er hákarlaskipið Ófeigur, smíðaður 1875, í byggðasafninu að Reykjum í Hrútafirði. Yngsti báturinn er síðan Húni II, smíðaður 1963, plankabyggður eikarbátur sem gerður var upp á glæsilegan hátt og siglir með skólahópa og ferðamenn um Eyjafjörðinn á sumrin.

Aðrir bátar bókarinnar eru einnig stórmerkir hver á sinn hátt, þeir hafa allir sinn karakter og sumir eru þeir einu sinnar tegundar sem eftir eru. Þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum og gegndu mismunandi hlutverkum. Meirihlutinn var fiskibátar en einnig eru í bókinni flutningabátar, ferðabátar, dráttarbátar, varðskip og skemmtibátar. Elsti báturinn er frá 1820 og hinn yngsti frá 1963.

Ásamt því að segja sögu bátanna er fjallað í bókinni um sjómennina sem notuðu þá. Þeir voru margir eftirminnilegir og kemur fram ýmis fróðleikur um þá, feril þeirra og einstaka atburði. Þá prýðir bókina ríkulegt myndefni.

Höfundur er sagnfræðingur.